Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Peningurinn sjaldgæfi frá búnaðarsýningunni 1921 verður sýndur á meðal fjölda annarra gripa á 50 ára afmælissýningu Myntsafnarafélags Íslands í sal Ferðafélags Íslands í Mörkinni helgina 22.-24. mars.
Peningurinn sjaldgæfi frá búnaðarsýningunni 1921 verður sýndur á meðal fjölda annarra gripa á 50 ára afmælissýningu Myntsafnarafélags Íslands í sal Ferðafélags Íslands í Mörkinni helgina 22.-24. mars.
Fréttir 14. mars 2019

Sjaldgæfur silfurpeningur búnaðarsýningarinnar 1921 til sýnis

Ákaflega sjaldgæfur silfurpeningur sem Einar Jónsson myndhöggvari hannaði fyrir búnaðarsýningu Búnaðarfélags Íslands árið 1921 verður sýndur á 50 ára afmælissýningu Myntsafnarafélags Íslands næstu helgi. Aðeins er vitað um tvo slíka peninga í einkaeign hérlendis.

Afar lítið er vitað um peninginn og telja sumir sérfræðingar hann hafa verið verðlaunapening á sýningunni en aðrir að um minnispening sé að ræða. Fullvíst er þó að fjöldi sleginna eintaka var afar lítill, ef til vill ekki nema örfáir tugir peninga samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands, jafnvel færri.

Mótagröftur og slátta var framkvæmd hjá fyrirtæki Frits Heimbürger í Kaupmannahöfn, en teikningin eða fyrirmyndin er eftir Einar Jónsson myndhöggvara sem fyrr segir.  Talið er að aðeins hafi verið slegnir silfurpeningar, en þó eru til bronseintak af sama peningi sem var þó eflaust aðeins prufueintak.

Silfurpeningurinn sem barst safni Seðlabanka Íslands árið 1972 var upphaflega gefinn Metúsalem Stefánssyni ráðunaut, en auk Metúsalems er vitað að Árni Eylands búfræðingur og ráðunautur fékk samskonar pening. Ekki er því ólíklegt að peningurinn hafi verið veittur nokkrum þeim sem lögðu hönd á plóginn í þágu sýningarinnar í þakklætisskyni fyrir vel unnin störf.

Tækið á myndinni er snúningsvél frá Hugo Hartig , Stokkhólmi, sem var á meðal þeirra tækja og tóla sem sýnd voru á búnaðarsýningunni 1921. Hún var bandarísk að uppruna, frá McCormic, framleiðanda landbúnaðartækja sem enn eru áberandi í íslenskum sveitum.  

Búnaðarsýningin eða búsáhaldasýningin sumarið 1921 átti sér nokkurn aðdraganda. Búnaðarþing árið 1919 lagði mikla áherslu á að Búnaðarfélagið léti rannsaka hvaða verkfæri og vélar hentuðu bent íslenskum aðstæðum og sendi félagið m.a. menn erlendis til að kanna slíkt. Niðurstaðan varð hins vegar sú að hentugasta leiðin til að ná niðurstöðu væri að halda sýningu á tækjabúnaði til landbúnaðar,  þar sem safnað yrði saman öllum þeim tækjum og tólum sem bæði íslenskir og erlendir framleiðendur teldu nothæfust hér á landi og þau könnuð til þrautar.

Stjórn Búnaðarfélagsins var falinn undirbúningur og framkvæmd málsins og strax í ársbyrjun 1920 var ákveðið að halda svokallaða búsáhaldasýningu í Reykjavík vorið eða sumarið 1921. Félagið leitaði í kjölfarið til Antons Christensen, dósent við danska landbúnaðarháskólann, en hann hafði um langt skeið stýrt tilraunum með verkfæri fyrir danskan landbúnað. Kom hann hingað til lands í kjölfarið. Búnaðarfélagið hafði ekki fjárhagslega burði til að kosta sýninguna á eigin spýtur, en ríkisstjórn Íslands og þing brugðust vel við fjárbeiðnum félagsins og lögðu til peningastyrk. Félagið auglýsti síðan í tvígang hérlendis og erlendis eftir verkfærum á sýninguna og brugðust margir framleiðendur og verslanir vel við, einkum þó erlendis, en undirtektir hjá íslenskum aðilum þóttu heldur daufar.

Jafnframt hófst undirbúningur haustið 1920 að undirbúa sýningarsvæðið sem ákveðið hafði verið að stæði við Gróðrastöð Búnaðarfélagsins við Hallskot, sem stóð skammt frá núverandi suðurenda Laufásvegar í Reykjavík. Suðausturhluti hennar var grýtt holt sem jafnað var út, valtað, borið möl í og girt með háum garði úr höggnu grágrýti. Á miðju svæðinu voru reist þrjú tjöld, það stærsta fyrir sýningarmuni en hin tvö fyrir veitingasölu. Verkfærahúsi Búnaðarfélagsins, sem stóð á lóðinni, var jafnframt breytt í þágu sýningarinnar, og í gamla Kennaraskólanum ofan við Gróðrastöðina fékk félagið fjórar stofur og annað rými fyrir sýningarmuni. Pétur Jónsson, ráðherra, opnaði sýninguna og mátti heyra á ræðu hans og annarra framámanna að þessi fyrsta landbúnaðarsýning á Íslandi skyldi vera tákn framfara og umbóta í landbúnaðarmálum, enda væri öllum ljóst að íslenskur landbúnaður væri á frumstigi.

Þekktar verslanir og verksmiðjur í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum sendu muni á sýninguna, auk þess sem nokkrir Íslendingar stuttu við bakið á henni við útvegun hluta, þar á meðal stórkaupmennirnir Natan & Olsen og Sigurjón Pétursson í Álafossi sem lagði til fjölbreytt safn af íslenskum vefnaðarvörum. Alls voru sýnendur 124 talsins og hátt í fjórtán hundruð sýningargripir.

Sýningin stóð yfir frá 27. júní til 3. júlí 1921, og var vel sótt. Sýnt var allt sem nöfnum tjáði að nefna sem tengdist búskap, allt frá smáverkfærum á borð við garðhrífur og arfajárn upp í dráttavélar, heyvinnutæki, skurðgröfur, sprengiefni og raftæki, en þau síðast nefndu höfðu ekki síst aðdráttarafl enda Elliðaárvirkjun nýtekin til starfa. Var áhuginn á raftækjunum mjög mikill og þau þóttu nýlunda. Á hverjum degi voru jafnframt haldnir búnaðarmálafundir, búnaðarþing var haldið og sýndar kvikmyndir af búnaðarháttum í Svíþjóð. Svo vel var hugað að langt komnum gestum að aðkomumönnum var fylgt á söfn bæjarins, sláturhúsið, smjörlíkisgerðina, höfnina, rafmagnsstöðina og alla leið til Vífilsstaða. Gestir á sýningunni voru um fimm þúsund talsins sem þótti öndvegis aðsókn, og má til þess líta að Íslendingar voru alls um 95 þúsund talsins á þessum tíma.

Peningurinn sjaldgæfi frá búnaðarsýningunni 1921 verður sýndur á meðal fjölda annarra gripa á 50 ára afmælissýningu Myntsafnarafélags Íslands í sal Ferðafélags Íslands í Mörkinni helgina 22.-24. mars. Þar verður m.a. að finna einstakt úrval af íslenskum seðlum og mynt, vörupeningar, brauðpeningar, tunnumerki frá síldarárunum, herstöðvargjaldmiðlar, gömul íslensk hlutabréf og ótal margt fleira.  

Skoða alla möguleika til að mæta mikilli eftirspurn eftir lóðum
Fréttir 20. janúar 2022

Skoða alla möguleika til að mæta mikilli eftirspurn eftir lóðum

„Við erum hvergi nærri hætt með okkar uppbyggingu, en stefnan er að íbúar í svei...

„Fyrir okkur öll“ er nýtt slagorð Rangárþings ytra
Fréttir 19. janúar 2022

„Fyrir okkur öll“ er nýtt slagorð Rangárþings ytra

Rangárþing ytra efndi nýlega til slagorðakeppnis um slagorð fyrir sveitarfélagið...

Mikilvægt skref í uppbyggingu Akureyrarflugvallar
Fréttir 19. janúar 2022

Mikilvægt skref í uppbyggingu Akureyrarflugvallar

Samningur um smíði á 1.100 fermetra viðbyggingu við Flug­stöðina á Akureyri var ...

Byggðasaga Skagafjarðar tók 26 ár í vinnslu og í verkið fóru um 50 starfsár
Fréttir 19. janúar 2022

Byggðasaga Skagafjarðar tók 26 ár í vinnslu og í verkið fóru um 50 starfsár

Hjalti Pálsson frá Hofi, ritstjóri og aðalhöfundur Byggðasögu Skagafjarðar, skil...

Vinna hefst við gerð reglna um raforkuöryggi
Fréttir 19. janúar 2022

Vinna hefst við gerð reglna um raforkuöryggi

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp um raforkuöryggi....

Ný reglugerð um velferð alifugla
Fréttir 19. janúar 2022

Ný reglugerð um velferð alifugla

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur undirritað reglugerð um velferð alifu...

Skútustaðahreppur kaupir Kálfaströnd á 140 milljónir
Fréttir 18. janúar 2022

Skútustaðahreppur kaupir Kálfaströnd á 140 milljónir

Gengið var frá kaupsamningi undir lok síðasta árs um jörðina Kálfaströnd (Kálfas...

Segist hafa fengið hótun um málefni sveitarfélagsins
Fréttir 18. janúar 2022

Segist hafa fengið hótun um málefni sveitarfélagsins

Það hefur vakið athygli að Halldóra Hjörleifsdóttir, oddviti Hrunamannahrepps, h...