Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Aðstaðan á Álftarhóli er sem hér sést. Tveir blóðtökubásar og gangar sem leiða inn í opið svæði þar sem merarnar ganga inn. Þórdís Ingunn Björnsdóttir stendur hjá meri sem er í blóðtöku. Heiðar Þór Sigurjónsson stendur hjá
meri sem hann er að slaka niður úr höfuðstillingu. Jón Kolbeinn Jónsson dýralæknir er til hægri.
Aðstaðan á Álftarhóli er sem hér sést. Tveir blóðtökubásar og gangar sem leiða inn í opið svæði þar sem merarnar ganga inn. Þórdís Ingunn Björnsdóttir stendur hjá meri sem er í blóðtöku. Heiðar Þór Sigurjónsson stendur hjá meri sem hann er að slaka niður úr höfuðstillingu. Jón Kolbeinn Jónsson dýralæknir er til hægri.
Mynd / ghp
Fréttaskýring 29. ágúst 2022

„Hryssurnar skipta okkur öllu máli“

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Þórdís Ingunn Björnsdóttir og Heiðar Þór Sigurjónsson stunda blóðbúskap að Álftarhóli í Austur- Landeyjum. Bændablaðið fékk að fylgjast með blóðtöku á meðan fjölskyldan ræddi hina ýmsu þætti sem snerta þessa umdeildu landbúnaðarstarfsemi.

Hafið er tímabil blóðtöku úr fylfullum hryssum hér á landi en þær fara alla jafna fram frá lokum júlímánaðar fram í október. Í fyrra varð starfsemi blóðmerabúskapar að stóru fjölmiðlamáli í kjölfar útgáfu myndbands á Youtube. Fjölmargir aðilar, mistengdir starfseminni, lögðu þar orð í belg og rataði umræðan m.a. inn á borð Alþingis í formi frumvarps um bann við blóðtökum. Matvælaráðherra skipaði starfshóp sem fór yfir regluverk, eftirlit og löggjöf starfseminnar og í framhaldi var gefin út reglugerð um blóðtökur úr fylfullum hryssum þann 5. ágúst sl. sem gildir í rúm þrjú ár.

Blóðmerarbúskapur er því áfram leyfður og stundaður hér á landi en í ofanálag hefur blásið köldu á milli hagsmunafélags blóðbænda og líftæknifyrirtækisins Ísteka, sem vinnur hormónið PMSG úr blóðinu og selur til lyfjaframleiðenda. Ísteka er eini kaupandi blóðs hér á landi og sú einokunarstaða setur bændur í veika samningsstöðu gagnvart fyrirtækinu þegar semja á um afurðaverð. Þar að auki hefur rekstrarumhverfi landbúnaðar versnað svo um munar á undanförnu ári með verðhækkunum á helstu aðföngum til búskapar.

Kemur því ekki á óvart að margir bændur, sem halda blóðmerar, hafi ákveðið að hætta starfsemi sinni eða minnkað verulega í stóðum sínum. Þó eru kringum 100 bændur enn starfandi og eru Þórdís Ingunn Björnsdóttir og Heiðar Þór Sigurjónsson á Álftarhóli meðal þeirra.

Þórdís og Heiðar hafa haldið 39 hryssur til blóðtöku og hafa stundað búskapinn í þrjú ár samhliða vinnu utan bús.

„Við sáum þetta sem auðvelda leið til að stunda einhvers konar búskap. Við höfum áhuga á hrossum og alltaf átt reiðhross. Við eigum land og vildum vera með einhvern búrekstur. Það er ekki gengið að því að stökkva út í kúabúskap eða sauðfjárbúskap, því þá hefðum við átt á hættu að lenda í miklum skuldum. Með því að halda blóðmerar getum við nýtt jörðina og um leið sinnt áhugamáli okkar og verið réttum megin við núllið í rekstri,“ segir Þórdís en auk þess eiga þau 30 kindur.

Lýsing á blóðtöku

Þórdís og Heiðar buðu Bændablaðinu að vera við blóðtöku um miðjan ágúst og mynda ferlið að vild. Með því vilja þau stuðla að opnu samtali um starfsemina og svipta hulunni af meintri leynd í kringum blóðmerarbúskap. Þau segjast ekki hafa neitt að fela.

Hér sést hvernig haus merar er bundinn upp til að dýralæknir hafi aðgengi að æðinni sem blóð er tekið úr.
Um leið og blóðtakan byrjar er merin losuð úr höfuðstillingunni og stendur því eðlilega meðan á blóðtöku stendur, eins og sést hér.

Í aðdraganda blóðtöku er búið að meta heilsufar meranna og tekið hefur verið sýni sem segir til um hvort þær framleiði PMSG, en það gera þær í allt að 80 daga meðgöngunnar. Við blóðtökuna voru viðstödd, auk Þórdísar og Heiðars, dýralæknirinn Jón Kolbeinn Jónsson, faðir Þórdísar, Björn Jón, og aðstoðarkona. Eftirlitsmaður frá Ísteka var einnig á staðnum um stund.

Blóðtökuaðstaðan er innanhúss hjá þeim. Í enda hússins er opið svæði þar sem merarnar koma inn í hollum. Þeim er svo beint einni af annarri inn tvo ganga þar sem blóðtökubásar eru staðsettir. Þegar inn í básinn er komið er tveimur járnstöngum rennt í gegnum básinn, fyrir framan og aftan merina til að aftra ferðum hennar. Strappi er settur yfir herðakamb hryssunnar til að koma í veg fyrir að hún stökkvi upp úr básnum og slasi sig ef eitthvað kemur upp á, en strappinn þjarmar ekki að henni.

Múll er settur á merina og haus hennar er svo bundinn upp til að dýralæknir hafi aðgengi að æðinni sem blóð er tekið úr. Dýralæknir staðdeyfir á stungustað, þræðir nál í æðina og svo lekur blóð úr æðinni í brúsann. Um leið og blóðtakan byrjar er merin losuð úr höfuðstillingunni og stendur því eðlilega meðan á blóðtöku stendur. Að lokinni blóðtöku er hryssunni hleypt úr básnum og fær hún þá aðgengi að beit, vatni og steinefnum. Ferlið tekur fáeinar mínútur.

Nálarnar sem notaðar eru í blóðtöku.

Taka má mest fimm lítra í einni blóðtöku og í mesta lagi átta sinnum á ári. Jón Kolbeinn bendir á að fæstar merar framleiði PMSG svo lengi að hægt sé að taka blóð átta sinnum, langflestar fari því sjaldnar í gegnum ferlið.

Velferð hryssnanna í fyrirrúmi

Þórdís og Heiðar kannast ekki við þær öfgakenndu lýsingar á blóðtöku eins og sagt er frá þeim í myndbandi þýsk-svissnesku dýraverndarsamtakanna TSB/AWF.

„Enginn græðir á því að vera með æsing eða læti í kringum hryssurnar, það þjónar engum tilgangi. Myndbandið endurspeglar ekki raunveruleika blóðbúskapar eins og ég þekkir starfsemina, enda er það klippt til og sett saman með ákveðinn tilgang í huga.“

Á Álftarhóli sýni merarnar engin merki þess að á þeim sé brotið, þær séu vanar að fara í gegnum það ferli sem hlutverki þeirra fylgir.

„Þær eru teknar úr mýrinni, settar í beitarhólf, fara í ferlið, aftur í beitarhólfið og svo í dagslok aftur út á mýri. Þær forðast okkur ekki og vappa í kringum okkur, bæði fyrir og eftir blóðtöku. Það eru ekki læti í réttinni, nema þær séu að berjast innbyrðis.“

Mestu skiptir að hafa geðslagsgóðar hryssur í starfseminni. „Þær eru allar með sinn einstaka karakter, sumar eru frekari eða stressaðri en aðrar. Ef þær eru mjög stressaðar og aðlagast ekki ferlinu vel þá einfaldlega henta þær ekki í stóðið.“

Í blóðtökunni sem blaðamaður varð vitni að voru tvær hryssur augljóslega stressaðri en aðrar.

„Þær eru báðar með sín fyrstu folöld. Önnur þeirra er stressuð týpa fyrir. Hún er það bæði í rekstri og í réttinni og við erum að reyna að átta okkur á því hvort hún passi í stóðið. Við gefum okkur nokkurn tíma með þeim til reynslu. Þær eru kannski ekki í blóðtökum þá, en fylgja hópnum og fara í gegnum aðstöðuna, fá múl og snertingu og við sjáum hvort þær aðlagist. Ef þær sýna ítrekað ótta, venjast ekki aðstæðum þá eru þær ekki notaðar. Þær eru þá heldur ekki efni í reiðhross, hvað þá keppnis- eða ræktunarhross.“

Utan blóðtökutímabilsins felst umönnun meranna í ormalyfjagjöfum og hófklippingum, þær læra að lyfta fótum og vera með múl og Þórdís segir að þannig temjist þær einnig til hlutverksins.

„Hryssurnar skipta okkur öllu máli og velferð þeirra er númer eitt, tvö og þrjú. Við myndum aldrei gera neitt sem stofnað gæti heilsu þeirra og lífi í hættu. Okkur finnst mikilvægt að vera með lítinn hóp, þannig höfum við góða yfirsýn og við þekkjum þær allar vel. Þannig ætti þessi búskapur að vera að mínu mati. Ef merunum líður ekki vel þá er enginn grundvöllur fyrir búskapnum og starfseminni.“

„Ef merunum líður ekki vel þá er enginn grundvöllur fyrir búskapnum og starfseminni,“ segir Þórdís.

Undarleg hegðun starfsmanna dýraverndarsamtaka

Þegar starfmenn þýsk-svissnesku dýraverndarsamtakanna TSB/AWF og þýsku sjónvarpsstöðvarinnar ARD voru stödd hér á landi í byrjun ágúst komu þau við á Álftarhóli. Heiðar var þá heima við.

„Við vorum farin að hafa auga með bíl sem keyrði hér fram hjá í sífellu í hægagangi daginn áður en blóðtaka hefst, hann stoppaði við landamörkin og þar gátum við séð fólk með stórar aðdráttarlinsur mynda. Við gerum ekkert í þessu fyrr en þau koma inn á landareignina, eru að dóla hér. Ég ætla þá að ná tali af þeim og keyri af stað til móts við þau í rólegheitum. En þegar ég nálgast þá bakka þau í snatri og þjóta í burtu.“

Faðir Þórdísar, Björn Jón, stundaði blóðtökur á árum áður og hefur séð framför og þróun starfseminnar gegnum tíðina. Hann hefði viljað eiga allar blóðtökur, sem hann hefur tekið þátt í, á myndbandi.

Björn, faðir Þórdísar, segir að daginn áður hafi hann verið á leið í kaupstað með dóttur sinni og sér tvo bíla í vegkanti við landareignina. „Ég ætlaði ekki að hafa nein afskipti af þeim en um leið og ég ætla að fara framhjá þeim þá keyrir annar jeppinn óvænt af stað fyrir framan okkur.“
Birni þótti ökulag jeppans sem á undan keyrði undarlegt því gefið var í og hægt á til skiptis. „Mér fannst í raun liggja í loftinu að þau væru að vonast eftir einhvers konar atburðarás til að nota í mynd. Kannski voru þau að reyna að láta líta út fyrir að við værum að elta þau eða eitthvað slíkt, en við vorum alltaf á sama hraðanum.“

Fjölskyldan segir að fólkið hafi aldrei, á neinum tímapunkti, reynt að ná sambandi eða talað við þau.

„Maður veit ekkert hvað hangir á spýtunni. Það hefði verið sjálfsagt að tala við þau ef þau hefðu haft samband og sýnt áhuga á að koma hingað, fræðast um starfið og ræða málin frá upphafi. En við treystum þeim ekki úr þessu. Þau birtast bara hér, bæði árið 2019 og núna, og hegða sér undarlega, keyra í offorsi í burtu þegar við nálgumst.

Á öðrum stöðum höfum við heyrt að þau banki upp á heimili fólks með myndbandsupptökur í gangi í leyfisleysi og jafnvel án vitundar fólks. Okkar upplifun er að þau séu að reyna að stilla þessu upp þannig að við séum að gera eitthvað af okkur. Þetta er rosalega skrítin hegðun,“ segir Þórdís.

Hún bendir einnig á að ef tilgangur dýraverndarsamtakanna sé að stöðva notkun PMSG í verksmiðjubúskap sé einkennilegt að þau ráðist að bændum, frekar en að beina sjónum sínum ofar í framleiðslukeðjuna.

Móðir Þórdísar, Svava Björk, segir aðferðirnar dæmi um veikan málflutning. „Nálgun þeirra byggir á að draga fram samúðaráhrif úr samfélaginu með því að birta ákveðið sjónarhorn til að ná í tiltekið viðhorf sem styður við málflutning þeirra, því hann stendur ekki svo styrkum fótum þegar farið er dýpra ofan í málið. Því ef þau færu að beita sér ofar í framleiðslukeðjunni þá þyrfti að vinna góða bakgrunnsvinnu og byggja málflutninginn á vísindum og rökum. Ef ekki eru til staðar nógu sterk rök sem renna stoðum undir málflutning þeirra þá er þessi samúðaraðferð önnur leið til að reyna að ná sínu fram. En með því að nálgast málið á þann hátt mun aldrei ríkja traust um málið og þá þarf að koma einhver óháður aðili að til að draga hið sanna fram.“

Hún segir að nú sé lag að skoða allar hliðar starfseminnar af yfirvegun, bæði vísindalega og siðferðilega, næstu þrjú árin á meðan nýja reglugerðin er í gildi.

Blóðtökubásarnir á Álftarhólum eru innanhúss og dráttarvél lögð fyrir utan sem er í takt við lýsingar York og Sabrinu á aðstæðum sem þau segja til þess fallin að fela blóðtökustarfsemina. Þórdís og Heiðar segja inniaðstöðu hins vegar betri bæði fyrir dýr og menn, sérstaklega í íslenskri veðráttu. Þau hafi hins vegar ekkert að fela en traust þeirra gagnvart starfsmönnum dýraverndarsamtakana sé lítið.

Reynsla og rannsóknir

Björn og Svava voru meðal þeirra bænda sem stunduðu blóðmerarbúskap á árum áður. Þau segja að augljós framför í aðbúnaði hafi átt sér stað gegnum tíðina. Þá hafi eftirlit með starfseminni margfaldast og sé mun meira en með annarri starfsemi kringum hross hér á landi. Einnig hafi geðslag þeirra hryssna sem notaðar eru batnað mikið enda sé leitast eftir því að halda rólegar og yfirvegaðar hryssur í stóðum, skapgerðarbrestir séu því hverfandi.

„Ég hefði viljað eiga allar blóðtökur sem við höfum tekið þátt í á myndbandi, öll árin. Það hefði verið gott ef Ísteka hefði hvatt bændur eða séð til þess að slíkt hefði verið gert. Þá gætum við sýnt fram á allt efnið. Þá væru einnig til myndir af einstökum frávikum og viðbrögðum við þeim ef þau kæmu upp. Ef fólk væri betur upplýst þá held ég að almennt álit fólks á starfseminni væri annað, en það er alltaf gott að vera vitur eftir á,“ segir Björn.

Um leið og Þórdís Ingunn fagnar því að nú sé verið að vinna að óháðri rannsókn á áhrifum blóðtöku á merarnar hljóti 40 ára reynsla að gefa einhverjar vísbendingar.

„Til eru hryssur sem eru út af hryssum sem hafa verið sérstaklega ræktaðar í þessum tilgangi og ekkert sem bendir til þess að blóðtakan hafi slæm áhrif á heilsu þeirra eða heilsu folaldanna. Af okkar reynslu að dæma þá koma stærstu folöldin undan þeim hryssum sem eru að gefa 7-8 sinnum sem er öfugt við þær fullyrðingar þingmanna um að folöldin séu eitthvað síðri undan blóðmerum.“

Hún bendir á nýtt lokaverkefni sem unnið var í Landbúnaðarháskólanum þar sem kannað var hvort blóðtaka hryssna hafði áhrif á efnainnihald kaplamjólkur og vaxtargetu folalda.

Ekki reyndist marktækur munur á efnainnihaldi kaplamjólkur úr hryssum í blóðtöku og viðmiðunarhryssu. Folöld undan hryssum í viðmiðunarhóp reyndust örlítið léttari en folöld undan hryssum sem tekið var blóð úr en munurinn var ekki marktækur.

Eftir blóðtöku áttu hryssur það til að vilja koma aftur inn í aðstöðuna og sýndu ekki merki þess að vera hræddar í aðstæðunum.

Umræða um frjósemislyf ógagnsæ

Talið berst að notkun á PMSG. Fjölskyldan er því sammála að gegnsæið í málefninu skortir. Skilningur þeirra sé þó að frjósemi fer minnkandi hjá mörgum dýrum, þar á meðal búfé, og notkun frjósemislyfja sé því nauðsynleg.

„Maður veit ekki nógu mikið til að mynda sér upplýsta skoðun. Sumir segja að verið sé að þróa lyf sem eigi að tryggja jafn góða virkni og PMSG. Aðrir segja að það séu til 40 lyf sem hægt væri að nota í staðinn. Enn aðrir segja að það fylgi notkun á þeim lyfjum enn meiri lyfjagjöf, svosem sýklalyfjanotkun. Þá er ekkert vitað um langtímaáhrif þess að nota lyf sem framleidd eru á tilraunastofu (e. synthetic) samanborið við notkun á lífrænu efni eins og PMSG. Við vitum í raun ekki hvað er satt og rétt,“ segir Þórdís.

Búskapur sem þau njóta

Þórdís Ingunn og Heiðar munu halda áfram að stunda blóðmerarbúskap ef starfsemin verður áfram leyfð að þremur árum liðnum.

„Við höfum bæði mikinn áhuga á hrossum og það gefur okkur mikið að vera í umgengni við þau, pæla í þeim og sinna þeim. Þetta er ekki bara spurning um að fá pening fyrir blóð heldur er þetta hluti af þeim lífsstíl að vera í snertingu við dýr, að vera bóndi. Við njótum þess að vera í kringum hryssurnar, þegar þeim líður vel þá líður okkur vel.“

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...