Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Prosecco-freyðivín í útrýmingarhættu
Utan úr heimi 14. september 2023

Prosecco-freyðivín í útrýmingarhættu

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Freyðivínið Prosecco gæti horfið vegna loftslagsbreytinga, ef svo fer fram sem horfir.

Sérfræðingar vara við því að sum af uppáhaldsvínum Evrópubúa geti mögulega þurrkast út vegna loftslagsbreytinga. Eru þar nefnd til sögunnar Burgundy, Grand Cru og Cabernet Sauvignon en þó fyrst og fremst Prosecco sem framleitt er í fjallavíngörðum Ítalíu og er einn allra vinsælasti drykkur álfunnar.

Það er hin tortímandi blanda jarðvegsrýrnunar og veðuröfga sem er að ganga af Prosecco dauðu og hefur þau áhrif að vínberjauppskeran fer stöðugt minnkandi. Í grein á Euronews segir frá nýrri rannsókn sem birt var í iScience-tímaritinu í júlí og er niðurstaða hennar að Prosecco-uppskeran sé viðkvæm og í hættu. Segir dr. Paolo Tarolli hjá Padova-háskóla á Ítalíu að hættan sé ekki aðeins að tapa landbúnaðarafurð eða verða vitni að landslagsbreytingum, heldur hafi þetta neikvæð áhrif á staðbundin hagkerfi. „Hætta er á að við glötum sögu heilu samfélaganna og menningarrótum þeirra,“ segir Tarolli í greininni.

Misjöfn og oft og tíðum mjög vond veður hafa gert vínframleiðendum erfitt um vik. Geysimiklar og oft mjög skyndilegar rigningar hafa í för með sér jarðvegseyðingu þegar jarðvegi brekkna í bröttum vínekrum Norður-Ítalíu skolar burt. Á hinn bóginn eru miklir þurrkar sem gera áveitu mjög erfiða. Síðasta vor einkenndist af miklum rigningum og hagléljum og í kjölfarið kom afar heitt sumar. Framleiðendur áætla að þetta óstöðuga veðurfar geti dregið úr uppskeru ítölsku vínþrúgnanna um allt að fimmtung.

Vítahringur eftirspurnarinnar

Bragðið af hinu ofurvinsæla Prosecco er tilkomið vegna ræktunar þrúgnanna í mikilli hæð yfir sjávarmáli. Fjallaræktaðar vínberjaþrúgur eru minni og hafa hærra hlutfall hýðis og safa sem gefur þeim sterkara bragð. Þær fá líka mikla sól og lægra hitastig vegna hæðar sem kemur í veg fyrir að þrúgurnar bakist. Sérlega erfitt þykir þó að rækta í þessum bröttu brekkum sem hafa sumar hverjar yfir 30% halla.

Eftirspurn eftir þrúgunum er gríðarleg og er sögð hafa aukist um rúmlega 33% á sl. fimm árum. Til samanburðar jókst eftirspurn eftir frönsku kampavíni um 1% á sama tímabili.

Eins og þetta sé ekki nóg þá segir Tarolli að lýðfræðilegar breytingar og fólksflótti úr dreifbýli hafi leitt til alvarlegs vinnuaflsskorts í fjöllunum sem um ræðir. Ástandið muni versna og æ erfiðara verði að fá fólk til uppskerustarfa. „Ný kynslóð er ekki tilbúin til að vinna við svona erfiðar aðstæður ef efnahagslegur ávinningur er óverulegur,“ segir hann.

Ásókn heimsins í Prosecco hefur þrýst á meiri ræktun í fjöllunum og sem slík orðið völd að jarðvegseyðingu. Fyrir nokkrum árum vann hópur landfræðinga við Padua-háskóla rannsókn á jarðvegseyðingu og framleiðslusjálfbærni Proseccos. Niðurstaða þeirra var m.a. að allt að 74% af jarðvegstapi á Veneto-svæðinu, einkum í suðurhlíðum fjalllendisins, var beinlínis vegna Prosecco-framleiðslu eða jafngildi um fjögur hundruð þúsund tonna af jarðvegi árlega. Jarðvegurinn er viðkvæmur og rýr og gróðursetning vínviðarins veikir hann, auk þess sem sumir framleiðendanna nota illgresis- og skordýraeitur sem dregur enn frekar úr gæðum moldarinnar og skilar sér út í ár með tilheyrandi áhrifum á lífríki þeirra. Þegar veðuröfgar bætast ofan á er þetta talið tapað spil þrátt fyrir að framleiðendur hafi reynt að svara eftirspurn með sívaxandi ræktun í fjöllunum. Reynt hefur verið að bregðast við með gróðursetningu limgerða kringum vínekrur í þeirri viðleitni að jarðveginum skoli ekki burt í rigningum.

Hrísgrjón, ólífur og bygg í hættu

Það er ekki aðeins vínberjaræktun sem á erfitt uppdráttar á tímum loftslagsvár. Sem dæmi um slíkt innan Evrópu má nefna að uppskera hefur minnkað verulega á hrísgrjónum á Norður-Ítalíu, ólífuolíu á Spáni og byggi í Bretlandi.

Milliríkjanefnd um loftslags- breytingar (IPCC) hefur varað við því að með 1,5 gráða hlýnun muni um 8% af ræktuðu landi jarðarinnar verða ónothæft eða óhentugt undir landbúnað. Samkvæmt skýrslu World Meterological Organization, sem birt var í vor, eru taldar 66% líkur á að árlegur meðalhiti á heimsvísu fari í 1,5 gráður yfir hitastigi fyrir iðnbyltingu, á næstu fimm árum.

Skylt efni: freyðivín | kampavín | Vín

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...