Húsaeiningar frá Noregi
Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar einingar, sem settar eru saman á byggingarstað frá Moeleven-verksmiðjunni í Noregi til Íslands.
Um er ræða starfsmannaíbúðir, skrifstofuhúsnæði og fullbúið mötuneyti fyrir starfsmenn, sem munu vinna við uppbyggingu Eldisgarða Samherja Reykjanesi.
Einingarnar komu með skipi til landsins en fyrirtækið Modulbyggingar á Selfossi er umboðsaðili Moelven á Íslandi. „Við höfum byggt fjölda hótela á Íslandi ásamt starfsmannahúsum og aðstöðuhúsum fyrir starfsmenn. Má þar nefna Hótel Lóu, Hótel Kríu og Hótel Laxá. Við sjáum um hönnun, framkvæmd og verkefnastjórnun verkefna frá A til Ö og getum skilað húsunum fullbúnum hvar, sem er á landinu,“ segir Eiríkur Vignir Pálsson, einn af eigendum fyrirtækisins, en Vilhjálmur Sigurðsson og Kjartan Sigurbjörnsson eiga fyrirtækið með honum.
„Fram undan hjá okkur er bygging þessarar starfsmannaaðstöðu hjá Eldisgörðum Samherja en auk þess eru fleiri verkefni í undirbúningi fyrir næsta ár. Verksmiðja Moelven er traust og rótgróið norskt fyrirtæki og er komin góð reynsla á framleiðslu þeirra á Íslandi, allt frá svokölluðum viðlagasjóðshúsum, sem voru byggð fyrir Vestmannaeyinga í kjölfar eldgossins í Heimaey, og til þeirra hótela sem er búið að vera að byggja upp á síðkastið,“ bætir Eiríkur Vignir við.
