Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Kort frá franska umhverfisráðuneytinu sem birtist 20. ágúst síðastliðinn. Hér má sjá takmarkanir við notkun á vatni þar sem á rauðu svæðunum voru innleiddar ströngustu reglurnar.
Kort frá franska umhverfisráðuneytinu sem birtist 20. ágúst síðastliðinn. Hér má sjá takmarkanir við notkun á vatni þar sem á rauðu svæðunum voru innleiddar ströngustu reglurnar.
Fréttir 23. september 2020

Mestu þurrkar í 250 ár - þrumuveður fylgdi í kjölfarið

Höfundur: Erla Gunnarsdóttir

Alvarlegt ástand er nú í Frakklandi og Þýskalandi vegna viðvarandi þurrkatímabils framan af sumri en í ágústmánuði tók ekki betra við þegar þrumuveður og flóð geysuðu yfir fjölmörg lönd í Evrópu. Þriðja árið í röð þorna árfarvegir upp og korn grær ekki en í báðum löndunum eru nú strangar reglur um notkun á vatni.

 

Júlímánuður var sá heitasti í Frakklandi síðan árið 1959 með miklum skorti á rigningu. Hitastig frá janúar til júlí var það heitasta síðan mælingar hófust. Í ágúst fylgdi síðan þrumuveður og flóð á Normandí-svæðinu og hafði mikil áhrif á samgöngur. Á nokkrum klukkustundum mældist úrkoma frá 28 mm og upp í 60 mm. Ástandið er síst betra í Þýskalandi en þar var þurrasta vor í yfir 100 ár. Í júlí rigndi 40 prósent minna en í venjulegu ári. Í stórum hluta Evrópu hafa ekki verið viðlíka þurrkar undanfarin þrjú ár á um 250 ára tímabili. Sérfræðingar segja að bæði í Frakklandi og Þýskalandi sé fólk nú að upplifa versta þurrkatímabil síðan árið 1766.

 

Takmarka vatnsnotkun

Í bæði Þýskalandi og Frakklandi voru á tímabili settar á takmarkanir á vatnsnotkun en í Frakklandi átti þetta við um 78 af 95 fylkjum landsins. Á sama tíma gáfu stjórnvöld tilslakanir á umhverfislögum til að hjálpa 450 þúsund bændum sem urðu fyrir áhrifum vegna þurrkana.

Í Þýskalandi eru nú í gildi strangar reglur um hvenær fólk geti vökvað garða sína og á Sachsen-svæðinu deyr eldisfiskur vegna súrefnisskorts því vatn hverfur smám saman úr uppeldisstöðvunum. Í kringum 250 eldisfyrirtæki eru í miklum vanda stödd á svæðinu en vatnið lækkar um tvo sentímetra á dag. Á þessu svæði hefur eldisiðnaður verið stundaður frá miðöldum en nú óttast menn að þessi grein muni þurrkast út.

                                                                                   

Skuggalegar hliðar loftslagsbreytinga

Þar að auki hefur þetta viðvarandi þurrkatímabil komið hart niður á korn- og vínuppskeru og þar af leiðandi bændum sem stunda slíka ræktun. Fréttamiðillinn Farmers Weekly áætlar að kornframleiðsla í Evrópu á þessu ári verði 13 prósentum minni en í venjulegu árferði. Vegna nægilegrar uppskeru í Rússlandi, Kanada og Ástralíu verður ekki skortur á korni í heiminum.

Sérfræðingar óttast að þurrkar síðustu ára sé einungis viðvörun. Útreikningar úr umhverfisverkefni franska umhverfisráðuneytisins sýna að miklar breytingar séu í vændum. Næstu 50 ár er áætlað að hitastig muni hækka á bilinu 1,4 til 3 gráður. Á sama tíma er reiknað með að úrkoma minnki um 16 til 23 prósent. Vatnsrennsli í árfarvegum mun lækka um 10 til 40 prósent.

 

Methiti í Dauðadalnum í Kaliforníu

Nýlega mældist 54,4 stiga hiti í Dauðadalnum (Death Valley) í Kaliforníu í Bandaríkjunum en þetta er með hæstu mælingum sem mælst hafa á jörðinni. Mældist hitinn í þjóðgarðinum Furnace Creek á svæðinu. Ef mælingin er rétt er þetta hæsta hitastig sem mælst hefur á jörðinni síðan 1913 og hæsta hitastig nokkurn tíma í ágúst. Fyrri mæling átti sér stað í Dauðadalnum árið 1913 en þá mældist þar 56,7 gráðu hiti en óvissa er um áreiðanleika mælingarinnar fyrir 107 árum síðan.

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...