Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Íslensku jólatrén sækja enn í sig veðrið
Fréttir 14. desember 2023

Íslensku jólatrén sækja enn í sig veðrið

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Þau íslensku jólatré sem höggvin verða til að skreyta híbýli og umhverfi landsmanna fyrir þessi jól verða væntanlega um 8 þúsund talsins. Sé miðað við árið í fyrra eru innflutt jólatré með um 57% markaðshlutdeild lifandi trjáa.

Alls voru rúm 18.600 lifandi jólatré keypt fyrir síðustu jól.

Fjöldi íslensku jólatrjánna hefur risið heldur upp á við hin síðari ár, um tæplega 400 tré á árabilinu 2016 til 2022, skv. tölum frá Skógræktarfélagi Íslands.

Á sama tíma hefur sala á innfluttum dönskum normannsþin dregist allmikið saman, úr rúmum 28 þúsund trjám 2016 í 10.600 tré í fyrra, eða um tæpan þriðjung. Innflutningur og sala á jólagreinum, einkum af eðalþini, hefur aukist.

Í fyrra voru seld íslensk jólatré alls 8.016 stykki. Tré frá skógarbændum voru 1.700, frá Skógræktinni 1.600 og skógræktarfélögum landsins tæplega 4.700 að tölu. Höggvin voru jólatré og greinar að verðmæti 94 m.kr. og er þá miðað við
söluverðmæti frá framleiðanda.

Sá varnagli er sleginn að inn í þessar tölur vantar þau jólatré sem koma úr einstaka heimasölu skógarbænda og þau sem fólk heggur sjálft á einkalóðum og -landi.

Minnkandi innflutningur

„Á tímabili voru einhverjir tugir þúsunda jólatrjáa fluttir inn til landsins en það hefur þó breyst, m.a. með aukinni hlutdeild gervitrjáa,“ segir Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri Þjóðskóga hjá Skógræktinni. Stóru fyrirtækin kaupi normannsþin úti og selji hér við fremur lágu verði og erfitt sé fyrir íslensku trén að keppa við það.

„Aðaljólatréð er stafafura, vegna barrheldni og kannski líka vegna verðs og aðgengileika,“ segir Hreinn og heldur áfram: „Rauðgrenið er þekkt fyrir að fella barrið nokkuð fljótt og fjallaþinurinn er dýr. Blágrenið var dálítið notað en það voru vandræði með vaxtarlag og svo vorum við að fá svepp í barrið seint á haustin.

Íslenski fjallaþinurinn er líklega flottasta jólatréð en lítið er höggvið af honum, aðallega vegna þess hversu lítið kemur af slíkum trjám úr reitunum.“

Hreinn tekur sem dæmi að sé plantað tíu þúsund plöntum á ha komi úr því eitt þúsund jólatré.

Íslensku jólatrén eru sums staðar tekin úr sérstökum uppeldissvæðum en annars staðar úr skógræktarreitum og hentar það ágætlega sem fyrsta grisjun. Ræktendur höggva þannig víða tré úr uppvaxandi ungskógum og færa á markað.

Greinar væru góð aukabúgrein

Plantað er á móti öllum höggnum íslenskum jólatrjám og ríflega það, því að á milli sex og sjö milljónir trjáplantna eru gróðursettar árlega en þó aðeins brotabrot af því í jólatrjáareiti. Kolefnisspor innlendu jólatrjánna er þannig hverfandi miðað við hin innfluttu, sem og plastjólatrjáa.

„Það sem vantar, og væri hægt að útvega miklu meira af, eru jólagreinar,“ segir Hreinn. „Við höfum aðeins verið að reyna að koma markaðnum í gang með að kaupa íslenskar greinar, og það gekk þokkalega í nokkur ár, en svo hefur áhuginn eitthvað dofnað aftur hjá kaupendum. Í það minnsta er hægt að útvega greinar af þin sem líkjast þessum innfluttu, sem og af blágreni og stafafuru. Stóri sigurinn væri ef við gætum farið að taka einhvern hluta af innflutningi á greinum. Það væri fín aukabúgrein fyrir bændur, sem dæmi,“ segir Hreinn.

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...