Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Halldór Kristján Jónsson, síðasti hreppstjóri landsins, var reffilegur við að draga í dilka í Þverárrétt um síðustu helgi, en þar gegndi hann líka hlutverki réttarstjóra.
Halldór Kristján Jónsson, síðasti hreppstjóri landsins, var reffilegur við að draga í dilka í Þverárrétt um síðustu helgi, en þar gegndi hann líka hlutverki réttarstjóra.
Mynd / Anna Rún Halldórsdóttir
Fréttir 1. október 2019

Síðasti hreppstjórinn á landinu í hlutverki réttarstjóra í Þverárrétt

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Í Eyja- og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi er síðasti hrepp­stjóri landsins starfandi með þann titil. Maðurinn heitir Halldór Kristján Jónsson og býr á Þverá og stóð vaktina sem réttarstjóri í Þverárrétt.
 
Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga hefur hreppum fækkað jafnt og þétt með sameiningu sveitarfélaga og eru þeir nú 24 á landinu öllu af 70 sveitarfélögum. Samfara þeim breytingum og fækkun sýslumanns­embætta hefur embættum hrepp­stjóra fækkað, þannig að nú er einungis einn maður á landinu sem ber titil hreppstjóra. 
 
 
Síðasti „móhíkaninn“
 
„Ég er síðasti móhíkaninn með þennan titil, sagði Halldór í samtali við Bændablaðið. Hann sagði fækkun hreppstjóra vera eðlilegan gang lífsins og afleiðingu betri samgangna, aukinna samskipta og breytinga á stjórnkerfinu. Þá segir hann stefnuna vera þá að fækka sveitarfélögum enn frekar sem ýti undir breytingar á embættum.   
 
Hreppstjórar hafa alltaf verið æðri sveitarstjórnarstiginu ef svo má segja, því þeir hafa heyrt undir sýslumenn og voru eins konar framkvæmdaraðilar þeirra í minni sveitarfélögum. Þannig héldu hreppstjórar uppboð á sínu svæði og störfuðu sem ígildi lögreglustjóra.
 
Sáu um kosningar og „aksjón“
 
„Við sjáum um kosningar og allt slíkt sem sveitarstjórnarmenn gera ekki. Nú er það allt orðið breytt enda hefur kjörstöðum fækkað mikið. Þegar menn fluttu t.d.  af jörðum var svo haldið „aksjón“ (orð sem notað var áður fyrr yfir uppboð). Meira að segja þegar skólinn okkar var byggður eftir 1965 voru eftir leifar af ýmiss konar dóti og þá var haldin „aksjón“ á þeim hlutum. Þetta þóttu miklir menningarviðburðir,“ segir Halldór. 
 
Í lögum segir að hreppstjóri skuli vera í hverju sveitarfélagi utan aðseturs sýslumanns, nema sýslumaður telji þess ekki þörf. Þá er starf hreppstjóra losnar skal sýslumaður auglýsa það laust til umsóknar. Sýslumaður veitir stöðu hreppstjóra að fenginni umsögn sveitarstjórnar. Hafi sýslumaður skrifstofu í sveitarfélagi utan aðseturs síns er honum heimilt án auglýsingar að skipa forstöðu­mann þeirrar skrifstofu jafnframt hreppstjóra í því sveitarfélagi. Er hreppstjórastarfið þá hluti af starfi forstöðumanns. Engan má skipa hreppstjóra, nema hann uppfylli eftirtalin skilyrði:
  • Sé svo andlega og líkamlega hraustur, að hann geti gegnt stöðunni. 
  • Sé 21 árs að aldri. 
  • Sé lögráða og hafi forræði á fé sínu. 
  • Sé íslenskur ríkisborgari.
Á Vesturlandi eru aðeins eftir tveir hreppar þótt sveitarfélögin séu 8 talsins. Það eru Eyja- og Miklaholts­hreppur sem er með eins starfandi hreppstjóra landsins. Síðan er Skorradals­hreppur í samnefndum dal sem gengur austsuðaustur úr Borgarfirði.
 
Á Vestfjörðum eru 9 sveitarfélög en af þeim eru fimm hreppar. Það eru Árneshreppur sem nær frá Reykjarfirði að Kaldbaksvík á Ströndum, Kaldrananes­hreppur sem nær úr Kaldbaksvík og í botn Steingrímsfjarðar á Ströndum, Reykhóla­­hreppur sem nær yfir Austur-Barðastrandasýslu, Súðavíkur­hreppur sem nær yfir allt innanvert Ísafjarðar­djúp að vestanverðu og Tálknafjarðar­hreppur.
 
Á Norðurlandi vestra eru tveir hreppar eftir af 7 sveitarfélögum, en það eru Akrahreppur í Skagafirði og Húnavatnshreppur inn af Húnafirði.
 
Á Norðurlandi eystra eru fimm hreppar af 13 sveitarfélögum. Það eru Grýtubakkahreppur í Eyjafirði, Svalbarðsstrandarhreppur í Eyjafirði, Tjörneshreppur á samnefndu nesi, Skútustaðahreppur í Mývatnssveit og Svalbarðshreppur við Þistilfjörð.
 
Á Austurlandi eru enn þrjú sveitar­félög skilgreind sem hreppar af 7 sveitarfélögum. Það eru Vopnafjarðarhreppur, Borgarfjarðar­hreppur sem nær yfir svæðið frá Héraðsflóa að Seyðisfirði,  Fljótsdals­hreppur í Fljótsdal inn af Lagarfljóti og Djúpavogshreppur.
 
Á Suðurlandi eru 14 sveitarfélög en sjö hreppar með afar flókinni skiptingu. Það er Ásahreppur sem er tvískiptur á milli Rangárþings ytra, Flóahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Grímsnes- og Grafningshreppur er svo þrískiptur, austan við landamerki Suðurnesja og höfuðborgarsvæðis. Hann er líka með landamerki í suður að Flóahreppi og Sveitarfélaginu Ölfusi, en þar á milli er Sveitarfélagið Árborg. Þá eru landamæri að Bláskógabyggð í norðri og Skeiða- og Gnúpverjahreppi í austri. Hrunamannahreppur er svo á milli Bláskógabyggðar í vestri og Skeiða- og Gnúpverjahrepps í austri. Mýrdalshreppur er með vesturlandamæri að Rangárþingi eystra og Skaftárhreppi í austri. Austan Skaftárhrepps er svo sveitar­félagið Hornafjörður. 
 
Á Suðurnesjum eru 5 sveitarfélög en enginn hreppur. 
 
Á höfuðborgarsvæðinu eru 7 sveitar­félög og þar af er einn hreppur, Kjósarhreppur. Hafnar­fjörður er svo tvískiptur, en hluti sveitarfélagsins er á Krísuvíkur­svæðinu á Suðurnesjum. 
 
Virk endurheimt 30% raskaðra vistkerfa árið 2030
Fréttir 29. janúar 2026

Virk endurheimt 30% raskaðra vistkerfa árið 2030

Auðug líffræðileg fjölbreytni náttúrunnar er forsenda heilbrigðra vistkerfa, sem...

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun
Fréttir 29. janúar 2026

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun

„Að fólk geti greitt sér laun fyrir vinnuna, byggt upp jarðir, ræktun og bygging...

Skýrt nei við aðildarviðræðum
Fréttir 29. janúar 2026

Skýrt nei við aðildarviðræðum

Ríflega 76 prósent bænda sem eru félagsmenn í Bændasamtökum Íslands eru ósammála...

Dreifikostnaður raforku hækkar
Fréttir 29. janúar 2026

Dreifikostnaður raforku hækkar

Gjaldskrárhækkanir dreifiveitna rafmagns hafa hækkað umfram vísitölu á undanförn...

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri
Fréttir 29. janúar 2026

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri

Samkvæmt niðurstöðum skýrsluhalds Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) fyrir...

Mesti fjöldi skráðra sæðinga
Fréttir 27. janúar 2026

Mesti fjöldi skráðra sæðinga

Metþátttaka var í sauðfjársæðingum nú í desember. Þann 9. janúar var búið að skr...

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður
Fréttir 27. janúar 2026

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður

Anna Guðrún Þórðardóttir kynnti í haust frumniðurstöður úr doktorsverkefninu Erf...

Þari í sauðakjöt, krydd og kex
Fréttir 27. janúar 2026

Þari í sauðakjöt, krydd og kex

Nýtt frækex, unnið úr íslenskum þara, er komið á innlendan markað.