Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta mögulega samnefnara. Olli stórkostlegum vonbrigðum að ekki var tekið á útfösun jarðefnaeldsneytis í lokaályktunum og aukin framlög til aðlögunar fyrir þróunarríki þykja heldur óljós.
Vel stæð ríki eins og Ísland setja sér markmið heima fyrir og taka þátt í samstarfi um lausnir. Þau veita síðan fjármagn og stuðning, sem getur verið af ýmsum toga, til þróunarríkja í gegnum tæki og tól Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna sem eiga að ná utan um ákveðin viðfangsefni. Á þetta bendir Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, sem tók þátt í COP30.
Hún telur að COP sé enn gríðarlega mikilvægur vettvangur og erfitt væri að hugsa til þess hvar við værum ef við hefðum ekki Loftslagssamninginn og Parísarsamkomulagið.
„Við höfum séð árangur. Spár um hækkun hitastigs byggðar á þróun losunar sýndu að búast mátti við um 4 gráðu hækkun meðalhita jarðar, þessi tala hefur lækkað umtalsvert. Nú sýna sambærilegar spár 2,3–2,5 gráðu hækkun. Við höfum séð stórt stökk í innleiðingu á endurnýjanlegum orkugjöfum um allan heim og kostnaður þessa lausna hefur hríðfallið,“ segir Anna.
Ríkin vinni sína heimavinnu
Að sögn Önnu skipti sköpun fyrir þessa þróun að alþjóðasamfélagið viðurkenndi vandann og kom sér saman um að ná stjórn á málum. „Markmið um 1,5 gráður er ekki markmið tekið úr lausu lofti. Þetta er það sem vísindin segja okkur að við þurfum að gera til að halda aðstæðum viðráðanlegum,“ bætir hún við.
Slíkur alþjóðasamningur sé grundvöllur þess að árangur náist – enda sé loftslagið okkar allra. „Árangur byggir þó mjög á því að ríkin vinni sína heimavinnu og leggi fram áætlanir og aðgerðir heima fyrir. Það finnst mér oft gleymast í umræðunni. Mjög erfitt er í alþjóðasamstarfi, ekki síst í loftslagsmálum, að segja öðrum þjóðum fyrir verkum. Ríki heims og aðstæður í hverju landi eru mjög ólíkar – það er misjafnt hvaða áskoranir þau glíma við og nauðsynlegt að hvert ríki fái að hanna sína vegferð á eigin forsendum,“ segir Anna jafnframt.
Stendur upp úr eftir COP30
„Alþjóðleg samvinna í loftslagsmálum er enn að virka og í mínum huga er þýðingarmikið að í lokasamþykktinni, „Mutirau“, sem samþykkt er af öllum ríkjum sem sóttu þingið – staðfesta nær öll ríki heims á ný þann vanda sem við stöndum frammi fyrir og eru í raun líka sammála því hvað þarf til: hraðan samdrátt í losun næstu tíu ár og kolefnishlutleysi fyrir 2050. Ríkin eru enn sammála um þetta – og vísindi og réttlát umskipti eru leiðarljós. Að hafa náð að staðfesta þetta eins og staðan í heiminum er í dag er heilmikið,“ útskýrir Anna.
En það sé augljóslega ekki nóg. Augljóst bakslag standi einnig upp úr, og minni samvinna. „Bandaríkin sendu enga fulltrúa, það hafði vissulega sín áhrif, en ég held að þær þjóðir sem eftir sátu hafi spilað vel úr málum og það verður spennandi að sjá hvað verður úr,“ segir Anna.
Athygli vakti að vegvísir um „Transiton fvAway from Fossil Fuels“ náði ekki lengra á sjálfum fundinum og segir Anna að við því megi búast. „Svona sterk viðbrögð hinna viljugu þjóða eru að mínu mati birtingarmynd á því sem við höfum séð vera að gerast á hliðarviðburðum COP – utan samningaviðræðna – og í raunheimum. Við erum að sjá miklar tækniframfarir og hraðar breytingar. Flest ríki sjá tækifærin, vilja nýta þau og sjá tilganginn að ná árangri hraðar,“ segir hún jafnframt.
Jafnframt standi upp úr gríðarlegur kraftur í hliðarviðburðum utan samningaviðræðna. Bæði fjöldi þátttakenda, almennings og fyrirtækja en einnig uppbygging í endurnýjanlegri orku og flæði fjármagns. Anna kveður það bráðnauðsynlegt til að ná árangri og vonandi þýði þetta að við séum á vegferð þar sem ekki verði aftur snúið.
Tækifærin fyrir Ísland
Anna segir tækifæri Íslands liggja í að taka þátt í þeirri byltingu sem sé að eiga sér stað. Jafnframt að vera með í alþjóðlegu samstarfi um lausnir sem bæði stjórnvöld og mörg fyrirtæki eru nú þegar að gera en þar séu mikil tækifæri.
Hún segir markað fyrir grænar lausnir sífellt aukast, þrátt fyrir að Bandaríkin hafi dregið sig í hlé og margt virðist við fyrstu sýn vera bakslag. Þar með sé ekki öll sagan sögð þegar heildarmyndin sé skoðuð. „Heimurinn er talsvert stærri og tækifærin eru víðar. Bæði bandarísk fyrirtæki og ríki Bandaríkjanna eru mörg enn á fullri ferð þó að umhverfið heima fyrir geri þeim það erfiðara fyrir,“ hnýtir hún við.
„Ísland hefur enn ákveðið forskot í endurnýjanlegri orku og við þurfum að halda okkar sérstöðu og viðhalda forskotinu. Aðrar þjóðir eru farnar að snúa blaðinu við og jafnvel taka fram úr. Það dregur úr samkeppnishæfi,“ bendir hún á og áréttar mikilvægi þess að forgangsraða aðgerðum sem hafa hvað mest áhrif og horfa til hliðaráhrifa.
Ekki týna okkur í pólitísku ástandi
„Við verðum að draga úr losun á öllum vígstöðvum og nýta þau tækifæri sem við höfum – ekki síst hvað varðar landnotkun og að auka kolefnisbindingu í gróðri. Umtalsverð tækifæri eru einnig til föngunar, förgunar og/eða hagnýtingar útblásturs frá stóriðjuverum.
Loftslagsváin hverfur ekki og við megum ekki týna okkur í því pólitíska ástandi sem er á alþjóðavettvangi, það mun breytast. Við verðum enn að tala um alvarleika loftslagsbreytinga eftir tíu ár og við megum ekki missa sjónar á því hver langtímaverkefnin eru,“ segir Anna enn fremur.
Tala verði um aðlögun að loftslagsbreytingum. „Við vitum hvað lítur út fyrir að gerist hér næstu árin, við þurfum að horfast í augu við þær breytingar, átta okkur á stöðunni og bregðast við í tíma, til að geta nýtt þau tækifæri sem felast í að vera vel undirbúin fyrir breytt samfélag. Gerum við það ekki festumst við í viðbrögðum sem eru bæði kostnaðarsöm og gefa okkur minni sveigjanleika til að bregðast við breyttum aðstæðum,“ segir Anna að endingu.

Lykilniðurstöður COP30
Loftslagsfjármögnun: Ákvörðun um að virkja að lágmarki 1,3 trilljónir Bandaríkjadollara árlega fyrir loftslagsaðgerðir fyrir 2035. Aðlögunarfjármögnun þrefölduð; úr 40 milljörðum dollara í 120 milljarða dollara innan heildarmarkmiðs 300 milljarða dollara.
Jarðefnaeldsneyti: Engin bindandi áætlun um að hætta notkun. COP30 endurtekur aðeins COP28-ákvörðun um „Transition away from fossil fuels“ og lofar frjálsum vegvísum utan UNFCCC.
Skógar og náttúra: Brasilía kynnti Tropical Forests Forever Facility með 5,5 milljarða Bandaríkjadollara í loforðum; markmið 125 milljarðar dollara til verndar regnskógum.
Réttlát umskipti og aðlögun: Nýtt „Just Transition Mechanism“ samþykkt til að styðja við samfélög og atvinnugreinar sem treysta á jarðefnaeldsneyti. Samþykkt mælikvarða fyrir „Global Goal on Adaptation“ til að fylgjast með framvindu.
Metan og hraðvirkar lausnir: Sjö lönd (m.a. Bretland, Frakkland, Japan) lofuðu „near zero“ metanlosun í jarðefnaeldsneytisiðnaði.
