Gervigreind í Grímsnesi
Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við upplýsingatæknifyrirtækið APRÓ.
Verkefnið felur í sér innleiðingu sérsniðinnar gervigreindarlausnar sem ætlað er að styðja við daglega starfsemi, efla skilvirkni og bæta þjónustu við íbúa.
Gervigreindarlausnin er hýst í öruggu umhverfi þar sem sveitarfélagið heldur fullu eignarhaldi á gögnum sínum. Starfsfólk fær fræðslu og leiðbeiningar um ábyrga og markvissa notkun gervigreindar. Samhliða þessu hefur sveitarfélagið samþykkt stefnu um notkun gervigreindar og upplýsingaöryggi fyrir sveitarfélagið Grímsnes- og Grafningshrepp.
„Ég fagna mjög þessu samstarfi og tel mikilvægt að sveitarfélögin setji sér stefnu um notkun gervigreindarinnar um leið og þau skapi starfsfólki góð skilyrði til að vinna með gervigreindina í öruggu umhverfi því hún er komin til að vera,“ segir Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, sveitarstjóri Grímsnesog Grafningshrepps, í fréttatilkynningu.
Hún bætir við að ákvörðunin um að taka þátt í verkefninu sé liður í markvissri stefnu sveitarfélagsins um að nýta tækni til að bæta þjónustu og styðja við starfsfólk. „Með því að prófa þessa lausn í öruggu umhverfi getum við bæði aukið skilvirkni og fengið betri yfirsýn yfir hvernig gervigreind getur orðið raunverulegt hjálpartæki í daglegu starfi sveitarfélagsins,“ segir Fjóla.
