Þörungakjarni með mörg hlutverk
Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akranesi. Landbúnaðarháskóli Íslands er meðal þátttakenda.
Verkefnið miðar að því að skapa miðlægan vettvang fyrir þörungarannsóknir, þróun og nýsköpun, þar sem vísindamenn, fyrirtæki og frumkvöðlar vinna saman að aukinni þekkingu og verðmætasköpun.
Kjarnanum er ætlað að stuðla að sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda og styrkja innviði fyrir rannsóknir með áherslu á matvælaþróun, líftækni og kolefnisbindingu. Hann mun einnig bjóða upp á fræðslu og menntun í samstarfi við háskóla og rannsóknastofnanir.
Aðkoma Landbúnaðarháskólans
Undir viljayfirlýsinguna skrifuðu Breið þróunarfélag, Hafrannsóknastofnun, Matís, Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskóli Íslands, Háskólinn á Hólum, Háskólinn á Bifröst og fyrirtæki á borð við Sedna Biopack, North Seafood Solutions og Biopol. Sérstakt þörungaráð var stofnað með fulltrúum frá þessum aðilum.
Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskólans, segir að aðkoma háskólans að viljayfirlýsingunni styðji vel við stefnu skólans um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, hringrásarhagkerfið og aukna verðmætasköpun úr lífmassa. Þörungar séu lykilhráefni framtíðar í matvælaframleiðslu, fóðri, lífefnum og jarðvegsbætiefnum, auk þess sem þeir gegna mikilvægu hlutverki í vistkerfum.
„Þörungar geta skapað ný og mikilvæg tækifæri fyrir íslenska hagkerfið. Með stofnun Þörungakjarnans skapast vettvangur þar sem háskólar, rannsóknastofnanir, stjórnvöld og atvinnulíf vinna saman að nýsköpun, þekkingarsköpun og sjálfbærum lausnum sem geta stutt við íslenskan landbúnað og samfélagið í heild,“ segir Ragnheiður.
Hugmyndin um Þörungakjarnann var kynnt í ágúst 2025 og undirbúningur hófst í kjölfarið. Í nóvember var viljayfirlýsingin undirrituð og hlaut verkefnið 1,8 milljóna króna styrk úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands.
Strax farið í uppbyggingu
Nú er stefnt að því að hefja formlega uppbyggingu kjarnans strax, með sérhæfðri aðstöðu fyrir ræktun, greiningar og smáframleiðslu þörunga.
Þörungakjarninn er hluti af stærri stefnu um að efla nýsköpun og sjálfbærni í sjávarútvegi. Breið þróunarfélag, sem hýsir kjarnann, er samstarfsverkefni Akraneskaupstaðar og Brims hf. og hefur það hlutverk að skapa atvinnutækifæri og styðja við nýsköpun á svæðinu.
