Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Brákarey
Brákarey
Mynd / smh
Fréttir 4. september 2025

Sláturtíð hafin í Brákarey

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Haustslátrun hófst í Sláturhúsi Vesturlands í Brákarey í Borgarnesi föstudaginn 15. ágúst. „Við slátruðum tuttugu lömbum, svona rétt til að starta þessu. Annars erum við oft að slátra hundrað lömbum á dag,“ segir Eiríkur Blöndal, stjórnarformaður Sláturhúss Vesturlands.

Þegar hin hefðbundna sláturtíð stendur yfir á haustin sé slátrað tvisvar í viku. Á öðrum tímum árs er slátrað vikulega, ýmist nautgripum eða sauðfé. „Meginsérstaða okkar er að við bjóðum upp á ferskt lambakjöt utan hefðbundins sláturtíma. Við erum með upprunavottað kjöt sem veitingahús kaupa frá tilteknum bæjum,“ segir Eiríkur. Enn fremur sé Sláturhús Vesturlands það eina á landinu sem sé með fasta lífræna vottun sem kúa- og nautgripabændur í lífrænni ræktun nýti sér.

Eiríkur Blöndal, stjórnarformaður Sláturhúss Vesturlands í Brákarey. Þar er lögð áhersla á að framleiða gæðavöru sem hefur sögu. Hér er hann í fjárhúsunum að Hesti í Borgarfirði.
Kjötið fær að hanga

„Við kaupum nánast aldrei fé, heldur slátrum við í verktöku fyrir bændur sem hafa skapað sér einhverja sérstöðu og markaðssetja sínar vörur sjálfir. Nánast allir sem slátra hjá okkur láta kjötið hanga,“ segir Eiríkur, en eitt af markmiðum sláturhússins sé að gefa sér góðan tíma í framleiðsluna. „Í svona litlu sláturhúsi er þetta allt óhagkvæmara og þetta byggist á því að bændur séu að ná sér í eitthvað sérstakt. Ef þú ert að leita að ódýrri slátrun þá kemur ekki til greina að slátra hjá okkur.“

Eiríkur segir einhverja tugi bænda láta slátra búfé í Brákarey og allir komi frá Vestfjörðum, Vesturlandi og Suðurlandi. Viðskiptavinirnir séu fjölbreyttir, allt frá því að vera stórbændur niður í hobbí-bændur. „Í mörgum tilfellum er fólk að nýta sér okkar þjónustu frekar en að slátra heima.“

Sláturhúsið tekið af skipulagi

Vegna skipulagsmála segir Eiríkur verulega þrengt að starfseminni. „Það er fjárfestir sem ætlar að byggja hótel og baðlón í Brákarey og hefur sveitarstjórnin unnið með honum. Því er búið að taka sláturhúsið út af skipulagi,“ segir Eiríkur. „Við erum mjög ósátt við afstöðu sveitarfélagsins. Það er sorglegt að matvælaframleiðsla og lifandi sveitir víki fyrir gróðavon fjárfesta. Stjórnvöld þurfa að vakna upp af þessum draumasvefni og átta sig á að martröðin er að verða að veruleika.“

Hann segir nýja búvörusamninga geta haft mikið að segja hvort starfsemin eigi framtíð fyrir sér. „Ef allt leggst með okkur munum við halda áfram að skoða möguleikann á nýju sláturhúsi, þar sem við byggjum á þessari sérstöðu með ferska lambakjötið og lífrænu vottunina. Við höfum skynjað að það er vaxandi áhugi á þessari tengingu landbúnaðar við ferðaþjónustu. Við höfum líka hitt fjárfesta sem hafa áhuga á framtíð matvælaframleiðslu og kannski leiðir það til einhvers góðs. Velborgandi ferðamenn koma ekki til Íslands til að borða staðlaða vöru með innfluttu kjöti, heldur eitthvað sérstakt sem hefur sögu,“ segir Eiríkur.

Skylt efni: Brákarey

Hvatningarverðlaun skógræktar
Fréttir 30. janúar 2026

Hvatningarverðlaun skógræktar

Óskað hefur verið eftir tilnefningum til hvatningarverðlauna í skógrækt sem verð...

Nýta mætti afurðir hreindýra betur
Fréttir 30. janúar 2026

Nýta mætti afurðir hreindýra betur

Formaður Hreindýraráðs Austurlands segir að mun betur megi nýta veidd hreindýr e...

Kýrnar í Hólmi mjólkuðu mest
Fréttir 30. janúar 2026

Kýrnar í Hólmi mjólkuðu mest

Samkvæmt nýbirtum niðurstöðum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins mjólkuðu kýrnar...

Virk endurheimt 30% raskaðra vistkerfa árið 2030
Fréttir 29. janúar 2026

Virk endurheimt 30% raskaðra vistkerfa árið 2030

Auðug líffræðileg fjölbreytni náttúrunnar er forsenda heilbrigðra vistkerfa, sem...

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun
Fréttir 29. janúar 2026

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun

„Að fólk geti greitt sér laun fyrir vinnuna, byggt upp jarðir, ræktun og bygging...

Skýrt nei við aðildarviðræðum
Fréttir 29. janúar 2026

Skýrt nei við aðildarviðræðum

Ríflega 76 prósent bænda sem eru félagsmenn í Bændasamtökum Íslands eru ósammála...

Dreifikostnaður raforku hækkar
Fréttir 29. janúar 2026

Dreifikostnaður raforku hækkar

Gjaldskrárhækkanir dreifiveitna rafmagns hafa hækkað umfram vísitölu á undanförn...

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri
Fréttir 29. janúar 2026

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri

Samkvæmt niðurstöðum skýrsluhalds Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) fyrir...