Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Eplayrkið ´Rödluvan´ sló öll met í aldingarðinum og gaf 6 kíló af ágætis bragðgóðum eplum. Myndir / HÞ
Eplayrkið ´Rödluvan´ sló öll met í aldingarðinum og gaf 6 kíló af ágætis bragðgóðum eplum. Myndir / HÞ
Á faglegum nótum 17. apríl 2018

Uppskeran aldrei verið betri

Höfundur: Helgi Þórsson

Aldingarðurinn í Kristnesi er verk Kristnesbænda. Hugmyndin er að rækta ber og ávexti og sjá hvað er gerlegt og hvað ekki. Fljótt kom í ljós að það myndi litlum áreiðanlegum árangri skila án skráningar. Sú skráning hefur farið fram í ræktunardagbók og ársskýrslum.

Fyrstu plöntur fóru niður sumarið 1999. Talsvert magn upplýsinga liggur því fyrir, ekki síst um uppskerutíma mismunandi yrkja, sem verður að teljast mikilvægt þar sem ótal erlend yrki ná ekki þroska hér í meðalári.

Tíðarfar var sérlega árið 2017. Útmánuðir voru mildir og vorið kom snemma. Maí var sérlega hlýr, júní í tæpu meðallagi, júlí og ágúst um meðallag og september og október sérlega hlýir.

Almennt gerði þessi góða tíð það að verkum að uppskeran hefur aldrei verið betri.

Aldrei áður komið plómur

Nokkur yrki af plómum eru í aldingarðinum, flest ung og hafa lítið blómstrað til þessa. Í vor varð nokkur blómgun á plómutrjám og litlir aldinvísar fóru að sjást skömmu síðar af yrkjunum Sinikka og Opal sem bæði eru sjálffrjóvgandi.

Plómur ´Sinikka´ við það að þroskast. Myndir frá 14/10.17. 

Nokkuð af plómuvísum skemmdust í frosti um miðjan september en þær sem stóðu í góðu skjóli af laufskrúði héldu áfram að þroskast. Sinikka plómurnar voru tíndar þann 14. október. Snotrar, litlar og dulítið rammar. Þá var enn stór græn plóma á yrkinu Opal sem augljóslega var seinni á ferðinni. Aldrei áður hafa komið plómur í aldingarðinum.

Eplatrén í miklu stuði

Yrkið Sävstaholm blómstraði fyrst að vanda 23/5, en í Kristnesi hafa epli aldrei áður blómgast í maí. Sumarið hófst með miklu blómskrúði sem fékk heimsóknir af ryðhumlu. Útkoman af því var mikill fjöldi vísa, sem endaði með fullþroska eplum af nokkrum yrkjum í október.

Samtals voru tínd um 7 kg af eplum, mest af Rödluvan sem gaf sérlega falleg og bragðgóð epli sem geymdust ágætlega. Þá voru nokkur falleg og góð epli á Ålingstrénu, nokkur ágæt á Sävstaholm en Haugmann blessaður olli nokkrum vonbrigðum með hörðum og súrum eplum. Ef til vill hefði hann þurft enn lengri tíma? Síðustu eplin voru tínd í lok október og þau voru í fínu lagi þrátt fyrir mörg næturfrost.

Það er rétt að geta þess að Rödluvan tréð sem mest gaf er átján ára gamalt og gefur nú fyrst uppskeru. Það var dásamleg tilfinning að fylgjast með eplatrjánum í allt sumar og fá svo þetta góða haust.

Kirsuber

Mikil blómgun var í Stellu kirsuberjum og fleiri yrkjum. Nokkur ber mynduðust á Van og Rauhalan en mest á Stellu. Samt var það svo að Stella ákvað að henda helmingnum af vísunum um mitt sumar. Þá byrjuðu þrestir að gogga í vísana um mitt sumar sem gefur sprungin og ljót ber þegar þau þroskast. Lausn á þessu gæti verið að setja fuglanet yfir trén löngu áður en berin fara að þroskast. Seinni partinn í ágúst var hægt að narta í ágætis Stellu kirsuber þótt þau væru ekki enn orðin dökkrauð eins og þau urðu síðar við fulla þroskun. Fremur varð eftirtekjan léleg í kirsuberjunum en líklega er það mest þröstunum að kenna.

Kirsuber ´Stella´. Skógarþrestirnir náðu að skemma mikið af kirsuberjum bæði löngu fyrir þroskun og einnig eftir að net var sett yfir.

Hindber

Fyrstu stöku hindberin voru þroskuð í byrjun ágúst þótt uppskera hæfist ekki að ráði fyrr en tíu dögum síðar. Fyrstu hindberjayrki voru Balder sem er fast á hömsum, harðgert, þyrnótt, Vene sem er þyrnótt og Gamla Akureyri sem er með smáum berjum. Um svipað leyti komu fyrstu ber á tvær fræplöntur af Balder og Gömlu Akureyri, sem með tíð og tíma gætu orðið að nýjum sortum, önnur er gul en  hin er snemma á ferð með góðum berjum og þyrnalítil. Fimm dögum síðar byrjuðu Maurin makea og Jatsii að mynda ber og fjórtán dögum síðar Mógilsá (Þrændarlög). Fimmtán dögum síðar Jatsii og átján dögum síðar Veten og loks tæpum mánuði síðar, snemma í september, byrjuðu Asker og Borgund.

Hindber.

Öll náðu þessi yrki að þroska sín ber í ár. Venjulega ná aðeins fyrstu yrkin að þroskast. Með öðrum orðum, Vene, Balder og Gamla Akureyri eru öruggustu hindberjayrkin. Samtals voru tínd 8,3 kg af hindberjum og síðast var skráð uppskera þann 19. september.

Rússaber Haskap/ Berjablátoppur/Hunangsber

Aðeins komu fáein rússaber í ár sem eru vonbrigði vegna þess að runnarnir gáfu rúmt kíló af berjum í fyrra. Ástæðan er líklega alltof mildir útmánuðir og alltof mörg hörð næturfrost eftir að runninn var farinn að vaxa. Þann 9/3 stendur í dagbók „rússaber eru farin að lifna“.

Jarðarber

Það vakti athygli hversu sein jarðarberjauppskeran var miðað við hversu snemma blómgun var á ferðinni. Svo virðist sem eitthvað í veðurfari hafi einnig haft þau áhrif að styttra var á milli uppskerutíma yrkja en venjulega.

Dimma var með fyrsta ber þroskað 15/7 svo Glima og Ljóska þrem dögum síðar. Þann 22. júlí voru þroskuð ber á Koronu, Önnu og Ostara. Aðrar sortir voru seinna á ferð. Þann 9. september var enn verið að tína ber. Þá voru það seini yrkin sem enn voru að gefa, Honeyoye, Polka, Senga sengana, Jonsok, Kaunotar, Lumotar, Ria og síðustu Korona berin voru tínd þann dag. Þegar komið er fram í september ná ber yfirleitt illa að þroskast þar sem óblíð haustveðrátta setur þeim stólinn fyrir dyrnar.

Eftirtalin ný yrki gáfu uppskeru í fyrsta sinn í ár. Ria, sem gaf mjög stór en fremur óregluleg, ljót ber og sein. Kaunotar fremur smá ber og sein. Lumotar, miðlungs ber en sein og Jonsok stór ber og sein.

Hafþyrnir af finnskum yrkjum þroskaði ber í október. 

Kynbætur á jarðarberjum

Kynbætur á jarðarberjum hafa verið stundaðar í Kristnesi í nokkur ár og um 250 fræplöntur úr stýrðri frjóvgun verið gróðursettar. Markmiðið er að fá jarðarberjaplöntur sem skila öruggri uppskeru í útiræktun á Íslandi. Það þýðir að plönturnar þurfa að vera sérlega snemma á ferðinni. Sá eiginleiki er sóttur í Glimu en þaðan er hann kominn úr Valentine sem er amerískt yrki Valentine og annað foreldri Zephir. Einnig hafa nokkrar aðrar sortir verið notaðar ásamt heimaplöntum.

Annað markmið er að berin séu falleg og bragðgóð og í viðunandi stærð og að uppskerumagn sé viðunandi. Ekki er lögð sérstök áhersla á að berin séu af staðlaðri stærð.

Af Kristnesyrkjum hefur nokkrum verið fjölgað til frekari reynslu. Af þeim er yrkið Dimma sérlega lofandi. Berin eru mjög snemma á ferð. Þau eru dökkrauð við fullan þroska og sérlega bragðgóð. Plantan er smá og óvíst er um uppskerumagn. Þá kom klónn með númerinu K-195 sérlega vel út í sumar og verður skoðaður betur ásamt fleirum. Komi Dimma áfram vel út og á komandi sumri kemur til greina að sleppa henni lausri í garða landsmanna vorið 2019.

Heildaruppskera útiræktaðra jarðarberja var tæp 300 kíló í ár og hefur aldrei verið meiri.

Sólber snemma á ferðinni

Sólber voru snemma á ferðinni í ár eins og annað. Eins og venjulega voru yrkin Melalathii og Jankisjarvii fyrst. Af nýjum yrkjum sem hingað komu frá Þorsteini Tómassyni árið 2014, voru yrkin Ben nevis og Ben tron sérlega fallegir runnar með álitleg ber með uppskerutíma um meðallag.

Fuglar og fleira

Það er lýðum ljóst að fuglar eru sólgnir í ber og sérstaklega skógarþrestir. Lengi vel breiddum við akryldúk yfir öll jarðarberjabeð til að verjast þröstum. Í seinni tíð fer mest af jarðarberjaræktinni fram án yfirbreiðslu. Slíkt verður að ráðast af reynslu og aðstæðum. Séu menn með smá beð þá er eina vitið að breiða net eða dúk yfir þegar fyrstu berin fara að þroskast.

Hunangsviður, Amelancier alnifolia, er sérstaklega vinsæll hjá þröstum og þeir náðu öllum berjunum af þeim í ár. Þá eyðilögðu þrestirnir mikið af kirsuberjum og þeir smökkuðu einnig á smáum eplavísum. Sólber og rifs eru mjög vinsæl meðal fuglanna. Lausnin er net en réttur tíminn til að setja netin yfir er nokkru áður en fyrstu berin þroskast. Mjög fíngerð nylon-berjanet með stórum möskvum veiða þresti í stórum stíl. Mun betra net fæst frá framleiðandanum „Weibulls“ sem selur smámöskva net sem fuglar flækjast síður í. Eins hafa fíngerð svört fiskinet, hugsanlega loðnunet, gefist vel en þau eru nokkuð þung og staura getur þurft til að halda þeim uppi.

Netum þarf að fylgjast með helst daglega, til að losa fugla eða til að athuga hvort þeir hafi smogið undir.

Uppskerutíminn

Hvar eru mörkin? Hvað er hægt og hvað er ómögulegt? Er munur á stöðum og landshlutum? Svarið er ekki einfalt því mörkin eru misjöfn milli staða og ára. Dæmi um þetta er eplatréð Rödluvan sem í ár gaf sex kíló af ágætis smá eplum í ár. Það tré hefur nánast engri uppskeru skilað hingað til í þau sautján ár sem á undan fóru. Þýðir það að Rödluvan sé góð sort eða léleg?

Aldingarðurinn í Kristnesi er stöðugt að leita að mörkunum. Oft setur sumar okkur ansi þröng mörk og aðeins harðgerustu yrki þroskast. Þetta skulum við hafa í huga því ónýtar nytjaplöntur eru dapurleg ræktun. En hver veit hvar mörkin verða að nokkrum árum liðnum? Munum hið fornkveðna og höfum vaðið fyrir neðan okkur.

Hvenær er þetta sumar?

Eitt af því sem skiptir máli fyrir garðræktendur í norrænu sumri er að þekkja vitjunartímann.   

Þeir sem hafa reynslu af kartöfluræktun vita að lítið gerist eftir fyrstu frost sem oft eru um mánaðamót ágúst og september og bændur sleppa ekki kúm á beit fyrr en seinnihluta maí. Fyrstu sumarblóm mega fara út á Suðurlandi 20. maí og á Norðurlandi í byrjun júní, segir gömul regla. En tími sumarsins er miklu lengri. Nú er sumardagurinn fyrsti 19. apríl og fyrsti vetrardagur 27. október. Eftir áralanga reynslu í aldingarði eru þessir gömlu dagar ekki svo vitlausir. Rússaberin eru löngu farin að láta á sér kræla sumardaginn fyrsta og eplin standa enn og aldrei betri en seinni partinn í október. Það er nefnilega þannig að þótt kartöflugrasi sé meinilla við frost þá þola sumar plöntur frost eins og ekkert sé ef það kemur ekki á miðjum vaxtartíma.

Þá hef ég heyrt þá ágætu kenningu að tímasetning sumardagsins fyrsta miðist við hvenær tímabært var að sá korni.

Ekki er mark að skandinavískum leiðbeiningum

Það sem er snemma þar gæti verið of seint hér. Áberandi er að erlendar leiðbeiningar um þroskunartíma eiga ekki við hér. Þannig að planta sem þroskar ber í ágúst í Noregi þroskar ef til vill engin ber hér. Það er líka þannig að það sem er talið bil milli uppskerutíma yrkja, er oft  mun lengra hér. Þannig ef það stendur í erlendum leiðbeiningum að vika sé milli yrkja þá getur það verið hálfur mánuður hér og loks er það svo að yrki sem eru á undan þar, geta verið á eftir hér. Til dæmis um þetta tek ég leiðbeiningar frá „Sagaplant“ sem er hálf opinber norsk síða og ber saman við reynsluna hér.

„Jarðarber Honeoye er 5 til 7 dögum á undan Korona.“ - Hér er Honeoye langt á eftir Korona og nær sjaldnast að þroska ber að ráði.

„Hindberið Asker þroskar ber frá því í lok júlí.“ - Asker  byrjaði að þroskast snemma í september hér og yfirleitt nær það engin ber að þroska.

„Hindberin Borgund og Veten þroska ber frá því um miðjan júlí.“ - Borgund og Veten byrjuðu að þroskast snemma í september hér og oft ná þau ekki að þroska ber fyrir frost.

„Hindber Balder þroskast seinnipart júlí. “ Hér byrjaði Balder um 10. ágúst og því langt á undan Borgund og Asker. Það er margra ára reynsla.

Af ofangreindu má sjá að við þurfum að byggja upp okkar eigin þekkingu. Reynsla annarra þjóða gagnast okkur en gildir ekki hér ein og sér. 
Margt væri hægt að segja enn um allar þær tegundir og sortir sem finnast í Kristnesi en nú er mál að linni.

Skylt efni: Kristnes | uppskera | ársskýrsla

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...