Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Framleiðslan á sængunum á sér stað í gamla leikskólanum sem ber núna heitið Dúntún. Verin koma forsaumuð erlendis frá og er blásið í hólfin með þar til gerðum vélum.
Framleiðslan á sængunum á sér stað í gamla leikskólanum sem ber núna heitið Dúntún. Verin koma forsaumuð erlendis frá og er blásið í hólfin með þar til gerðum vélum.
Mynd / Íslenskur dúnn ehf.
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þær eru framleiddar á Borgarfirði eystra úr æðardún sem fenginn er milliliðalaust frá æðarbændum.

Caption

Ragna Óskarsdóttir, eigandi Íslensks dúns ehf., segir langa hefð fyrir því að íslenskir æðarbændur saumi sængur, en það sé nýlunda að þær séu framleiddar hérlendis fyrir alþjóðlegan markað. Með því að fullvinna vöruna hér sé virðisaukanum skilað innanlands og þær miklu sveiflur sem verði á hrádúni jafnist frekar út.

„Við erum að framleiða bestu sængur í heimi og það er gaman að selja þær. Ég eignast pennavini úti um allan heim og iðulega fæ ég skilaboð frá kaupendum eftir sölu um hversu ánægt það sé með vöruna,“ segir Ragna. Hvert einasta skref framleiðslunnar sé heillandi, alveg frá umhyggju bóndans við fuglinn á varptíma, dúntekjunni sjálfri, framleiðslunni og að lokum samskiptunum við kaupendurna.

Sængur til Svalbarða og Nígeríu

Öll salan fer í gegnum vefverslunina á icelandicdown.com. Þar má sjá að ódýrustu fullorðinssængurnar kosta tæpa hálfa milljón með minnstu fyllingunni, á meðan þær stærstu og þykkustu kosta á aðra milljón. Ragna segir flest verin vera úr bómull, en eitthvað sé um að viðskiptavinir panti silkisængur. Árleg framleiðsla sé nálægt þrjú hundruð einingum, hvort sem um ræðir sængur eða kodda og er mest selt til Bandaríkjanna. Þó komi viðskiptavinirnir hvaðanæva að úr heiminum og segist Ragna meðal annars hafa sent sængur til Svalbarða og Nígeríu.

Ekki bóndi sjálf

Ragna kynnti sér íslenska dúnframleiðslu þegar hún lagði stund á MBA-nám. Sjálf kveikjan að stofnun fyrirtækisins Íslensks dúns ehf. var hins vegar heimsókn Rögnu til Ólafs Aðalsteinssonar og Jóhönnu Óladóttur, æðarbænda í Loðmundarfirði, nokkrum árum síðar. Þar gengu þau með henni um varpið og sýndu hvað þau væru að gera. Þá sögðu þau Rögnu frá því að Íslendingar hafi meira og minna flutt allan æðardún út sem hrávöru. Það sé merkilegt í ljósi þess að megnið af öllum æðardún í heiminum verði til á Íslandi og spurði hún sig hvort ekki væri rétt að fullvinna afurðina hérlendis.

Ragna er úr Reykjavík og segist ekki hafa verið með bein tengsl við Borgarfjörð eystri, heldur hafi hún fallið fyrir firðinum og í framhaldi af því hafi hugmyndin um dúnsængurnar komið. Hún, ásamt fjölskyldu sinni og áðurnefndum æðarbændum í Loðmundarfirði, stofnaði Íslenskan dún ehf. árið 2019 og er nú búsett á Borgarfirði eystri þar sem hún er með alla sína starfsemi. Hún segist hafa komið víða við en hennar bakgrunnur sé úr viðskiptum. Hún er ekki æðarbóndi sjálf, heldur kaupir Ragna allan dún sem notaður er í framleiðsluna.

„Það skemmtilegasta sem ég geri er samt að fá að hjálpa til í varpinu,“ tekur hún fram. Til að byrja með hafi allur æðardúnninn komið úr Loðmundarfirði, en núna skipti hún við um það bil átta til tíu æðarbændur sem eru flestir af Austurlandi.

Ferill dúnsins

Ferlið á framleiðslunni byrjar samkvæmt Rögnu þannig að bændurnir tína dúninn og þurrka. Eftir grófhreinsun heima á bæjum sé hann sendur á hreinsunarstöðvar þar sem dúnninn er hitaður og síðan vélhreinsaður. Þá sé hann fjaðratíndur í höndum og að lokum þveginn og þurrkaður áður en starfsfólk Íslensks dúns tekur við honum. „Dúnninn og verin koma hingað og hér verða sængurnar til,“ segir Ragna. Verin komi forsaumuð erlendis frá þar sem ekki séu til vélar sem geti útbúið þau á Íslandi. Starfsfólk blási dúninum í hólf í verunum með þar til gerðum vélum og eru fjögur og hálft starfsgildi hjá fyrirtækinu.

Leikskólinn varð Dúntún

Heimilisfang Íslensks dúns ehf. er Dúntún á Borgarfirði eystri. Aðspurð út í tilkomu þess nafns segir Ragna engin götuheiti og húsnúmer vera í bænum, heldur beri öll hús ákveðið heiti. Húsið hýsti áður leikskóla þorpsins og hét einfaldlega Leikskólinn.

„Það var alveg vonlaust að halda því nafni áfram. Þá fékk góður maður í bænum þá hugmynd að húsið ætti að heita Dúntún,“ segir Ragna. Auðsótt mál hafi verið að gefa húsinu nýtt nafn. 

Skylt efni: æðardúnn

Aspir og wasabi ræktuð samhliða
Fréttir 24. maí 2024

Aspir og wasabi ræktuð samhliða

Nordic Wasabi er um þessar mundir að setja á innanlandsmarkað frostþurrkað wasab...

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“
Fréttir 24. maí 2024

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“

Jóhannes Geir Gunnarsson, bóndi á Efri-Fitjum í Vestur-Húnavatnssýslu, er bjarts...

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu
Fréttir 24. maí 2024

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu

Í samstarfsverkefni Matís og Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) er unnið að því a...

Samdráttur samfélags
Fréttir 23. maí 2024

Samdráttur samfélags

Póstþjónusta landsmanna hefur verið hitamál svo lengi sem menn muna og ekki síst...

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal
Fréttir 22. maí 2024

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal

Út er komin skýrslan Bætt orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar. Hún hefur að...

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu
Fréttir 22. maí 2024

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu

Ábúendurnir í Hafrafellstungu í Öxarfirði fengu nafnbótina Bændur ársins 2023 í ...

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur
Fréttir 22. maí 2024

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur

Herdís Magna Gunnarsdóttir, nautgripabóndi á Egilsstöðum og stjórnarmaður í Bænd...

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva
Fréttir 22. maí 2024

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva

Starfsemi Kornræktarfélags Suðurlands var endurvakin á fundi kornbænda í Gunnars...