Um hundrað stóð í blóðtöku árið 2024
Meira blóði var safnað á árinu 2024 en á árinu áður. Fjöldi blóðtökuhryssna var 4.225. Helstu úrbótatækifæri atvinnugreinarinnar liggja á sviði hófhirðu og fortamningar.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlitsskýrslu yfir starfsemi Ísteka ehf. á blóðtökutímabilinu árið 2024. Alls var tekið blóð í um 25.500 skipti og var að meðaltali tekið blóð í sex skipti úr hverri hryssu. Skilaverð meðalhryssu reyndist um 116 þúsund krónur. Blóðtökuhópar voru um 100 talsins. Þar af var Ísteka með fimm stóð á þremur stöðum, alls 280 hryssur, sem er tæp sex prósent af heildarfjölda hryssna í starfseminni. Af þeim fyljuðust 249 talsins sem nýttar voru að meðaltali sjö sinnum á blóðtökutímabilinu.
Í skýrslunni segir að frjósemi hryssna sem heyra undir greinina hafi verið tæplega 84 prósent sem sé töluvert betra en sést almennt í hrossarækt. „Blóðnytjabúskapurinn kemur einnig vel út í öðrum samanburði, svo sem í almennu heilsufari stofnsins og í þroska,“ segir í skýrslunni. Þar kemur fram að hlutfall úrvalsgóðra hryssna, sem teljast þær sem hægt er að nýta sjö eða átta sinnum á tímabilinu, fari hækkandi. „Bændur stunda kröftuga framþróun í þessum búskap sem lýtur jú sömu lögmálum og annar búskapur, afurðir hámarkaðar með sem fæstum gripum. Frjósemi þeirra og heilsa spilar þar lykilhlutverk.“
Niðurstöður eftirlits
Bæði Matvælastofnun og Ísteka höfðu eftirlit með blóðsöfnuninni og velferð hrossanna. Í skýrslunni segir að í eftirlitsheimsóknum hafi engar athugasemdir verið gerðar í 44 prósent tilfella. Algengustu athugasemdir snertu hófhirðu.
„Telja má að vel innan við 5% hryssnanna búi við slæma hófhirðu og tilfelli þar sem velferð grips er í hættu eru sjaldgæf. Ísteka hefur unnið við að þróa verklag sem gerir hófhirðu stóðhrossa auðveldari fyrir bændur og árangur af því verki kemur vonandi fram þegar á næsta ári,“ segir í skýrslunni.
Skráð frávik í blóðtökuskýrslum var skráð í 261 tilviki af ríflega 25.500 blóðtökum. „Langflest tilvik voru skráð vegna hryssna sem sýndu einkenni hræðslu/ótta (83%). Meirihluti þeirra jafnaði sig (róaðist) strax eða meðan á dvöl í bás stóð. Endurtekin frávik voru skráð hjá 25 hryssum, þar af tvö frávik hjá 22 hryssum, þrjú hjá 4 hryssum og ein hryssa var með 5 frávik skráð. Ráðleggingar Ísteka eru að eigendur hryssna, þar sem skráð eru frávik þrisvar sinnum eða oftar, venji hryssuna betur áður en hún er tekin til blóðtöku aftur eða finni henni nýtt framtíðarhlutverk,“ segir í skýrslunni.
Tólf tilkynningar um slys
Þá segir að um langt árabil hafi verið haldið utan um slys, veikindi og dauðsföll gripa sem heyra undir starfsemina. Slys voru skráð tólf talsins í ár, þar af eitt sem tengdist blóðtöku en hin ellefu vörðuðu ótengda atburði. Þá var tilkynnt um slys hjá tveimur folöldum.
„Tólf (0,24%) tilkynningar voru um veikindi hryssna á blóðtökutímabilinu. Af þeim tengdust sex blóðtöku viðkomandi grips. Í öllum sex tilfellum jafnaði hryssa sig fljótt og vel, ýmist með eða án aðkomu dýralæknis. Í þeim tilfellum sem veikindi voru óviðkomandi blóðtökum jöfnuðu 4 hryssur sig fljótt og vel en ákvörðun var tekin um að fella tvær. Á blóðtökutímabilinu var alls tilkynnt um eina dauða hryssu. Krufning leiddi í ljós tengsl á milli dauða hennar og blóðtökunnar. Tvö tilfelli folaldsdauða voru tilkynnt.“
Faldar myndavélar á sex bæjum
Í skýrslunni er sagt frá því að földum myndavélum hafi verið komið fyrir í óleyfi á sex bæjum sem Ísteka segist fordæma sem innrás á atvinnusvæði bænda. „Af myndbrotum sem birt hafa verið úr þessum upptökum má sjá eitt atvik sem þarfnast sérstakrar skoðunar af hálfu Ísteka og er hún þegar hafin,“ segir í skýrslunni.
Í niðurlagi skýrslunnar kemur fram að helstu úrbótatækifæri greinarinnar liggi á sviði hófhirðu og fortamninga. „Einnig að huga að ásýnd og bættri aðstöðu við samrekstur og sundurgreiningu í rétt með það í huga m.a. að draga úr hinni vandmeðförnu meðferð píska og prika.“