Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Í verkefni Matís kemur fram að nauðsynlegt sé að þróa samræmt og einfalt gagnasöfnunarkerfi og betra aðgengi að umhverfisgögnum fyrir íslenska matvælaframleiðslu.
Í verkefni Matís kemur fram að nauðsynlegt sé að þróa samræmt og einfalt gagnasöfnunarkerfi og betra aðgengi að umhverfisgögnum fyrir íslenska matvælaframleiðslu.
Mynd / Pixabay
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöts og grænmetis – er almennt sambærilegt við evrópsk viðmið.

Verkefnið, sem ber heitið Kolefnisspor íslenskra matvæla (KÍM), er samstarfsverkefni Matís, Háskóla Íslands og EFLU. Þar var þróuð samræmd og vísindalega studd aðferð til að meta losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskri matvælaframleiðslu. Markmiðið var ekki aðeins að þróa aðferðafræðina heldur einnig að framkvæma útreikninga með íslenskum gögnum og bera niðurstöðurnar saman við evrópsk viðmið.

Skv. upplýsingum frá Matís náði rannsóknin til fjögurra helstu matvælaflokka: mjólkur, nautakjöts, lambakjöts og grænmetis (kartaflna og gúrkna). Niðurstöðurnar sýna að íslensk framleiðsla stendur vel í samanburði við Evrópu, þó að munur sé á milli vöruflokka og framleiðsluaðferða. Íslensk matvælaframleiðsla hafi ákveðna styrkleika, svo sem notkun endurnýjanlegrar orku og stuttra virðiskeðja, en einnig hafi komið fram þörf á frekari gögnum til að gera nákvæmari samanburð við önnur lönd.

Verkefnið leggur grunn að opinberum upplýsingum um umhverfisáhrif í ÍSGEMgagnagrunninum, sem mun nýtast bæði framleiðendum og neytendum.

T.v: Kolefnisspor án landnotkunar (og án raforkuáhrifa fyrir grænmetið). T.h: Kolefnisspor með landnotkun/ raforkuáhrifum.

Mikill munur á kolefnisspori

Samkvæmt skýrslu um rannsóknina hefur mjólk lægsta kolefnissporið, að meðaltali 1,39 kg CO₂-ígildi á lítra án landnotkunar, en hækkar í 1,98 kg CO₂/L þegar landnotkun er tekin með. Stærstu áhrifavaldar eru iðragerjun (32%) og búfjáráburður (21%).

Nautakjöt er næst í röðinni með 20 kg CO₂-ígildi/kg kjöt, en hækkar í 29,6 kg CO₂/kg með landnotkun. Munur er á framleiðsluaðferðum: nautakjöt frá mjólkurbúum hefur lægra spor (16 kg CO₂/kg) en frá sérhæfðum nautgripabúum (29,6 kg CO₂/kg).

Lambakjöt hefur hæsta kolefnissporið, 34,7 kg CO₂/kg án landnotkunar og allt að 47,2 kg CO₂/ kg þegar hún er tekin með. Iðragerjun vegur þyngst (53%), en áburður og búfjáráburður fylgja á eftir.

Hjá grænmeti er munurinn mikill: kartöflur losa aðeins 0,3 kg CO₂/kg án upprunaleyfa, en 1,6 kg CO₂/kg með raforku og eldun. Gúrkur sem ræktaðar eru í gróðurhúsum hafa kolefnisspor upp á 0,8 kg CO₂/kg án upprunaleyfa, en það hækkar í 6,1 kg CO₂/kg þegar tekið er mið af raforku með upprunaleyfi.

Með landnotkun er átt við losun gróðurhúsalofttegunda sem tengist nýtingu lands og breytingum á landnotkun í landbúnaði. Þetta felur í sér áhrif frá beitilandi, þ.e. losun vegna beitar á mólendi og graslendi, frá framræstu votlendi, þ.e. jarðvegi sem losar mikið magn CO₂ og N₂O eftir framræslu, vegna jarðvegsbreytinga, þ.e.a.s. tapi á kolefnisforða í jarðvegi við ræktun, og vegna landgræðslu og skógræktar sem geta dregið úr kolefnisspori með bindingu kolefnis.

Gagnaöflun fór fram í nánu samstarfi við innlenda framleiðendur og hagsmunaaðila. Þar sem frumgögn voru takmörkuð var stuðst við alþjóðlega viðurkennda gagnagrunna til að tryggja áreiðanleika og samanburðarhæfni. Útreikningar byggðu að mestu á vistferilsgreiningu (LCA) samkvæmt ISO-stöðlum, auk þess sem tekið var mið af GHG Protocol, Product Environmental Footprint (PEF) og Environmental Product Declaration (EPD)-aðferðum.

Verkefnið heldur áfram

Segir í skýrslu Matís um verkefnið að nauðsynlegt sé að þróa samræmt og einfalt gagnasöfnunarkerfi. Það verði tekið áfram í verkefninu Græntóli sem eigi að tryggja nákvæmari gagnasöfnun og betra aðgengi að umhverfisgögnum fyrir íslenska matvælaframleiðslu.

„Þó að verkefnið einblíni á kolefnisspor (GWP100) sýnir það skýrt mikilvægi þess að bæta við fleiri umhverfisáhrifaflokkum í framtíðinni, svo sem vatnsnotkun, næringarefnaauðgun og áhrif á líffræðilega fjölbreytni, til að ná heildstæðri mynd af sjálfbærni íslenskra matvæla,“ segir í samantekt.

Verkefnið muni nú halda áfram undir heitinu KÍM2. Í þeirri vinnu verði áhersla lögð á að taka á þeim áskorunum sem komið hafi fram í verkefninu og þá sérstaklega varðandi nákvæmni í gagnavinnslu og gagnasöfnun, og að finna lausnir sem stuðli að bættri sjálfbærni og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu.

Næstu skref feli í sér úrbætur á gagnaöflun og skráningarkerfum í samstarfi við framleiðendur, nánari greiningu á lykilþáttum sem hafa mest áhrif á kolefnissporið, þá einkum varðandi orkunotkun í gróðurhúsum og áburðarnotkun í ræktun, ásamt innleiðingu samræmdrar aðferðafræði í íslenskum matvælageira með útgáfu leiðbeininga og gagnagrunna sem gera kolefnisspor aðgengilegt í ÍSGEMgagnagrunninum. Þessar aðgerðir muni styðja við sjálfbærnimarkmið íslensks landbúnaðar og auðvelda upplýstar ákvarðanir um umhverfisvænni framleiðsluhætti.

Skylt efni: kolefnisspor

Mesti fjöldi skráðra sæðinga
Fréttir 27. janúar 2026

Mesti fjöldi skráðra sæðinga

Metþátttaka var í sauðfjársæðingum nú í desember. Þann 9. janúar var búið að skr...

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður
Fréttir 27. janúar 2026

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður

Anna Guðrún Þórðardóttir kynnti í haust frumniðurstöður úr doktorsverkefninu Erf...

Þari í sauðakjöt, krydd og kex
Fréttir 27. janúar 2026

Þari í sauðakjöt, krydd og kex

Nýtt frækex, unnið úr íslenskum þara, er komið á innlendan markað.

Ómarktæk vísindagrein um skaðleysi glýfosats
Fréttir 27. janúar 2026

Ómarktæk vísindagrein um skaðleysi glýfosats

Í niðurstöðum vísindagreinar í tímaritinu Regulatory Toxicology and Pharmacology...

Kynntu sér lífgas- og áburðarver í Færeyjum
Fréttir 27. janúar 2026

Kynntu sér lífgas- og áburðarver í Færeyjum

Sunnlenskir bændur heimsóttu á dögunum Förka, lífgas- og áburðarverið í Færeyjum...

Bjóða upp á mótorhjólaferðir um hálendið
Fréttir 27. janúar 2026

Bjóða upp á mótorhjólaferðir um hálendið

Hjónin Eva Sæland frá Espiflöt í Bláskógabyggð og Óskar Sigurðsson frá Sigtúni í...

Orka án næringar
Fréttir 23. janúar 2026

Orka án næringar

Fæðan sem við borðum gæti orðið orkumeiri en næringarsnauð og jafnvel eitraðri v...

Hjúkrunarfræðinemi hlaut 500.000 króna styrk úr Snorrasjóði
Fréttir 20. janúar 2026

Hjúkrunarfræðinemi hlaut 500.000 króna styrk úr Snorrasjóði

Hinn 29. desember fór fram úthlutun í Múlaþingi úr svonefndum Snorrasjóði en þet...