Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Niðurstöður skýrsluhaldsársins í nautakjötsframleiðslunni 2018
Á faglegum nótum 12. febrúar 2019

Niðurstöður skýrsluhaldsársins í nautakjötsframleiðslunni 2018

Höfundur: Guðmundur Jóhannesson og Sigurður Kristjánsson
Niðurstöður skýrsluhaldsársins í nautakjötsframleiðslunni 2018 hafa verið reiknaðar og birtar á vef Ráðgjafarmiðstöðvar land­bún­aðarins, www.rml.is. Hér verður farið yfir helstu tölur úr uppgjörinu. 
 
Á árinu 2017 tók gildi sú breyting að afurðaskýrsluhald er nú skilyrði fyrir greiðslum samkvæmt samningi um starfsskilyrði í nautgriparækt. Þetta þýðir að skýrsluhald er í raun og veru skylda fyrir alla framleiðendur mjólkur og nautakjöts, í það minnsta ætli menn að halda gripa- og beingreiðslum. Þetta hefur orðið til þess að skapa grunn að skýrsluhaldi í nautakjötsframleiðslu, nokkuð sem er nýtt hérlendis.
 
Undir lok síðasta árs var byrjað að birta uppgjör fyrir nautakjötsframleiðsluna og nær það til búa þar sem haldnar eru kýr til slíkrar framleiðslu. Sá galli er þó á gjöf Njarðar að þessar niðurstöður ná þá ekki yfir slíkar kýr sem eru á búum þar sem einnig er mjólkurframleiðsla. Þetta má líta á sem bæði kost og galla. Kosturinn er að uppgjörið tekur til sérhæfðra búa þar sem nautgripir eru eingöngu haldnir til kjötframleiðslu en gallinn að uppgjörið nær ekki til allra kúa í slíkri framleiðslu.
 
Skýrsluhald nautakjöts­framleiðslunnar árið 2018 nær til 105 búa og þar af er að finna holdakýr skráðar af erlendu kyni á 67. Fjöldi kúa á þessum búum var við uppgjör ársins 2.217 talsins og var meðalfjöldi kúa á bú 21,1 sem reiknast yfir í 17,1 árskú á bú. Alls var um að ræða 1.747 burði á þessum búum á árinu 2018 sem jafngildir 0,79 burðum/kú.
 
 
Kjötframleiðsla og flokkun ársins 2018
 
Heildarframleiðsla ársins á þessum 105 búum nam rúmlega 488 tonnum sem þýðir að þau framleiða rétt rúm 10% alls nautgripakjöts á landinu. Meðalframleiðsla á bú var 4.650 kg en heildarfjöldi slátraðra gripa var 2.041. Meðalþungi kúa frá þessum búum var 203,8 kg og meðalþungi ungneyta var 246,1 kg og voru þau að jafnaði 732,3 daga gömul við slátrun. Það jafngildir vexti upp á 320,5 g/dag, sé reiknað út frá fallþunga. Til samanburðar var slátrað 9.314 ungneytum á landinu öllu sem vógu 240,2 kg að meðaltali við 738,8 daga aldur. Þessi sérhæfðu bú sem yfirlitið nær til ná því gripunum heldur þyngri við lægri aldur að jafnaði.
 
Ef litið er á flokkun gripanna var meðalflokkun ungneyta á þessum búum 4,8 á meðan meðalflokkun ungneyta yfir landið er 4,0. Flokkun er því betri á þessum búum til jafnaðar. Rétt er að hafa í huga að meðalflokkun er reiknuð þannig að flokkunum er gefið tölugildi þar sem P = 2, O = 5, R = 8, U =11 og E = 14. Meðalgripurinn á búunum í yfirlitinu er því nálægt því að flokkast í O.
 
Frjósemi
 
Eins og áður sagði fæddust 1.747 kálfar á þessum búum á árinu 2018 og reiknast meðalbil milli burða 453 dagar. Það þýðir að meðalkýrin nær ekki einum burði á ári sem hlýtur að teljast grunnforsenda þess að um arðbæran búskap sé að ræða. Þegar við bætist að hlutfall dauðfæddra kálfa við 1. burð er 17,9%, 7,5% við aðra burði og vanhöld frá 0-6 mánaða 2,6%, verður fjöldi kálfa til nytja töluvert langt innan við kálf á kú á ári.
 
Sæðingar á þessum búum eru nánast óþekkt fyrirbæri þar sem aðeins 124 kýr eða 5,6% voru sæddar á árinu. Þar af voru aðeins 36 kýr af erlendu kyni sæddar. Til jafnaðar voru þessar örfáu kýr sæddar 1,4 sinnum og að meðaltali liðu 127,2 dagar frá burði til 1. sæðingar. Þær kýr sem eru sæddar svo löngu eftir burð munu ekki bera með 12 mánaða millibili.
 
Af framansögðu verður að ráða að þessi bú eigi mikil tækifæri í notkun nýs erfðaefnis úr þeim Angus-gripum sem eru að vaxa úr grasi á einangrunarstöðinni á Stóra-Ármóti. Þangað á að vera hægt að sækja meiri vaxtarhraða, betri flokkun auk móðureiginleika en horft var sérstaklega til þess við val nauta þegar keyptir voru fósturvísar frá Noregi.
 
 
Mestur þungi og vöxtur
 
Hér á eftir er litið yfir alla nautakjötsframleiðslu í landinu, þar sem kjöt frá búum með mjólkurframleiðslu er ekki undanskilið. 
 
Þyngsta ungneytið sem slátrað var árinu var naut nr. 1132 á Breiðabóli á Svalbarðsströnd. Sá gripur var holdablendingur af Angus-kyni undan Anga 95400 og vóg 532,5 kg er honum var slátrað við 29 mánaða aldur. Hann flokkaðist í UN U2+. Í töflu 2 má sjá þau ungneyti sem náðu yfir 450 kg fallþunga á árinu 2018 en þau voru sex talsins og frá þremur búum, Breiðabóli á Svalbarðsströnd, Nýjabæ undir Eyjafjöllum og Hamri í Hegranesi.
 
Í töflu 3 má sjá þau ungneyti sem náðu hröðustum vexti í grömmum á dag,  reiknuðum út frá fallþunga. Reiknað er með 20 kg fallþunga við fæðingu. Mestan vöxt ársins átti kvíga númer 462 á Halldórsstöðum í Skagafirði. Henni var slátrað tæplega 15 mánaða og vóg fallið þá 309 kg. Kvígan var 60% Galloway og flokkaðist í UN R+2+.
 
Það er von okkar að birting niðurstaðna skýrsluhalds í nautakjötsframleiðslunni verði til þess að efla þessa framleiðslu og auka arðsemi hennar. Niðurstöðurnar sýna okkur glöggt að það er hægt að gera vel en jafnframt að það eru tækifæri til þess að gera mun betur.
 
Holdablendingarnir skara fram úr
 
Við skoðun á þessum tölum sem og listunum yfir þyngstu gripina og þá sem vaxa hraðast sést ákaflega glöggt að holdablendingarnir skara fram úr. Það eru svo sem engin ný sannindi. Eðlilega taka gripir af kynjum sem hafa verið ræktuð m.t.t. vaxtar og kjötgæða, gripum sem eru ræktaðir til mjólkurframleiðslu fram. Það sýnir okkur jafnframt að hið nýja erfðaefni sem væntanlega mun standa til boða síðsumars skapar greininni gríðarmikil tækifæri. Þetta eru tækifæri sem menn mega undir engum kringumstæðum láta fram hjá sér fara og það er brýnt að hefja nú þegar undirbúning að því að taka þetta erfðaefni til notkunar. Við drögum stórlega í efa að það muni skila árangri að reka saman hóp villtra kúa og sæða einn góðan veðurdag. Það þarf að spekja gripina, venja þá við umgengni og meðhöndlun auk þess sem til staðar þarf að vera aðstaða til þess að handsama þá og meðhöndla. Sæðingar eru vandaverk og það má ekki kasta til þeirra höndunum. Eigi að nást góður árangur þarf undirbúning og vandvirkni.
 
Að lokum er full ástæða til þess að óska þeim framleiðendum sem náð hafa góðum árangri við framleiðslu á nautakjöti til hamingju með þann árangur og vart á neinn hallað þó ábúendur á Breiðabóli, Nýjabæ, Hamri, Halldórsstöðum, Svertingsstöðum 2 og Lækjartúni séu sérstaklega nefndir í því sambandi.

4 myndir:

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...