Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Sigurður með plastbrúsana úr endurunnu heyrúlluplasti frá bændum, en þeir eru væntanlegir fljótlega í verslanir.
Sigurður með plastbrúsana úr endurunnu heyrúlluplasti frá bændum, en þeir eru væntanlegir fljótlega í verslanir.
Mynd / smh
Fréttir 25. apríl 2025

Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Fyrirtækið Pure North í Hveragerði hefur nú náð að loka hringrás endurvinnslu á heyrúlluplasti með framleiðslu á fimm lítra plastbrúsum sem væntanlegir eru í verslanir.

Brúsaframleiðslan er afrakstur samstarfs sem fyrirtækið fór í með Bændasamtökum Íslands og nokkrum sveitarfélögum árið 2021. Því var ætlað að miðla upplýsingum og reynslu til að hraða framgangi innlendrar endurvinnslu á úrgangsefnum, meðal annars frá landbúnaði. Verkefnið var hugsað til fimm ára og var ætlað að leiða til aukinnar verðmætasköpunar úr úrgangi og minni umhverfisáhrifa. Í samningnum var gert ráð fyrir að það plast sem félli til í landbúnaði myndi nýtast til vöruframleiðslu.

Hringrás rúlluplastsins og plastbrúsaframleiðslunnar

Sigurður Halldórsson, stofnandi og einn eigenda Pure North, telur að nú fari um 90 prósent af öllu rúlluplasti í landinu til endurvinnslu hjá fyrirtækinu, sem var stofnað árið 2015. „Frágangurinn á plastinu til okkar frá bændum hefur stórbatnað með tímanum, en áður komu jafnvel heilu skrokkarnir með. Endurvinnslan hingað til hefur í raun falist í hreinsun á plasti, bræðslu og framleiðslu á plastperlum. Þær höfum við að mestu selt úr landi en einnig framleitt úr því girðingastaura. Það merkilega við framleiðslu á plastbrúsunum er að með henni lokum við hringrás heyrúlluplastsins þar sem allt það efni sem fellur til hjá bændum verður hugsað til þeirrar framleiðslu.

Það verður hægt að nota brúsana sem ílát undir hvað sem er, nema spilliefni ef það á að endurvinna þá aftur, en við stefnum auðvitað á að fá þá sem flesta aftur til okkar í endurvinnslu og þannig halda hringrásinni gangandi.“

Endurvinnsla sem skilar sér til bænda

Pure North greiðir bændum fyrir hráefnið, mismikið eftir því hversu langa leið það þarf að flytja það til fyrirtækisins í Hveragerði.

„Við greiðum minnst til þeirra sem senda plastið úr nágrenni Reykjavíkur, í kringum 11 þúsund krónur á tonnið, en mest er greitt um 30 þúsund á tonnið. Það er þá misjafnt hvort bændur sjálfir sjái um þetta, sveitarfélögin eða gámafélög safni þessu saman frá bændum. Við fáum svo okkar tekjur að hluta til í gegnum úrvinnslusjóð en að mestu leyti af sölu á okkar plastperlum erlendis. Lengst af hefur reksturinn verið brekka, en það er óhætt að segja að við séum nú komin yfir erfiðasta hjallann,“ útskýrir Sigurður.

Einnig í öðrum skyldum umhverfisverkefnum

Auk endurvinnslu á plasti er Pure North í öðrum skyldum umhverfisverkefnum, til dæmis býður það fyrirtækjum og sveitarfélögum upp á umhverfisráðgjöf um úrgangsstjórnun með hjálp hugbúnaðar og sérfræðinga í úrgangsmálum. „Við sáum að mörg fyrirtæki og sveitarfélög höfðu litla yfirsýn yfir úrgangsmálin sín og þurftu betri gögn til að taka upplýstar ákvarðanir, bæði til að hagræða og gera betur fyrir umhverfið. Þess vegna þróuðum við hugbúnað sem greinir bæði kostnað og magn úrgangs og hjálpar við að bæta nýtingu og skilja þennan málaflokk.“

Einnig býður Pure North upp á jarðgerðarvélar og fleiri úrgangbsúnað til sölu og leigu, sem til dæmis sveitarfélög hafa nýtt sér til meðhöndlunar á lífrænum úrgangi. „Þegar viðskiptavinir okkar fá yfirsýn yfir úrgangsmálin þá langar þá auðvitað að gera breytingar og þá fórum við að leysa ýmis vandamál með tækjum til ummálsminnkunar og umbreytinga á úrgangi. Jarðgerðarvélarnar til dæmis eru til í nokkrum stærðum og geta afkastað býsna miklu á stuttum tíma, þær stærstu. Ef við til dæmis setjum 100 kíló af matarafgöngum inn í svona vél þá koma um tíu kíló af sótthreinsuðum áburði út og ferlið tekur ekki meira en 24 tíma.

Sveitarfélög geta nýtt sér áburðinn beint til landgræðslu, og svo er hægt að gefa áburðinn eða selja hann þriðja aðila, þá þarf áburðurinn að fara í gegnum ákveðið eftirlitsferli sem hefur gengið vel hjá okkar samstarfsaðilum og áburðurinn að koma virkilega vel út,“ segir Sigurður.

Skylt efni: Pure North Recycling

Virk endurheimt 30% raskaðra vistkerfa árið 2030
Fréttir 29. janúar 2026

Virk endurheimt 30% raskaðra vistkerfa árið 2030

Auðug líffræðileg fjölbreytni náttúrunnar er forsenda heilbrigðra vistkerfa, sem...

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun
Fréttir 29. janúar 2026

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun

„Að fólk geti greitt sér laun fyrir vinnuna, byggt upp jarðir, ræktun og bygging...

Skýrt nei við aðildarviðræðum
Fréttir 29. janúar 2026

Skýrt nei við aðildarviðræðum

Ríflega 76 prósent bænda sem eru félagsmenn í Bændasamtökum Íslands eru ósammála...

Dreifikostnaður raforku hækkar
Fréttir 29. janúar 2026

Dreifikostnaður raforku hækkar

Gjaldskrárhækkanir dreifiveitna rafmagns hafa hækkað umfram vísitölu á undanförn...

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri
Fréttir 29. janúar 2026

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri

Samkvæmt niðurstöðum skýrsluhalds Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) fyrir...

Mesti fjöldi skráðra sæðinga
Fréttir 27. janúar 2026

Mesti fjöldi skráðra sæðinga

Metþátttaka var í sauðfjársæðingum nú í desember. Þann 9. janúar var búið að skr...

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður
Fréttir 27. janúar 2026

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður

Anna Guðrún Þórðardóttir kynnti í haust frumniðurstöður úr doktorsverkefninu Erf...

Þari í sauðakjöt, krydd og kex
Fréttir 27. janúar 2026

Þari í sauðakjöt, krydd og kex

Nýtt frækex, unnið úr íslenskum þara, er komið á innlendan markað.