Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
„Rétt að skoða hvort hægt sé að breyta einhverju þarna, reglunum eða framkvæmd þeirra
Mynd / HKr.
Fréttaskýring 5. september 2017

„Rétt að skoða hvort hægt sé að breyta einhverju þarna, reglunum eða framkvæmd þeirra

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra segist deila undrun manna yfir að á reikningum fyrir orkunotkun heimila sé sagt að raforkan sé að hluta framleidd með kolum, olíu, gasi og kjarnorku. 
 
„Þetta er ankannalegt og veldur ruglingi í loftslagsumræðunni. Þetta regluverk er hluti af EES-samningnum og ekki á forræði míns ráðuneytis. Ég hef rætt þetta við minn kollega sem ber ábyrgð á þessum lögum og mér finnst rétt að skoða hvort hægt sé að breyta einhverju þarna, reglunum eða framkvæmd þeirra,“ segir ráðherra í svari við fyrirspurn Bændablaðsins.
 
Í umfjöllun Bændablaðsins 6. júlí 2017 er greint frá sölu hreinleikavottorða íslenskra orkufyrirtækja úr landi og í staðinn taka þau á sig kolefnisfótspor og hlutdeild í geislavirkum úrgangi vegna framleiðslu á raforku með kjarnorku. Vegna þessa óskaði Bændablaðið eftir svörum frá Björt Ólafsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra við eftirfarandi spurningum:
 
Telur umhverfisráðherra ásættanlegt að Ísland kaupi til sín kolefnisfótspor, um 290 þúsund tonn af koldíoxíði (460 og geislavirka mengun um 154 kg (0,72 mg/kWh) á síðasta ári, sem nemur samtals 59% af raforkuframleiðslu Íslendinga 2016, í skiptum fyrir vottorð á hreinni orku sem hér er framleidd?
 
Nú hefur ráðherra rætt hugmyndir um að moka ofan í framræsluskurði, auka skógrækt og draga úr útblæstri frá bílum og stóriðju. Hefur ráðherra skipt um skoðun og hafa íslensk stjórnvöld lagt á hilluna öll áform um að draga úr kolefnisfótspori Íslands í alþjóðlegu samhengi eins og ætla má af innkaupum á ímyndaðri kolefnis- og geislavirkri mengun?
 
Ef ráðherra og ríkisstjórn hefur hefur ekki skipt um skoðun varðandi það að draga úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, mun ráðherra þá beita sér fyrir því að Ísland hætti sölu á hreinleikavottorðum á raforku úr landi?
 
Mun ráðherra beita sér fyrir að innleiðing tilskipunar Evrópusambandsins, sem innleidd var á Íslandi með lögum nr. 30/2008, sem samþykkt voru 7. apríl 2008 og heimilar sölu á hreinleikavottorðum fyrir raforku verði numin úr gildi?
 
Svar ráðherra
 
Svar barst frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu 10. ágúst, en þar segir orðrétt:
 „Í þessum spurningum er vísað til viðskipta með sk. upprunaábyrgðir á grundvelli reglna ESB í orkumálum, sem er ætlað að efla samkeppnisstöðu endurnýjanlegrar orku. Þar geta menn keypt sér vottorð um að hafa greitt sérstaklega fyrir endurnýjanlega orku úr rafmagnsdreifikerfinu, sem er að stórum hluta samtengt í Evrópu. Á Íslandi kemur þetta hins vegar mörgum spánskt fyrir sjónir, þar sem orka á Íslandi er nær 100% frá endurnýjanlegum orkugjöfum og dreifikerfi raforku ótengt því evrópska, þannig að í raun geta aðilar á meginlandinu ekki keypt raforku framleidda á Íslandi og íslenskir neytendur hafa engan aðgang að rafmagni sem framleitt er með kolum eða kjarnorku. 
 
Almennt er því til að svara að þetta kerfi með upprunaábyrgðir, sem er á forræði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, er ótengt bókhaldi um losun gróðurhúsalofttegunda og hefur ekki áhrif á það eða skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum, sem eru á verksviði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Sala íslenskra orkufyrirtækja á upprunaábyrgðum þýðir ekki að Ísland fái bókfærða losun frá evrópskum kolaorkuverum. Þetta regluverk breytir því engu um skuldbindingar eða áform stjórnvalda í loftslagsmálum. Ísland skilar árlega losunarbókhaldi til Loftslagssamnings S.þ., sem er vandlega yfirfarið af sérfræðingum á vegum samningsins; þar breyta viðskipti með upprunaábyrgðir engu til eða frá. 
Mér sýnist að grunnhugsunin í þessu regluverki ESB sé góð; í Evrópu setja bæði vindmyllur og kolaver raforku inn á dreifikerfið og notendur eiga síðan þann kostr að kaupa tilkall til endurnýjanlega þáttarins og fá vottorð um slíkt – kaupandinn fær þá grænni ímynd, hreina orkan meiri tekjur og kerfið í heild er hvetjandi varðandi endurnýjanlega orku. Í okkar eyríki vekur útkoman hins vegar upp spurningar, eins þótt þetta hafi ekki áhrif á opinbera loftslagsbókhaldið. Það mætti kannski gleðjast yfir að orkufyrirtækin fái aukalegar tekjur frá Evrópu fyrir sína endurnýjanlegu orku, en það er afar skrítið fyrir íslenska neytendur að fá upplýsingar á rafmagnsreikningnum um að stofuljósin séu kolakynt og eldavélin kjarnorkuknúin. Ég deili undrun manna á slíku. Þetta er ankannalegt og veldur ruglingi í loftslagsumræðunni. Þetta regluverk er hluti af EES-samningnum og ekki á forræði míns ráðuneytisins. Ég hef rætt þetta við minn kollega sem ber ábyrgð á þessum lögum og mér finnst rétt að skoða hvort hægt er breyta einhverju þarna, reglunum eða framkvæmd þeirra. Mögulega er það flókið mál út frá EES-samningnum, en mér finnst engu að síður rétt að skoða það. En ég ítreka að þetta hefur engin áhrif á loftslagsbókhald eða skuldbindingar í loftslagsmálum. Við munum halda ótrauð áfram við gerð nýrrar aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum, hvort sem þessu regluverki verður breytt nú eða síðar,“ segir Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra. 
 
Þykir fáránlegt en ekkert gert til úrbóta nema að fela málið
 
Það vekur athygli að ekkert skuli hafa verið gert í málinu síðan Bændablaðið upplýsti fyrst um þennan skrípaleik í júní 2015. Þáverandi iðnaðar­ráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, lofaði að skoða málið haustið 2015, en ekkert gerðist. Núverandi ráðherra umhverfis- og iðnaðarmála segir að þetta heyri ekki undir hennar ráðuneyti, en rétt sé þó að skoða málið. Það eina sem orkufyrirtækin hafa gert er að gefa það út að þessi skilgreining á uppruna orku sem miðast við sölu á hreinleikavottorðum verði strikuð út af orkureikningum almennings á næsta ári. Almenningur mun því ekki sjá þetta á sínum reikningum, en sölu á syndaaflausnum fyrir losun gróðurhúsalofttegunda verður eigi að síður haldið áfram til erlendra fyrirtækja. 
 
Íslendingar selja blekkingarvottorð um uppruna orku í útlöndum 
 
Það vekur líka athygli að ráðherra segir nú að sala íslenskra orku­fyrirtækja á upprunaábyrgðum þýði ekki að Ísland fái bókfærða losun frá evrópskum kolaorkuverum. Þetta regluverk breyti því engu um skuldbindingar eða áform stjórnvalda í loftslagsmálum. Þar með er ekki annað að sjá en að ráðherra staðfesti að um hreinan skrípaleik sé að ræða til að gera erlendum fyrirtækjum kleift að blekkja sína viðskiptavini um uppruna og hreinleika á þeirri orku sem þau nota. 
 
Danmörk hefur oft verið nefnd sem fyrirmyndarríki um hvernig skipta eigi úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orku. þar hefur orðið gríðarleg uppbygging í vindrafstöðvum. Var sett met í þeim efnum 2015, en þá náðu Danir því að vera með 42% af sinni raforkuframleiðslu frá vindrafstöðvum. Stefnt er á að Danir verði óháðir jarðefnaeldsneyti til orkuframleiðslu árið 2050 en þar er samt ekki allt eins og sýnist. 
 
Danir flytja inn um 12% af sinni raforku um rafstrengi frá öðrum löndum. Ef um 42% kemur frá vindorkuverum, þá er mismunurinn, nærri helmingur raforkuþarfarinnar. Þá orku framleiða Danir með gasi, olíu og kolum. Eigi að síður flagga dönsk fyrirtæki því mjög að vera með hreina orku. Það þykir styrkja ímynd fyrirtækjanna í harðri samkeppni á heimsmarkaði. Það geta þau gert m.a. með því að kaupa upprunavottorð um hreina orku. Fyrirtæki í Þýskalandi, Bandaríkjunum. Indlandi, Kína og víðar gera þetta líka í stórum stíl. Einkum þau sem nota raforku sem framleidd er ýmist með jarðefnaeldsneyti eða kjarnorku.  Heilu stofnununum er haldið úti sem vísa mönnum á hvar þeir geti keypt slík vottorð. Eru þessi viðskipti orðin umtalsverð og réttlætt með því að þau eigi að stuðla að frekari framleiðslu á hreinni orku. Hengd eru upp falleg innrömmuð vottorð sem eiga að sýna að orkan sem notuð er sé endurnýjanleg. Þetta er samt ekkert annað en blekking eins og berlega kemur fram í svörum ráðherra. 
 
Það hlýtur að vera umhugsunar­efni hvort réttlætanlegt sé að Íslendingar taki þátt í slíkum blekkingarleik – bara af því að fyrir slíkt fáist peningar. Í þessu ljósi er kannski ekkert skrítið að virðing almennings fyrir stjórnmálamönnum sé eins lítil og raun ber vitni. Ef stjórnmálamenn telja réttlætanlegt að ljúga á þeim forsendum einum að fyrir það fáist peningar, þá er eitthvað mikið að. Vonandi fellur núverandi umhverfis- og auðlindaráðherra ekki í þá gryfju, enda telur ráðherrann þetta afar skrítið og ankannalegt, eins og fram kemur í svörunum. 

8 myndir:

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...