Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Ullin frá Uppspuna komin á malarkamb við Heklu.
Ullin frá Uppspuna komin á malarkamb við Heklu.
Mynd / Aðsend
Fréttir 14. september 2020

Ull úr Uppspuna notuð til landgræðslu

Höfundur: smh

Hulda Brynjólfsdóttir, sauð­fjár­bóndi í Lækjartúni á austur­bökkum Þjórsár, á og rekur smáspunaverksmiðjuna Upp­spuna. Í byrjun ágústmánaðar stóð hún fyrir nokkuð nýstárlegri land­græðsluferð þegar afgangsull frá verksmiðjunni var dreift á malarkamb nálægt Heklu í landgræðsluskyni.

Um tilraunaverkefni er að ræða og unnið í samstarfi við Landgræðsluna og Hekluskóga. „Við nýtum orðið nánast alla okkar ull hjá okkur. Alltaf er þó eitthvað sem nýtist ekki í garn eða aðrar afurðir sem við gerum. Það geta verið sneplar á haustullinni sem orsakast af leifum frá rúningi vorsins á undan; hún getur verið full af sandi eða grasi og lyngi. Svo er það hárskiljan okkar sem hreinsar togið, grófu hárin, frá þelinu, þeim fínni, og með því fer einnig sandur og fræ. Ef það er hreint getum við notað það í vörur, en ef það er óhreint, notum við það ekki í garn heldur höfum safnað því með það að markmiði að nýta til landgræðslu,“ segir Hulda um þessa afgangsull.

Hulda Brynjólfsdóttir, sauðfjárbóndi á Tyrfingsstöðum og verksmiðjustjóri í Uppspuna. Mynd / smh

Áburðarkögglar úr ull

Hún segir nokkrar ástæður fyrir því að ákveðið var að prófa að nota afgangsullina í Uppspuna til landgræðslu. „Við vitum að ull er lífrænt efni sem brotnar niður með tímanum. Flest allt sem brotnar niður getur gert jarðveg frjósamari og við höfum ávallt veitt því athygli að kringum ull, vex gras vel. Við vitum af dæmum um að ull hafi verið notuð með góðum árangri til uppgræðslu, bæði hér á Íslandi og í útlöndum í rofabörð og á steinklappir. Ég heyrði fyrir nokkrum árum af strák í Austurríki sem var að þróa áburðarköggla úr ull, ásamt því að gera ábreiður yfir beð og utan um viðkvæm tré. Fáum árum síðar heyrði ég að þessi áburður hefði verið tekinn til tilrauna í grasagarðinum í Vín.

Þetta þótti mér afar áhugavert og langaði að gera tilraunir með hvort ekki mætti nýta afgangsullina okkar á gróðursnautt land einhvers staðar til að hjálpa til við uppgræðslu eins og gert er með úrgangshey. Ég hef svo sem ekki mörg slík svæði á minni jörð, sem er öll grasi gróin, en afréttur okkar er ansi hrjóstrugur víða og Sprengisandur sem umlykur hann er náttúrlega að megninu til grjót og hraun.

Ég talaði því við Landgræðsluna til að vita hvort ekki væri svæði einhvers staðar sem þyrfti úrbóta með, þar sem kindur væru helst ekki. Eftir að hafa talað við nágranna mína um hvort og þá hvert væri heppilegt að fara með slíka ull – þar sem ekki væru kindur – ræddi ég við fólk hjá Landgræðslunni og Hekluskógum. Í kjölfarið var okkur úthlutað svæði innan landgræðslugirðingar rétt innan við Heklu sem við máttum nota til að prófa okkur áfram með þetta verkefni.

Þetta er fyrsta ferð okkar með svona, en við munum fylgjast með hvernig gengur og bæta við blettinn eftir þörfum. Við höfum fulla trú á að þetta verði til bóta.“

Vel fylgst með áhrifunum

Hulda gerir sér ekki alveg grein fyrir því hversu lengi ullin verði að brotna niður. „Ég veit það ekki þar sem við höfum ekki gert þetta áður, en ég geri ráð fyrir að það taki ekki nema ár að verða bundið jarðveginum og væntanlega bætir það hann í einhver ár á eftir. Það er í rauninni margt sem við erum að athuga með þessu. Þó ég sé ekki að fara í vísindalega rannsókn á þessu, þá er markmiðið að fara reglulega og taka myndir og meta framfarir og ég á von á að Garðar og Hrönn muni fylgjast með þessu líka. Það sem ég vil athuga er hvort þetta bæti jarðveginn og þá hversu lengi hún gerir það – eða hvort þetta fjúki bara allt í burtu í vetur.“

Gæti nýst í trjárækt

„Við fórum með um 1.000 kíló á kerrum og dreifðum á malarkamb með litlum gróðri sem sneri frá veginum og blasir því ekki við þeim sem leið eiga um veginn,“ svarar Hulda þegar hún er spurð um mögulega sjónmengun af ullinni. „Það er vissulega sjónmengun af ull sem dreift er á opið svæði – sérstaklega af þeirri hvítu. En það verður líka spennandi að fylgjast með hversu lengi hún sker í augun. Ég mun fara aftur fljótlega inn úr og skoða þetta, þá er um mánuður liðinn frá dreifingu og verður fróðlegt að sjá þá hvernig þetta lítur út.

Við erum svo sem engir frumkvöðlar í því að nýta ullina til landgræðslustarfa, en okkur þykir þetta samt spennandi. Við höfum líka lagt hana í þykkum lögum í kringum berjarunna sem eru að kafna í grasi, þannig að hún heldur grasinu niðri og einnig heldur hún rakanum betur í jarðveginum við trén. Við höfum sett skjólbelti á nokkra staði í okkar land í samstarfi við Suðurlandsskóga og þá höfum við fengið plastrenning til að setja yfir ræmuna sem plægð er fyrir skjólbeltið. Ég spurði hvort ekki væri hægt að nota eitthvað annað efni en að setja plast út í náttúruna með þessum hætti, en þeir töldu ekki að neitt annað gæti hamið grasvöxtinn að gagni.

Okkar reynsla af þessu er að blessað grasið er ansi ákaft að bora sér upp um plastið og eiga trén erfitt sums staðar þrátt fyrir það, þó það hjálpi vissulega, en okkur grunar að ef trjám er plantað í plægða reiti og ull lögð með þeim, þá muni hún ekki síður aðstoða við að halda niðri grasvexti á meðan trén eru að ná sér af stað og auka síðan gæði jarðvegar þegar hún brotnar niður og hjálpi þá trjánum jafnframt að vaxa í framhaldinu.“

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...