Metár í framleiðslu og sölu á mjólk
Í nýjum gögnum Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) sést að aldrei hefur meiri mjólk verið framleidd og seld á Íslandi en á síðasta ári.
Að sögn Bjarna Ragnars Brynjólfssonar hjá SAM liggja fyrir lokatölur þar sem fram kemur að innvigtun hjá aðildarfélögum SAM árið 2024 hafi verið samtals rúmlega 153,6 milljónir lítra, sem sé nýtt met.
Næstmest framleitt 2018
Greiðslumark mjólkur á árinu 2024 var 151,5 milljónir lítra. Met var einnig í sölu á innlendum mjólkurvörum frá aðildarfélögunum.
Aðildarfélög SAM eru Auðhumla og Kaupfélag Skagfirðinga (KS). Auðhumla á 80 prósent og KS 20 prósent í Mjólkursamsölunni (MS), sem er langstærsta mjólkurvinnslufyrirtækið á Íslandi og er með starfsstöðvar á fimm stöðum á landinu.
Aðrar mjólkurvinnslustöðvar sem kaupa hrámjólk af Auðhumlu eru Biobú, sem vinnur úr lífrænt vottaðri mjólk, og Arna í Bolungarvík.
Það ár sem kemst næst síðasta ári í framleiðslumagni er 2018, þegar ríflega 152,4 milljónir lítra voru lagðir inn. Þá var greiðslumark talsvert minna og því talsvert meira af umframmjólk framleitt það árið.
Söluaukning á fitu- og próteingrunni
Tvö mikilvægustu efnin í mjólk eru fita, sem er um 4,2 prósent, og prótein, um 3,4 prósent. Mjög misjafnt er hversu mikið þarf af fitu og próteini í mjólkurvörur og því gjarnan talað um að sala á mjólkurvörum sé á annaðhvort fitu- eða próteingrunni. Þá er vísað til þess hversu mikið þarf af fitu eða próteini í framleiðsluna. Framleiðsla á undanrennu er til að mynda að mestu leyti á próteingrunni en smjör er til dæmis framleitt á fitugrunni.
Á síðasta ári nam sala mjólkurvara frá aðildarfélögum SAM á innanlandsmarkaði rúmlega 150 milljónum lítra á fitugrunni en rúmlega 132,5 milljónum lítra á próteingrunni. Útflutningur mjólkurvara á fitugrunni var rúmlega þrjár milljónir lítra en rúmlega 21 milljón lítra á próteingrunni.
Mikil aukning á útflutningi á fitugrunni
Útflutningurinn á fitugrunni jókst um tæplega 185 prósent frá fyrra ári vegna aukinnar framleiðslu á mjólk umfram greiðslumark árin 2022 til 2023 og vegur útflutningur á smjöri þyngst. Útflutningurinn á próteingrunni dróst hins vegar saman um 0,2 prósent.
Fyrir utan Mjólkursamsöluna hefur Arna einnig flutt mjólkurvörur út.