Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Íslenska mjólkurkýrin.
Íslenska mjólkurkýrin.
Mynd / smh
Fréttir 9. janúar 2025

Kostir og gallar við erlent kúakyn

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Á mánudaginn var haldinn fjarfundur um kosti og galla þess að flytja inn erlent kúakyn til mjólkurframleiðslu á Íslandi, en skoðanir eru mjög skiptar meðal bænda og fagfólks um þennan möguleika nú sem endranær.

Egill Gautason.

Ástæða þess að boðað var til fundarins er skýrsla sem Landbúnaðarháskóli Íslands gaf út í desember. Hún leiddi í ljós að möguleikar séu að auka mjög framlegð í mjólkurframleiðslu hér með því að flytja inn eitt af þeim fjórum norrænu kúakynjum, sem borin voru saman við það íslenska í skýrslunni. Með því að innleiða nýtt kúakyn með slíkum hætti, mætti auka framlegð greinarinnar um tvo til rúmlega þrjá milljarða króna.

Kosti íslenska kúakynsins þarf að meta til fjár

Karólína Elísabetardóttir, bóndi í Hvammshlíð, stóð að skipulagningu fundarins og flutti erindi ásamt þeim dr. Ólafi Dýrmundssyni búvísindamanni, Agli Gautasyni, erfðafræðingi og lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, Holger Toms, stórgripalækni frá Þýskalandi og bændunum Aðalbjörgu Rún Ásgeirsdóttur, Stóru-Mörk, Jóni Elvari Hjörleifssyni, Hrafnagili, Laufeyju Bjarnadóttur og Þresti Aðalbjarnarsyni, Stakkhamri 2.

Egill segir þessar hugmyndir auðvitað ekki nýjar og komi reglulega upp. „Deilurnar eru nokkuð harðar, eðlilega, enda er mikið í húfi. Það má segja að kjarninn snúist um þetta, að ákveðinn hópur kúabænda vill auka hagkvæmnina í sínum rekstri. Svo er það hitt sjónarmiðið sem snýst um verndina á íslenska kúakyninu, að það séu ákveðin verðmæti í sjálfu sér. Þau eru studd með þeim rökum að núverandi fyrirkomulag sé mjög heppilegt, svo lengi sem afkoman sé ásættanleg. Á meðan ekki er leyfilegt að flytja inn nýtt kúakyn þá vinni allir kúabændur í raun saman að því að vernda það íslenska, sem svo aftur eykur möguleika í ræktunarstarfinu og þannig að ná meiri erfðaframförum.

Svo leynast kostir í íslenska kúakyninu sem ekki hafa verið nýttir. Til dæmis mætti nefna að hið einstaka íslenska kúakyn hefur aldrei verið notað beinlínis til markaðssetningar fyrir mjólkurafurðirnar. Svo er íslenska kúamjólkin með þá sérstöðu að próteinsamsetning í henni er með þeim hætti að hún er hagstæð til vinnslu og sérstaklega ostagerðar, en sum kúakyn hafa óhagstæðari eiginleika en önnur.

Þetta þarf allt að meta til fjár,“ segir Egill og fer ekki leynt með að hann sjálfur hallist að því að farið verði mjög varlega með allar hugmyndir í þá átt að taka inn nýtt kúakyn á Íslandi.

Mögulegt að rækta tvö kyn samhliða

Egill segir að það mætti hugsa sér að íslenska kúakynið væri ræktað samhliða innleiðingu á öðru, en huga þyrfti vel að ýmsum atriðum eins og sjúkdómahættu þar sem íslenska kynið hefði lengi verið vel einangrað. Hann játar því að miðað við gefnar forsendur myndu kúabændur þó líklega horfa til hins fjárhagslega hagkvæma nýja kyns til mjólkurframleiðslu.

„En þó veltur þetta á nokkrum þáttum. Sú hagkvæmni, sem skýrslan leiðir í ljós af innleiðingu nýrra kynja, byggir á ákveðnum forsendum sem skýrsluhöfundar gefa sér. Ég ætla svo sem ekkert að efast um aðferðafræðina eða þessar forsendur en það á eftir að koma í ljós hversu mikill munurinn er í raun og veru í samanburðinum við íslenska kúakynið. Það er til dæmis óvissuþáttur hver sjúkdómatíðni í innfluttu kyni yrði og eins með nytina. Þannig að það á eftir að koma í ljós hversu mikið hagkvæmari staðan yrði.

Svo mætti hugsa sér fyrirkomulag hér á Íslandi líkt því sem þekkist á Norðurlöndunum varðandi gripagreiðslur, einhverja varðveisluþóknun sem mætti útfæra í búvörusamningum. Það gæfi þá þeim kúabændum kost á því að rækta íslenska kynið sem vilja án þess að tapa beinlínis á því í samanburðinum við innflutta kynið.

Það sem gæti gerst hins vegar, ef það drægi úr vægi íslenska kúakynsins í mjólkurframleiðslu landsins, er að samhliða myndi hægja á erfðaframförum í stofninum sem gæti svo aftur ýtt undir flótta yfir í innflutta kynið.“

Norræn rauð kýr. Mynd / Viking Genetics

Bændur bera talsverðan kostnað

„Skýrslan sýnir dálítið að bændur bera talsverðan kostnað af því að vera bundnir við íslenska kynið. Það ætti þá að vera hægt að taka eitthvert tillit til þess í búvörusamningum eða í umgjörð mjólkurframleiðslunnar. Það verður hins vegar að halda því á lofti að það hefur orðið talsverð breyting á kynbótastarfseminni á undanförnum misserum með upptöku erfðamengisúrvals. Það mun vonandi skila umtalsverðum erfðaframförum til kúabænda. Ég veit að það eru margir bændur sem telja ekki rétt að flytja núna inn kyn, þegar nýbúið er að fara í þá fjárfestingu og við eigum eftir að sjá hversu miklu hún skilar,“ heldur Egill áfram.

Egill vann í doktorsnámi sínu að rannsókn á erfðamengjaúrvali fyrir íslenska kúastofninn og hefur verið Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins til ráðgjafar um kynbótastarfið.

Hann segir að bændur muni ráða dálítið ferðinni í framhaldi þessara mála, þótt það sé stjórnvaldsákvörðun hvort heimila eigi slíkan innflutning.

Sjö verkefni um aukið virði sauðfjárafurða
Fréttir 13. febrúar 2025

Sjö verkefni um aukið virði sauðfjárafurða

Kennslutól fyrir skólabörn, vöruþróun ærkjöts og sauðaosta og markaðssetning á s...

Kjötafurðastöðvar aftur undir samkeppnislög
Fréttir 12. febrúar 2025

Kjötafurðastöðvar aftur undir samkeppnislög

Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar hefur verið kynnt fyrir vorþingið. Landbúnaðarmá...

Sýktur refur í Skagafirði
Fréttir 12. febrúar 2025

Sýktur refur í Skagafirði

Íbúi í Skagafirði varð var við veikan ref og reyndist dýrið með fuglaflensu.

Deilt um gjaldtöku vegna meðhöndlunar á dýrahræjum
Fréttir 11. febrúar 2025

Deilt um gjaldtöku vegna meðhöndlunar á dýrahræjum

Fyrir áramót bárust tvö mál inn á borð lögfræðinga Bændasamtaka Íslands þar sem ...

Tvöfaldur hagnaður kjötvinnslu í eigu KS
Fréttir 11. febrúar 2025

Tvöfaldur hagnaður kjötvinnslu í eigu KS

Kjötvinnslan Esja gæðafæði nær tvöfaldaði hagnað sinn milli áranna 2022 og 2023.

Framleiðsla og sala á hrossakjöti jókst mest
Fréttir 10. febrúar 2025

Framleiðsla og sala á hrossakjöti jókst mest

Mikil aukning var í framleiðslu og sölu á hrossakjöti og svínakjöti á síðasta ár...

Betri afkoma sauðfjárbúa
Fréttir 10. febrúar 2025

Betri afkoma sauðfjárbúa

Hagstofan greindi frá því á vef sínum fyrir skemmstu að afkoman í sauðfjárræktin...

Hver á Ísland?
Fréttir 7. febrúar 2025

Hver á Ísland?

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun stendur að átaksverkefni við að áætla eignarmörk ...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f