Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Á hverju ári er þúsundum tonna brennt á sveitabæjum í Kanada eða sett í landfyllingar.
Á hverju ári er þúsundum tonna brennt á sveitabæjum í Kanada eða sett í landfyllingar.
Mynd / Darren Calabrese/The Canadian Press
Fréttir 4. maí 2018

Um 40 þúsund tonn af plasti falla til í kanadískum landbúnaði árlega

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Í Albertafylki í Kanada einu saman falla til um 3.000 tonn af baggaplasti á hverju ári. Förgun þess hefur verið vandamál og hefur megninu verið brennt, en annað urðað. Hugsanlega er þó að verða breyting á því. 
 
Bryan Walton  hjá nautgripa­fóðursamtökum Albertafylkis segir að samtökin vilji fremur sjá plastið fara í einhvers konar endurvinnslu. Samt segjast einungis 17% bænda senda plastið í endurvinnslu enda fáir staðir sem taka við slíku plasti. Hafa menn staðið ráðþrota fyrir þessum vanda sem hrúgast upp í gryfjum. Á því kann að verða breyting fljótlega ef marka má orð Shannon Phillips, umhverfisráðherra héraðsins. Hann segir að baggabönd hafi verið að ryðja plaststrengjunum úr vegi þar sem  bændur séu aftur að taka upp bagga í stað þess að rúlla upp hálmi og heyi. Ekki virðast þó allir bjartsýnir á að þarna liggi lausnin.   
 
Baggabönd gætu minnkað umfang plastnotkunar við hálmpökkun.
 
Cleanfarms ná aðeins 10% af úrgangsplastinu
 
Barry Friesen hjá Cleanfarms Inc., sem eru óhagnaðardrifin samtök sem stofnuð voru af plastiðnaðinum, áætlar að um 40 þúsund tonn af plasti af ýmsum toga falli til í kanadískum landbúnaði árlega. Cleanfarms nær aðeins að safna um 10% af þessu plasti. Öðru er brennt eða urðað. Hann segir að einungis eitt fyrirtæki taki við landbúnaðarplasti til endurvinnslu í Kanada. 
 
Mismunandi reglur eru um endurheimtur á plasti í Kanada. Verkefni er þó til staðar í öllum héruðum sem kveður á um að safna eigi og endurvinna ílát og tunnur undan eiturefnum og áburði. 
 
Í Manitoba er bæði kornpokum og garni frá bændum safnað og nýbúið er að setja svipaðar reglur í Saskatchewan eftir ýmsar tilraunir. Frá 2011 hefur verið safnað um 4.200 tonnum á 14 stöðum í Saskatchewan. Þar fyrir utan er það háð ákvörðunum einstaka framleiðanda hvernig þeir standa að förgun á plasti sem safnast upp hjá bændum. 
 
Plastiðnaðurinn verði látinn bera ábyrgð á förgun
 
Þar sem hið opinbera telur sig einungis þurfa að hafa reglur um meðhöndlun á eitri og öðrum viðlíka skaðlegum úrgangi, þá verða reglur um plastförgun að koma frá hverju héraði fyrir sig. Barry Friesen telur að ekki sé þörf á frekari eftirrekstri eða aðgerðaráætlunum af hálfu ríkisins. Það þurfi bara að setja lög sem skylda plastiðnaðinn til að leggja til endurvinnslumöguleika. 
 
„Ef þú framleiðir vöru og dreifir henni inn á ákveðin svæði, þá verður þú að hafa á takteinum áætlun um að farga vörunni þegar líftíma hennar lýkur,“ segir Friesen. 
 
„Þetta gæti verið af svipuðum toga og gert er í endurvinnsluverkefnum þar sem kaupandinn er látinn borga skilagjald af vörunni í upphafi til að tryggja að flöskur og dekk skili sér til endurvinnslu.“ 
 
Hann segir að bændur séu vissulega ekki viljugir til að borga meira fyrir vöruna en þeir nauðsynlega þurfi. Ef þeir hafi hins vegar vissu fyrir að hægt sé að koma plastinu í endurvinnslu þá gæti viðhorfið breyst. 
 
Skortur á endurvinnsluúrræðum
 
„Okkur finnst mikið skorta á endurvinnsluúrræði fyrir plast,“ segir Tammy Schwass hjá endurvinnslusamtökum Albertafylkis. 
 
„Þetta veldur verulegum áhyggjum. Bruni á plasti losar eiturefni út í andrúmsloftið og grafið plast eyðist ekki.“

Skylt efni: plast | Kanada

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...