Pikkoló færir kaupmanninn aftur á hornið
Á fimm stöðum á höfuðborgarsvæðinu má sjá lítil viðarhús merkt Pikkoló sem er íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í dreifingu á ferskri matvöru til einstaklinga.
„Pikkoló er snjalldreifikerfi fyrir matvöruverslanir á netinu og okkar meginmarkmið er að hjálpa fólki að nálgast fjölbreytta og ferska matvöru í sínu nærumhverfi,“ segir Ragna Margrét Guðmundsdóttir, einn stofnenda Pikkoló. „Við fókusum á ferska matvöru. Okkar sérstaða er kælingin og við erum í raun ein á þeim markaði.“
Á stöðvum Pikkoló getur fólk nálgast ýmsar ferskvörur á leiðinni úr vinnunni eða nálægt heimili sínu. Með þessu vill fyrirtækið fækka ferðum fólks og stuðla þannig að minni umferð. „Þetta er í rauninni eins og póstbox, nema fyrir matvöru,“ segir Ragna.
Þegar fólk pantar matvöru hjá samstarfsaðila Pikkoló getur það valið að sækja vörurnar í einhverja af stöðvum þeirra. Þegar pöntunin er komin í hólf fær fólk sms með QR-kóða og þegar kóðinn er skannaður fyrir utan útidyrahurð stöðvarinnar þá gengur fólk inn, finnur hólfið sitt og sækir sína pöntun.
„Þarna geturðu sótt vörur frá mismunandi aðilum í eitt hólf og eytt tímanum þínum í eitthvað skemmtilegra en að fara í búð,“ segir Ragna.
Kaupmaðurinn aftur á hornið
Hugmyndin að Pikkoló varð til vorið 2019 en þá fékk fyrirtækið fyrsta styrkinn fyrir verkefnið frá Miðborgarsjóði Reykjavíkur. Ragna lærði nýsköpunar- og viðskiptafræði og lagði áherslu á hönnunardrifna nýsköpun, „þar sem maður setur sig í spor fólks og finnur nýjar lausnir. Við fórum að skoða matarinnkaup í daglegu lífi fólks og hvernig þau hafa þróast frá því að vera litli kaupmaðurinn á horninu yfir í stóru verslanirnar sem eru staðsettar á jaðarsvæðum.“
Ragna segir að með stafrænni þróun séu tækifæri til þess að snúa þessari þróun að einhverju leyti við og færa verslun aftur í nærumhverfi fólks: „Við getum í raun fært kaupmanninn aftur á hornið,“ segir hún.
Hentar vel fyrir bændur
Pikkoló er með fjölbreytta samstarfsaðila og Ragna nefnir Matland, Eldum rétt, Heimkaup og Reykjalund grænmeti sem dæmi. Þetta sé lausn sem henti bændum vel, segir Ragna. „Beint frá býli og þess háttar, sérstaklega þegar það er uppskerutímabil hjá þeim, svona frá júní til október.“ Þeir sem vilji nýta þjónustuna geta gert þjónustusamning við Pikkoló en krafa er gerð um starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirlitinu.
Með haustinu ætla þau að opna markaðstorg Pikkoló þar sem söluaðilar sem ekki eru komnir með vefverslun geta sett inn vörur sínar á vefsvæði Pikkoló og byrjað að afhenda í gegnum Pikkolóstöðvar. „Þá getur maður ímyndað sér jólavörur, gjafavöru, ostakörfur eða hvað sem þarf að vera í kæli,“ segir Ragna.
Umhverfisvænar og aðlaðandi
Stöðvar Pikkoló eru búnar til úr svansvottuðu hráefni og byggðar úr timbri frá Byko. Pikkoló notar kælikerfi frá Kapp. „Þetta er í rauninni alfarið íslenskt hugvit og hönnun, allt frá grunni,“ segir Ragna. Vandað var til verka við hönnun stöðvanna.
„Það hefur verið lögð mikil áhersla á að þær séu aðlaðandi í umhverfinu. Og af því að við viljum vera í nærumhverfi fólks þá viljum við að fólki líði vel með að hafa þetta nálægt sér. Þannig að það var mikil vinna lögð í að þetta væri fallegt,“ segir Ragna og segir þau ekki hafa fengið eina einustu kvörtun frá nágrönnum stöðvanna.
Þau höfðu smá áhyggjur af því í fyrstu að opna stöðvar rétt hjá heimilum fólks en samvistin hafi gengið vel. „Þetta er í rauninni bara ótrúlega flott þjónusta fyrir þetta fólk sem getur þá nýtt sér Pikkoló nánast fyrir utan húsið hjá sér sem er bara frábært.“ Þeim þótti mikilvægt að stöðvarnar væru aðlaðandi að innan, þær hafi stóra glugga svo næg dagsbirta lýsi upp rýmið. „Við lögðum áherslu á að þú værir ekki inni í einhverjum dimmum gám. Þetta er svona nútímakaupmaðurinn á horninu þannig að okkur finnst þurfa að vera vinaleg stemning þegar þú sækir matarinnkaupin.“
Stöðvarnar eru færanlegar og því auðvelt að flytja þær í heilu lagi ef þess þarf. Og Ragna segir þau læra eitthvað nýtt með hverri stöð. „Fyrst gerðum við frumgerðina, lærðum af henni og hönnuðum svo næstu stöðvar sem voru framleiddar fjórar í einu. Í næstu útgáfu vitum við meira hvað má betur fara. Þannig að við erum alltaf að læra í hverri nýrri útgáfu og framleiðslu á stöðvum.“ Stöðvarnar eru vel nýttar og suma daga er hreinlega búið að fylla stöðvarnar. Til stendur að stækka dreifikerfið. „Það er klárlega þörf á fleiri stöðvum,“ segir Ragna.
Hjá Pikkoló leggja þau mikla áherslu á endurnýtingu og endurvinnslu. Fólk getur skilið eftir kassa í hólfinu og tómu kössunum er síðan komið til baka í verslunina eða farið með í endurvinnslu. Einnig býður þessi dreifiaðferð upp á að endurnýta umbúðir. „Við erum með safahreinsun frá Kaja Organic, þar sem þú færð safa fimm daga í röð í glerflösku og skilar þá notuðu flöskunum um leið og þú sækir nýju flöskurnar.“
Ragna segir fólk ganga vel um stöðvarnar og skili sér nær undantekningarlaust til þess að sækja vörurnar. En hvað gerist ef fólk sækir ekki vörurnar sínar? „Þá höfum við samband við viðkomandi og ef það er ekki hægt að ná í hann fara matvælin í frískápinn eða góðgerðarsamtök,“ segir Ragna og bætir við að þetta sé gert „áður en matvaran skemmist, til að forðast matarsóun.“
Stuðla að minni umferð
Ragna segir kosti þess að safna saman pöntunum vera að það stuðli að minni umferð á götum borgarinnar. „Fólk spyr oft af hverju það fái þetta ekki bara heimsent,“ segir Ragna en tekur fram að það sé auðvitað dýrari kostur. Auk þess þá er fólk ekki bundið við að bíða heima hjá sér ef það pantar sendingar á stöðvar Pikkoló. Hjá Pikkoló geta þau keyrt út sínar sendingar utan háannatíma, fólk nálgast sendingarnar þegar því hentar og auk þess fer það styttri vegalengdir vegna þess að það getur sótt í sínu nærumhverfi.
„Í staðinn fyrir að fara í áttatíu heimahús með sendingar þá er hægt að afhenda áttatíu pantanir í hverja stöð sem er miklu sjálfbærari lausn.“
Með þessu telur hún þennan verslunarmáta geta stuðlað að minni bílaumferð og haft þannig jákvæð áhrif á umhverfið auk þess sem færri þurfi að sitja fastir í umferð í lok vinnudags. Hún telur lausnina til hagsbóta fyrir alla, „fyrir umhverfið, verslunina og viðskipavininn sem veit þá að pöntunin er í öruggum höndum og í kæli við rétt hitastig,“ segir Ragna.