Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Kristján Ólafsson, framkvæmdastjóri Moltu, segir að Jarðgerðastöðin sé í raun ekki bara lausn þegar kemur að förgun úrgangs heldur og ekki síður stórt framlag til loftslagsmála. Hér er hann að handleika moltu á plani fyrirtækisins.
Kristján Ólafsson, framkvæmdastjóri Moltu, segir að Jarðgerðastöðin sé í raun ekki bara lausn þegar kemur að förgun úrgangs heldur og ekki síður stórt framlag til loftslagsmála. Hér er hann að handleika moltu á plani fyrirtækisins.
Fréttir 7. maí 2019

Hefur tekið við nær 63 þúsund tonnum af lífrænum úrgangi á áratug

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

Jarðgerðarstöðin Molta ehf. tók á móti ríflega 7 þúsund tonnum af lífrænum úrgangi á liðnu ári og barst hann frá öllum sveitarfélögum við Eyjafjörð, Þingeyjarsveit, Skagafirði og Fljótsdalshéraði. Öllu þessu magni var í verksmiðju Moltu við Þveráreyrar í Eyjafjarðarsveit breytt í dýrmæta afurð sem nýtt er til landgræðslu, uppgræðslu, í garðyrkju, sem áburður í landbúnaði og skógrækt og fleira.

Nú síðar á þessu ári eru liðin 10 ár frá því starfsemi Moltu fór í gang og á þeim tíma hefur verið tekið á móti tæplega 62.700 tonnum af úrgangi, sláturúrgangi, heimilis- og fyrirtækjaúrgangi sem og stoðefnum, einkum timbri og pappír.

Stórt framlag til loftslagsmála

Kristján Ólafsson, framkvæmda­stjóri Moltu, segir að Jarð­gerðarstöðin sé í raun ekki bara lausn þegar kemur að förgun úrgangs heldur og ekki síður stórt framlag til loftslagsmála. „Frá því að Molta hóf störf fyrir 10 árum hefur framleiðslan komið í veg fyrir losun sem nemur 100 þúsund tonnum af koltvísýringi.

Þetta magn samsvarar allri losun fólksbíla í Eyjafirði í tvö ár. Það er vissulega ánægjulegur áfangi sem við getum glaðst yfir. Starfsemi Moltu dregur þannig verulega úr losun en fær þó engan fjárhagslegan ávinning af því framlagi. Það er auðvitað svolítið sérstakt þegar hundruðum milljóna er varið í önnur loftslagsverkefni,“ segir Kristján.

Félagið Molta ehf. var stofnað í mars árið 2007, öll sveitarfélög í Eyjafirði tóku þátt í stofnun þess, sem eigendur félagsins Flokkunar ehf., auk stærstu matvælaframleiðenda á Eyjafjarðarsvæðinu. Nú er eignarhald félagsins þannig að Byggðastofnun á 30%, sveitarfélögin 53% og einkaaðilar eiga 17%. Framkvæmdir við byggingu Jarðgerðarstöðvarinnar hófust í ágúst 2008 og tilrauna­vinnslan hófst í júní árið á eftir, en formleg opnun verksmiðjunnar var í ágúst 2009.

Vélbúnaður Moltu er frá finnska framleiðandanum Preseco Oy og samanstendur af sex stórum tromlum með tilheyrandi móttökubúnaði, færiböndum og sniglum. Jarðgerðarstöð Moltu er sú stærsta í Evrópu sem nýtir tromluaðferðina við jarðgerð. Hver tromla tekur að jafnaði á bilinu 50 til 70 tonn af efni þannig að hverju sinni er framleiðsla upp á 4–500 tonn í gangi. Jarðgerðarblandan hitnar upp í að minnsta kosti 70 gráður í tromlunum, þannig að moltan telst hrein af óæskilegum sýklum og gerlum þegar vinnsluferli lýkur.

Ferlið tekur hálft ár

Hráefnið til vinnslunnar berst að sögn Kristjáns frá kjötvinnslum, sláturhúsum og eitthvað kemur frá fiskvinnslum, auk þess sem lífrænn úrgangur kemur frá heimilum af stóru svæði, öllum Eyjafirði, Skagafirði, Þingeyjarsveit og Fljótsdalshéraði.  Allur úrgangurinn fer í gegnum hakkavél og er stoðefni, timburkurl úr úrgangstimbri og pappír úr grenndargámum á Akureyri blandað saman við. Blandan er höfð í jarðgerðartromlunum í 5 til 10 daga þar sem niðurbrot á sér stað. Að því loknu er efninu mokað í galta og heldur verkunin áfram þar á stóru plani utan við verksmiðjuna í allt að 6 mánuði en þá telst moltan tilbúin til notkunar.

Moltan hefur reynst mjög vel

Kristján segir að æ fleiri hafi gert sér grein fyrir gæðum moltunnar og hefur hún verið nýtt með ýmsum hætti hin síðari ár.

Það má nýta moltu á landi sem verið er að vinna til túnræktar, kornræktar eða til ræktunar einærra fóðurjurta, en hún nýtist að auki líka vel til dreifingar á gróðurlendi og til uppgræðslu eða skógræktar á lokuðum svæðum,“ segir hann og nefnir m.a. tilraun sem er í gangi á Hólasandi á vegum Skógræktarinnar og Landgræðslunnar þar sem bakkaplöntum hefur verið plantað úr í ákaflega rýran jarðveg. Annað dæmi er frá Melgerðismelum í Eyjafirði þar sem moltu var dreift yfir svæði árið 2012 og skáru þau svæði sem moltan var borin á sig úr öðrum. „Moltan kemur víða að góðum notum, það er hægt að fullyrða að hún er góður jarðvegsbætir og getur nýst sem áburður. Þegar haft er í huga að hráefnið í moltuna er úrgangur sem fyrir örfáum árum var allur urðaður má segja að umhverfisvænni vöru er erfitt að finna, úrganginum er hér skilað beint til upprunans, þ.e. til móður jarðar,“ segir hann.

Kristján bendir á að ríkið hafi nú ákveðið að stórauka bæði skógrækt og landgræðslu sem framlag þess til loftslagsmála. 

„Það hlýtur að vera keppikefli slíkra verkefna að nota sem minnst af innfluttum tilbúnum áburði sem hefur bæði neikvæð loftslagsáhrif og kostar dýrmætan gjaldeyri. Við eigum því von á stórauknu samstarfi við meðal annars Skógræktina og Landgræðsluna á næstu árum,“ segir hann.

Reyna að fá fyrirtækin til að flokka meira

Heimilin á því svæði sem flokka lífrænan úrgang og skila til Moltu standa sig vel í söfnuninni að sögn Kristjáns, en fyrirtækin gætu gert betur að hans mati.

„Við sjáum að þar eru tækifæri fyrir okkur að fá inn meira magn, mér sýnist að t.d. víða hjá stórum fyrirtækjum, hótelum, veitingastöðum og verslunum sé ekki flokkað nægilega vel, of mikið af matarafgöngum er sent um langan veg til urðunar. Það er miður og við þurfum með einhverjum hætti að vekja menn sem þar stjórna til vitundar. Verið er að skoða leiðir til að fá þessa aðila til að flokka og skila lífrænum úrgangi og hefur verið í umræðu að setja upp eins konar hvata, að þau fyrirtæki sem standi vel að flokkun og skili frá sér lífrænum úrgangi fái grænan stimpil eða eitthvað slíkt, en það á eftir að útfæra nánar,“ segir Kristján.

Verksmiðjan ekki fullnýtt enn

Afkastageta Moltu er um 10 til 12 þúsund tonn svo enn er hún ekki að fullu nýtt. Fari fyrirtækin að skila lífrænum úrgangi í auknum mæli gæti orðið breyting á en Kristján bendir einnig á að sláturhús í Eyjafirði, Þingeyjarsýslu og fyrir austan skili sínum úrgangi til vinnslu hjá Moltu. Það geri hins vegar sláturhúsin í Skagafirði og Húnavatnssýslu ekki. Ódýrara er fyrir þau að senda úrgang til urðunar á urðunarsvæðið við Stekkjarvík skammt frá Blönduósi.

„Það er auðvitað svolítið skrýtið að vera í samkeppni við urðun, en svona hefur staðan verið. Það gæti orðið breyting á því síðar á þessu ári munu stjórnvöld setja urðunarskatt á alla urðun og ef til vill verður þá hagkvæmara að senda sláturúrgang í endurvinnslu fremur en að urða hann. Það hefur líka lengi verið talað um að banna eigi alla urðun á lífrænum úrgangi, en slíkt yrði til mikilla bóta þegar horft er til umhverfisþátta og mun án vafa vera svo í framtíðinni,“ segir Kristján.

Vörður staðinn um lífríki Látrabjargs
Fréttir 1. nóvember 2024

Vörður staðinn um lífríki Látrabjargs

Staðfest hefur verið stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Látrabjarg. Markmið henn...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 1. nóvember 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Verður forstjóri til áramóta
Fréttir 31. október 2024

Verður forstjóri til áramóta

Auður H. Ingólfsdóttir, sem gegnt hefur starfi sviðsstjóra loftslagsmála og hrin...

Samvinna ungra bænda
Fréttir 31. október 2024

Samvinna ungra bænda

Stjórnir ungbændahreyfinga á öllum Norðurlöndunum eiga í stöðugum samskiptum til...

Vilja reisa mannvirki
Fréttir 30. október 2024

Vilja reisa mannvirki

Linde Gas ehf. hefur óskað eftir deiliskipulagsbreytingu á lóð sinni á Hæðarenda...

Vegurinn áfram mun ráðast af nýliðun og nýsköpun
Fréttir 30. október 2024

Vegurinn áfram mun ráðast af nýliðun og nýsköpun

Nýliðun, afkomutrygging, nýsköpun, fæðuöryggi og umhverfismál voru efst á baugi ...

Leitað að verndandi arfgerð
Fréttir 30. október 2024

Leitað að verndandi arfgerð

Sýni úr 225 geitum hafa verið raðgreind en enn ekki fundist arfgerð með mótstöðu...

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...