Ný lína frá Massey Ferguson væntanleg til landsins í haust
Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Á dögunum var ný dráttarvélalína frá Massey Ferguson kynnt til sögunnar sem ber heitið 8S. Mikið var um dýrðir í Ferguson-verksmiðjunum í Beauvais í Frakklandi þar sem vélarnar voru kynntar á alheimsfrumsýningu.
Um er að ræða vélar á stærðarbilinu 200–300 hestöfl. Í þeim er háþróuð gírskipting sem mun gjörbylta upplifun ökumanns að sögn framleiðenda. Meðal annars er ný sjö þrepa gírskipting í nýju línunni sem kallast Dyna 7.
Vélarnar eru búnar einu hljóðlátasta ökumannshúsi á markaðnum en hávaðinn þar inni á ekki að fara yfir 68 desibel. Húsið er slitið frá vélarrýminu sem á bæði að lágmarka titring og hávaða. Heil rúða er að framan og ekkert mælaborð sem skyggir á útsýni ökumanns.
Að sögn þeirra Össurar Björnssonar og Friðriks Inga Friðrikssonar hjá Jötni eru nýju vélarnar væntanlegar með haustinu hingað til lands en íslenskir bændur verða með þeim fyrstu til að geta keypt vélar úr nýju Ferguson-línunni.