Hækkun á afurðaverði til kúabænda og heildsöluverði mjólkur
Hækkun varð nýlega á afurðaverði til kúabænda og heildsöluverði mjólkur og mjólkurafurða.
Verðlagsnefnd búvara tekur ákvörðun um slíkar hækkanir og hefur gefið út að lágmarks afurðaverð fyrir fyrsta flokks mjólk til kúabænda hækki um 1,90 prósent, úr 136,93 krónum á lítrann í 139,53 krónur á lítrann. Heildsöluverð mjólkur og mjólkurvara, sem nefndin verðleggur, hækkar um 1,96 prósent.
Kostnaðarhækkanir við framleiðslu mjólkur
Í rökstuðningi fyrir afurðaverðshækkununum kemur fram að þær séu til komnar vegna kostnaðarhækkana við framleiðslu mjólkur frá síðustu verðákvörðun sem byggði á verðlagi í desember 2024.
Til grundvallar ákvarðana um verðbreytingar liggur verðlagsgrunnur kúabús, sem á að endurspegla rekstur kúabús af hagkvæmri stærð. Í honum vegur hækkun launavísitölu mest en um þrír fjórðu hlutar hækkunar hans er til komin vegna launakostnaðar og annarra kostnaðarliða sem þróast í takti við launavísitölu. Verðhækkanir á fóðri og afskriftir hafa einnig talsverð áhrif en aðrir liðir vega minna. Þá hefur fjármagnskostnaður og áburðarkostnaður lækkað á tímabilinu sem hefur áhrif til lækkunar á móti.
Launakostnaður vegur þyngst
Hækkun á heildsöluverði mjólkur og mjólkurvara er sem nemur kostnaðarhækkun vegna hráefniskaupa og hækkun vinnsluog dreifingarkostnaðar. Vinnslu- og dreifingarkostnaður afurðastöðva hækkar um 2,03 prósent en helsti kostnaðarliðurinn – og sá sem vegur þyngst í ákvörðun um hækkun, er hækkun launakostnaðar um 3,1 prósent á tímabilinu en sú hækkun vegur um 53 prósent af heildarhækkuninni í verðmætum talið.
Mjólkursamsalan tilkynnti um það 12. maí að nýr verðlisti hafi tekið gildi í framhaldi af ákvörðun verðlagsnefndar búvara.
Ársverðbólga mældist samkvæmt Hagstofu Íslands 4,2 prósent í apríl 2025. Innan þessa tímabils, frá apríl 2024 til nóvember 2024, urðu engar breytingar á heildsöluverði mjólkurvara til neytenda og verðlag mjólkurvara var stöðugt.