Glýfosfat-ónæmi staðfest
Vísindamenn hafa fundið illgresi sem er ónæmt fyrir plöntueitrinu glýfosfat, sem er virka efnið í Roundup.
Hópur vísindamanna á vegum ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðar í Bretlandi staðfesti þetta eftir að hafa skimað í gegnum fræsýni frá sveitabæ í Kent-sýslu. Illgresið sem um ræðir er einært rýgresi sem veldur oft skaða við hveitirækt á Bretlandi. Frá þessu greinir Guardian.
Þeir illgresiseyðar sem eru notaðir hvað mest í heiminum eru byggðir á glýfosfati. Í Bretlandi er það mikið notað til að hreinsa burt allan gróður í flögum og gera klárt fyrir sáningu. Glýfosfat drepur ekki plöntur sem hafa verið erfðabreyttar til þess að þola efnið. Líkur hafa verið leiddar að tengslum milli krabbameins og glýfosfats. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin setti efnið á lista yfir mögulega krabbameinsvaldandi efni árið 2015.
Vísindamenn segja þessa uppgötvun vera ákveðið viðvörunarmerki um að bændur skuli ekki treysta um of á illgresiseyðinn. Mælt hefur verið með því að bændur beiti fleiri verkfærum, eins og skiptirækt, til að losna við illgresi úr sínum ökrum
Ekki er talin mikil hætta á almennri útbreiðslu illgresis með glýfosfat-ónæmi eins og staðan er, en hvatt er til árvekni í nágrenni þess svæðis þar sem ónæmið fannst.