Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Séð yfir uppbyggingu á starfsstöð Landeldis við Þorlákshöfn.
Séð yfir uppbyggingu á starfsstöð Landeldis við Þorlákshöfn.
Mynd / Aðsend
Fréttir 10. nóvember 2022

Úrgangur landeldisfyrirtækja er ónýtt auðlind

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Á málþinginu Græn framtíð, sem haldið var á degi landbúnaðarins 14. október á Hilton Reykjavik Nordica, flutti Rúnar Þór Þórarinsson erindi, en hann er yfirmaður sjálfbærni og nýsköpunar hjá Landeldi við Þorlákshöfn og stjórnarformaður Landeldissamtaka Íslands (Eldís).

Þar kom fram að stórt verkefni væri í vinnslu hjá fyrirtækinu, þar sem markmiðið væri að hefja framleiðslu á áburði við Þorlákshöfn úr úrgangi frá öllum landeldisstöðvum á Íslandi í bland við búfjáráburð.

Góður rómur var gerður að erindi Rúnars Þórs Þórarinssonar á málþinginu.

Erindi Rúnars bar yfirskriftina Visthæfing landeldis: Fiskúrgangur í kröftugan áburð. Rúnar sagði að í marsmánuði árið 2021 hafi farið af stað vinna innan fyrirtækisins varðandi það sem nefnt er vist­ hæfing landeldis. Það felur í sér hámarks nýtingu hráefnis með endurvinnslukerfi. Um þrepaskipta lausn væri að ræða þar sem úrgangur væri endurunninn á vistvænan hátt frá fulleldi fisks á landi þar sem afurðin væri kröftugur, umhverfisvænn og ódýr áburður sem nýtist til ræktunar í landbúnaði, skógrækt og við landgræðslu.

Fiskimykja rík af fosfór

Rúnar sagði að magn úrgangs frá landeldi væri gríðarlegt og gert væri ráð fyrir að frá fyrirtækinu Landeldi einu og sér muni magnið verða yfir 40 þúsund tonn árið 2030 – en þúsundir tonna munu falla til árlega næstu áratugi.

Hann sagði að með því að blanda saman mykju frá fiskeldi og skepnuhaldi yrði áburðurinn breiðvirkur. Helstu næringarefnin, kalí, köfnunarefni og fosfór, sem plöntur þyrftu jafnan til vaxtar og viðgangs, væru að finna í blandaðri mykjunni. Fiskimykja, dauður fiskur og slóg væru afar rík af köfnunarefni og fosfór. Skepnumykjan sæi svo áburðinum fyrir kalí og með vinnslulausnum, sem Landeldi hefur þegar hannað, mun saltið í lausninni þynnast niður í tvö til þrjú prósent – sem sé skaðlaust gróðri.

Mun geta fullnægt áburðarþörf alls Íslands

Rúnar telur að þetta verkefni geti uppfyllt áburðarþörf Íslands alls, flutt hafi verið inn um 56 þúsund tonn tilbúins áburðar á síðasta ári – en innan tíu til tólf ára gæti landsframleiðsla landeldis og landbúnaðar samanlagt numið 100 þúsundum tonna af áburði árlega.

Gangi samningar, fjármögnun og samvinna eftir gæti vinnsla hafist árið 2025 og líklegt sé að framleiðsla fari strax á fyrsta ári í 15 þúsund tonn.

Áframhaldandi verðhækkanir á tilbúnum áburði

Verkefnið er að sögn Rúnars brýnt og komið á tíma, þar sem fosfór­námur heimsins séu tæmanlegar auðlindir. Heimsframleiðsla muni ná hámarki upp úr árinu 2033 og með viðvarandi flutningsvanda sé viðbúið að verð haldi áfram að hækka með tilheyrandi neikvæðum þjóðfélagslegum áhrifum. Innflutningur tilbúins áburðar væri nú þegar að sliga landbúnaðinn og í raun ógna sjálfstæði landsins. Kína nemur 24 prósent af fosfór heimsins úr jörðu og 14 prósent í Rússlandi.

Hann segir að Kína haldi öllu fyrir sig og Rússar hafi ekki aðgang að alþjóðlegum mörkuðum.

Áburðarverð á tilbúnum áburði sé komið í hæstu hæðir á heimsmörkuðum og því nauðsynlegt að snúa sér að nýtingu á næringarefnum úr lífrænum úrgangi, eins og fiskimykjunni.

Hún væri rík af köfnunarefni eneinnig fosfór, sem væri sérstaklega verðmætt þegar haft væri í huga hversu erfitt ástand er á heimsmörkuðum með áburðarefni. Rússland væri einn helsti framleiðandi þessa mikilvæga næringarefnis og þaðan væri nú enginn útflutningur vegna áhrifa frá stríðsátökunum í Úkraínu.

Grunnur að nýtingu næringarefna

Rúnar vitnaði til samstarfsverkefnis sem Matís heldur utan um og snýst um að greina magn lífrænna áburðarefna á Íslandi og tækifæri til aukinnar nýtingar. Í því verkefni hafi Landeldi fundið grunn að áætlun um hvort og hvernig hægt væri að nýta þessi næringarefni, með samstarfi landeldisfyrirtækja.

Í kjölfarið fékkst stuðningur úr opinberum styrkjakerfum til að hrinda áætluninni í framkvæmd og loks voru Landeldissamtök Íslands stofnuð síðasta sumar – sem eru samtök fiskeldisfyrirtækja í landeldi.

Stórt samstarfsverkefni er nú í gangi, að sögn Rúnars, um visthæfingu landeldis á Íslandi. Sótt hafi verið um 800 milljóna króna styrkfjárhæð til Evrópusambandsins til verkefnisins. Markmið þess er að reisa frumgerð áburðarframleiðslu með fiskimykju úr blönduðu eldi, sem yrði staðsett við Þorlákshöfn í Landnámshólfi.

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...