Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Mikið að gera hjá nemendum við að ljúka verkefnum fyrir sumarið
Fréttir 23. febrúar 2017

Mikið að gera hjá nemendum við að ljúka verkefnum fyrir sumarið

Höfundur: Vilmundur Hansen

Töluverðar annir eru við Garð­yrkjuskólann þessa dagana enda vorið á næsta leiti og fjöldi verkefna sem þarf að ljúka fyrir sumarið. Viðhald á húsnæði skólans hefur verið verulega vanrækt á liðnum árum. Á fjárlögum er gert ráð fyrir 70 milljónum króna til endurbóta á húsnæðinu.

Guðríður Helgadóttir, forstöðu­maður starfs- og endur­menntunar­deildar Landbúnaðar­háskóla Íslands, segir að nemendur í áfanga sem kallast plöntuvernd hafi undanfarið þrætt heimaland Garðyrkjuskólans og leitað að meindýrum á plöntum.

„Sérstaklega sitkalús. Það er gert vegna þess hve veturinn hefur verið mildur og gæti því verið hætta á faraldri sitkalúsar á grenitrjám næsta sumar. Enn sem komið er hafa þó heimtur sem betur fer verið litlar og engin lús fundist.“ 

Guðríður segir að í gróðurhúsum skólans skjóti stundum upp kollinum spennandi meindýr sem nemendur hafa kost á að greina og fræðast um samhliða því hvaða lífrænu varnir nýtast gegn viðkomandi meindýri. 

Ylræktarbraut

Guðríður segir að ylræktarnemar haldi utan um heimsfræga hnúðkálsræktun skólans. „Árlega er ræktað hnúðkál í gróðurhúsi skólans og verða kálhausarnir til sölu á sumardaginn fyrsta.  Allt ræktunarferlið er í höndum nemenda, sáning, priklun og útplöntun í gróðurhúsið, auk þess sem nemendur taka þátt í umhirðu plantnanna á ræktunartímanum.  Uppskeran verður einnig í þeirra höndum og þegar sumardagurinn fyrsti rennur upp selst hnúðkálið hraðar en auga á festir.“

Nemendur ylræktarbrautar eru jafnframt að læra um ylræktun blómlauka til afskurðar en sala á afskornum laukum hefur aukist jafnt og þétt síðustu árin.

Ræktun lífrænna matjurta

Á námsbraut um lífræna ræktun matjurta eru nemendur meðal annars að læra um það hvernig sé best að viðhalda frjósemi jarðvegs til ræktunar en það er einmitt lykilatriði í lífrænni ræktun. 

„Nemendur jarðgera allt lífrænt efni sem fellur til í eldhúsi skólans og er spennandi að fylgjast með því hvernig niðurbrotið gengur. Þetta er nýjasta námsbraut skólans og er nú kennd í annað sinn. Mikil eftirspurn er eftir afurðum sem framleiddar eru með aðferðum lífrænnar framleiðslu og anna framleiðendur í landinu engan veginn eftirspurninni, sem getur verið tækifæri fyrir öfluga nemendur eftir útskrift.“

Garð- og skógræktarbraut

„Nemendur garð- og skógarplöntubrautar vinna nú að uppeldi á trjáplöntum og fóru sáningar á elritrjám fram fyrir nokkrum dögum.  Nemendurnir munu fylgjast með plöntunum á uppeldistímanum og þegar plönturnar ná tiltekinni stærð verða þær gróðursettar í heimalandi skólans. 

Verkefni eins og þetta reyna á ýmsa þætti í ræktunartækninni, svo sem vökvun og áburðargjöf, lýsingu og stýringu á hitastigi og er þetta mjög góð æfing sem tengir saman upplýsingar úr mörgum áföngum,“ segir Guðríður.

Á skógræktarbraut er verið að kenna nýjan áfanga um útivistarsvæði og hafa nemendur meðal annars verið að skoða hvernig hægt sé að skipuleggja skógarsvæði þannig að hægt sé að taka á móti gestum. Kennsla í trjáfellingum er alltaf vinsæl og hafa nemendur verið á ferð í skóginum á Reykjum í viðeigandi hlífðarfatnaði með keðjusagir og grisjað burtu tré sem ekki hafa hlotið náð fyrir augum kennarans. Timbur úr skóginum á Reykjum var síðan flutt að Snæfoksstöðum þar sem Skógræktarfélag Árnesinga hefur komið sér upp fullkominni aðstöðu til flettingar á trjábolum.  Nemendur fengu þar að spreyta sig á flettingarsöginni og verður timbrið síðan notað í verkefnum á Reykjum. 

„Nemendur í skrúðgarðyrkju hafa verið að vinna í landmótun og hellulögnum í verknámshúsi skrúðgarðyrkjunnar og miðar vinnan að því að húsið verði orðið að glæsilegum innigarði á opnu húsi skólans á sumardaginn fyrsta. Samhliða þessu eru nemendur að stíga fyrstu skrefin í klippingum á trjám og runnum en margir njóta þess að hafa fengið þjálfun í þessu fagi í verknámi sínu, áður en þeir koma í skólann.

Hluti nemenda í skrúðgarðyrkju kom inn í námið í gegnum raunfærnimat og er það mjög góð leið fyrir fólk með mikla starfsreynslu því þar fær fólk metið það sem það kann og tekur svo þá áfanga í námi sem upp á vantar.

Endurbætur á húsnæði skólans

Húsnæði Garðyrkjuskólans hefur lengi verið vanrækt og viðhaldi víða áfátt. Guðríður segir að ríkisvaldið hafi veitt 70 milljónum króna til endurbóta á húsnæði skólans í ár og að það séu jákvæðar fréttir.

„Reyndar mátti ekki seinna vænna vera því hluti af þaki garðskálans, eins helsta einkennis skólans, fauk í hressilegu roki í byrjun febrúar. Innan skólans eru miklar væntingar til þess að tryggja megi áframhaldandi fjárveitingu til frekari endurbóta, ekki síst þegar horft er til samfélagslegra áhrifa þess að stuðla megi að enn öflugri garðyrkju hérlendis,“ segir Guðríður Helgadóttir að lokum. 

Skylt efni: Garðyrkjuskólinn | ræktun

Óarðbær innflutningur
Fréttir 17. september 2024

Óarðbær innflutningur

Einkahlutafélagið Háihólmi skilaði tæplega 1,2 milljóna króna hagnaði á sínu fyr...

Kjötframleiðsla eykst áfram
Fréttir 17. september 2024

Kjötframleiðsla eykst áfram

Samkvæmt nýútgefnum tölum Hagstofu Íslands jókst innlend kjötframleiðsla um 15 p...

Ætla í samkeppni við einokunarfyrirtæki
Fréttir 16. september 2024

Ætla í samkeppni við einokunarfyrirtæki

Nýtt fyrirtæki vill koma sér fyrir á gasmarkaði á Íslandi og hefur hug á að útve...

Reisir lítið sláturhús og hyggst slátra strax í haust
Fréttir 16. september 2024

Reisir lítið sláturhús og hyggst slátra strax í haust

Skúli Þórðarson, bóndi á Refsstað í Vopnafirði og fyrrverandi sláturhússtjóri Sl...

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...