Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Mynd / Teikning / Hlynur Gauti
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Landsvirkjun segir undirbúninginn, sem hefur staðið í rúman áratug, vera vandaðan og leikreglum hafi verið fylgt. Nokkur gagnrýni hefur verið á að ráðist sé í framkvæmdir áður en búið er að semja heildarstefnumótun fyrir vindorku. Sveitarfélög eru ósátt við að fá lágar tekjur og eru enn önnur ósátt við að hafa ekkert um málið að segja, þrátt fyrir að verða fyrir áhrifum. Náttúruverndarsinnar benda á að sjónræn áhrif af vindmyllunum nái inn á hálendið, sem stjórnvöld og almenningur vilji vernda.

Á dögunum samþykkti Orkustofnun umsókn Landsvirkjunar um virkjanaleyfi fyrir vindorkuver sem nefnt hefur verið Búrfellslundur, sem á að rísa skammt frá Sultartangalóni í Rangárþingi ytra. Landsvirkjun talar um að vindorka sé góð viðbót við vatnsafls- og jarðvarmastöðvar. Sveitarfélög hafa verið gagnrýnin á vindorkuver þar sem þau njóta sáralítils ávinnings og áhrifin af vindmyllum leita langt út fyrir sveitarfélagamörk. Landvernd kallar eftir að stefnumótun verði lokið áður en farið verði í framkvæmdir og bendir á að heppilegra væri að efla dreifikerfið til að laga títtnefndan orkuskort.

Ef áform ná fram að ganga verður uppsett afl Búrfellslundar 120 megavött sem kemur frá allt að 30 vindmyllum á 17 ferkílómetra svæði. Spaðar þessara vindmylla munu ná 150 metra hæð í hæstu stöðu, en vindmyllurnar tvær sem Landsvirkjun reisti norðan við Búrfell í tilraunaskyni árið 2013 ná 77 metra hæð og er uppsett afl þeirra 1,8 megavött. Til samanburðar er uppsett afl Blöndustöðvar 165 megavött.

Unnur María Þorvaldsdóttir hjá Landsvirkjun.

Unnur María Þorvaldsdóttir, forstöðumaður þróunar vindorku hjá Landsvirkjun, segir að núna sé unnið að umsókn um framkvæmdaleyfi í Rangárþingi ytra. Þegar það verður komið í höfn verði fátt því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir. Nú sé útboð í gangi um kaup á vindmyllum og reiknar Unnur með niðurstöðum úr því fyrir lok október. Mannvirkjagerð eigi að hefjast næsta sumar, uppsetning á vindmyllum árið 2026 og á rekstur orkuversins að hefjast síðar það ár.

Unnur bendir á að Búrfellslundur hafi verið lagður fyrst til umfjöllunar í rammaáætlun árið 2011 og hafi loks verið færður í orkunýtingarflokk í júní 2022, sem hafi verið forsenda þess að Landsvirkjun gæti haldið áfram með skipulagsmál og sótt um virkjunarleyfi.

Nú hefur sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps gefið út að þau muni kæra verkefnið. Unnur segir að eins og í öllu, þá geti kærur alltaf haft áhrif á niðurstöður verkefna. „Það má ekki gleyma því að þetta verkefni hefur verið í undirbúningi í meira en ellefu ár og hefur fylgt öllum lögbundnum ferlum og þeim ramma sem er til staðar.“

Vindurinn sparar vatnið

„Við sjáum þennan orkukost vinna mjög vel með vatnsaflinu okkar, af því að ef við horfum á eðli vinds þá blæs meira á veturna og það er einmitt þá sem við viljum spara vatn. Síðan er minni vindur á sumrin og það er þá sem við erum að fá innrennsli í lónin okkar og getum því nýtt báðar þessar auðlindir á sem bestan hátt,“ segir Unnur. Hún bætir við að verkefnið sé ekki síður spennandi þar sem það sé staðsett á stærsta vinnslusvæði Landsvirkjunar, þar sem fyrirtækið er nú þegar með sjö vatnsaflsstöðvar í rekstri og mikið af orkumannvirkjum.
Til stendur að byggja nýtt tengivirki í Rangárþingi ytra samhliða uppbyggingu Búrfellslundar. Fulltrúar Skeiða- og Gnúpverjahrepps hafa verið gagnrýnir á þetta og sagt að ein af ástæðunum fyrir því að vindorkuverinu var valinn þessi staður var nálægð við tengivirki sem þegar sé til staðar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og í ljósi þess að til standi að byggja nýtt tengivirki gæti vindorkugarðurinn verið hvar sem er. Unnur segir hins vegar að bygging nýs tengivirkis sé fyrst og fremst til að efla raforkuöryggi á svæðinu og að það hafi verið á áætlun hjá Landsneti í nokkurn tíma. Þá sé klárlega betra að hafa tengivirki nálægt orkuverinu.

Í upphaflegri útgáfu verkefnisins hafi verið lagt upp með að reisa 67 vindmyllur, en fallið var frá því við endurhönnun Búrfellslundar, þar sem framkvæmdasvæðið var minnkað og myllunum fækkað niður í 30. Landsvirkjun hafi fengið erlenda sérfræðinga og ráðgjafa og í þeirra nálgun hafi verið lögð áhersla á að draga úr sjónrænum áhrifum og aðlaga vindmyllurnar að fyrirliggjandi orkumannvirkjum og náttúrunni. Sjónrænu áhrifin séu alltaf mest í nágrenni vindorkuvera, en Unnur nefnir í þessu samhengi að þegar ekin er Sprengisandsleið þurfi maður ekki að vera kominn mjög langt áður en vinduorkuverið hætti að sjást.

Á þessari skýringamynd frá Landsvirkjun sést samanburður á fyrstu tillögunni að Búrfellslundi og þeirri sem stefnt er á að reisa. Upphaflega var lagt upp með 67 vindmyllur, en þeim hefur verið
fækkað niður í allt að 30. Sjónarhornið er úr Skeiða- og Gúpverjahreppi, rétt norðan Búrfells. Mynd / Landsvirkjun

Radar minnki áflug fugla

Hvað fuglalíf varðar bendir Unnur á að Búrfellslundur sé á heppilegum stað og að áætluð áhrif verði ekki veruleg. Landsvirkjun muni hins vegar fylgjast vel með til að geta gripið til ráðstafana ef þarf. Aðspurð hvaða áhrif vindmyllur geti haft á fugla nefnir Unnur meðal annars búsvæðamissi, en hægt sé að bregðast við því á hönnunarstigi og með vel ígrunduðu staðarvali. „Hvað varðar áflug, þá hefur tækninni fleygt fram. Það er hægt að setja upp radar sem nemur flugumferð. Ef þú sérð að það eru fuglar í nágrenninu, þá er hægt að draga úr vinnslu á meðan,“ segir Unnur.

Spaðarnir á vindmyllum eru gerðir úr trefjaplasti sem slitnar við notkun. Unnur segir umræðuna um dreifingu örplasts hafa verið mikla fyrir nokkrum árum og að það hafi verið skoðað vel í löndunum í kringum okkur. Hún nefnir sem dæmi tölur frá Svíþjóð þar sem eru um það bil fimm þúsund vindmyllur í rekstri. Talið sé að þær sleppi frá sér samtals um 650 kílóum af örplasti árlega. Til samanburðar losni um átta þúsund tonn af örplasti frá sænskri bílaumferð á ári hverju. „Það verður að horfa á þetta í samhengi og það er svo margt í okkar daglega lífi sem í raun og veru losar miklu meira míkróplast en akkúrat þetta.“ Til viðbótar þessu vill Unnur nefna að Landsvirkjun hafi viðhaldið sínum aflstöðvum mjög vel og fyrirtækið muni gera það líka í þessu tilfelli til að halda plastlosun í lágmarki.

Jón G. Valgeirsson hjá Rangárþingi ytra.
Iðnaðarsvæði á aðalskipulagi

Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, segir sveitarfélagið hafa tekið þátt í vinnunni á bak við Búrfellslund frá upphafi. Þegar búið var að samþykkja verkefnið inn í rammaáætlun hafi það farið í aðal- og deiliskipulagsferli sem sé á ábyrgð sveitarfélagsins. Í aðalskipulaginu hafi svæðinu verið breytt í iðnaðarsvæði á meðan vinna við deiliskipulagið felist í að staðsetja vindmyllurnar, ákveða staðsetningu slóða og finna pláss fyrir tengivirki.

Nú sé Rangárþing ytra búið að afgreiða málið að miklu leyti frá þeim. Það sem eftir standi sé að taka til umfjöllunar innan stjórnsýslu sveitarfélagsins framkvæmdaleyfisumsókn frá Landvirkjun þegar hún berst. Þá þurfi jafnframt að stofna lóð í samráði við forsætisráðuneytið þar sem Búrfellslundur er á þjóðlendu.

Sveitarfélög vilja endurskoða skattlagningu

Jón segir sveitarfélög þar sem orkumannvirki eru staðsett bíða eftir nýju frumvarpi frá fjármálaráðherra sem muni hafa í för með sér breytingu á skattlagningu þessara bygginga. Samtök orkusveitarfélaga hafi farið í greiningarvinnu og komu fram með tillögur sem Jón reiknar með að hafðar verði til hliðsjónar.

Meðal þeirra atriða sem lögð hafa verið til sé að breyta skattlagningu þannig að tekjurnar skili sér ekki eingöngu til sveitarfélaganna þar sem orkumannvirkin eru staðsett, heldur einnig til nágrannasveitarfélaga sem verði fyrir áhrifum.

„Auðvitað hafa svona mannvirki áhrif, en það hefur verið þokkaleg sátt hérna í samfélaginu um staðsetninguna og um þessa uppbyggingu. Það hafa ekki orðið deilur hérna innan sveitar um þetta mál. Það hafa ekki komið upp vandamál gagnvart ferðaþjónustu og öðrum aðilum þar sem vindmyllur eru þekktar úti í hinum stóra heimi. Þetta mun alltaf hafa aðeins áhrif á umhverfið, en þetta er á röskuðu svæði – það er alveg óumdeilt,“ segir Jón.

Haraldur Þór Jónsson hjá Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Skeiða- og Gnúpverjahreppur mótmælir

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur verið gagnrýnin á fyrirhugaðan vindmyllugarð. Haraldur Þór Jónsson oddviti segir að árið 2015, þegar Búrfellslundur hafi verið tekinn fyrst til umfjöllunar hjá verkefnastjórn rammaáætlunar, hafi hún álitið þetta slæman kost vegna ferðaþjónustu og útivistar.

Landsvirkjun hafi tekið gagnrýnina til sín, minnkað vindorkugarðinn og sent verkefnið aftur á borð áðurnefndrar verkefnastjórnar árið 2020. Haraldur segir að þá hafi Búrfellslundur fengið enn verri niðurstöðu og að verkefnastjórnin hafi lagt til að Búrfellslundur yrði áfram í biðflokki, enda hafi vægi ferðaþjónustunnar tvöfaldast á þeim tíma. Alþingi hafi síðan breytt þeirri niðurstöðu og sett Búrfellslund í nýtingarflokk.

Í hluta af upphaflegu útfærslunum hafi vindmyllugarðurinn átt að vera bæði innan vébanda Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra. Í núverandi útfærslu sé hann alfarið innan Rangárþings ytra, en þétt við sveitarfélagamörk að annars vegar Ásahreppi og hins vegar Skeiða- og Gnúpverjahreppi. „Þarna liggja þrjú sveitarfélög á beinu áhrifasvæði vindorkugarðsins og aðeins eitt þeirra fær stjórnsýslulega aðkomu að málinu,“ segir Haraldur.

Takmörkun á gæðum nágrannahreppsins

Af vindmyllunum hlotnist bein áhrif af hljóði og skugga yfir sveitarfélagamörk. Haraldur nefnir sem dæmi að ef stífla sé reist í einu sveitarfélagi og uppistöðulónið leiti yfir í annað sveitarfélag þurfi það að fara í gegnum skipulagsferli, enda hafi vatnið bein áhrif yfir sveitarfélagamörk. „Við viljum meina að skuggavarpið og hljóðmengunin sé takmörkun á landnotkun okkar sveitarfélags.“ Með því að staðsetja vindorkugarðinn svona sé verið að leggja slæmt fordæmi.

„Búrfellslundur er einungis örfáa kílómetra frá þjóðlendunni í Þjórsárdal þar sem Bláa lónið er í tugmilljarða uppbyggingu í ferðaþjónustu. Ef sú uppbygging væri búin, væri aldrei verið að tala um að byggja Búrfellslund, ekki frekar en menn ætli að byggja vindorkugarð nokkra kílómetra frá Gullfossi, Geysi, Seljalandsfossi eða Stuðlagili. Við verðum að horfa á stóru myndina. Það eru fjölmargir staðir á Íslandi sem henta mjög vel til að byggja upp vindorku án þess að fórna öðrum efnahagslegum gæðum sem eru verðmætari.“

Hann bendir á að í áliti Skipulagsstofnunar og í umhverfismatinu sem liggi til grundvallar Búrfellslundi hafi komið skýrt fram að ástæða þessa staðarvals væri nálægð við tengivirki í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. „Nú er staðan sú að það er búið að hanna nýtt tengivirki tvo, þrjá kílómetra frá tengivirkinu í Sultartanga. Þar af leiðandi þarf ekki að tala við neinn nema Rangárþing ytra. Af því það þarf að byggja nýtt tengivirki þá gæti Búrfellslundur verið hvar sem er nálægt meginflutningsneti Landsnets.“

Búrfellslundur er áætlaður á stærsta vinnslusvæði Landsvirkjunar þar sem þegar eru sjö vatnsaflsstöðvar í rekstri. Búðarhálsstöð er ein þeirra, en hún er aðeins örfáa kílómetra í burtu. Mynd / Landsvirkjun
Ávinningur nærsamfélagsins enginn

„Það er búið að selja þessa orku,“ segir Haraldur jafnframt og bendir á að Landsvirkjun hafi gert raforkusamning við landeldisfyrirtækið Laxey í Vestmannaeyjum upp á 22 megavött þar sem ein af forsendunum hafi verið að Búrfellslundur yrði kominn í notkun fyrir lok ársins 2026. „Búrfellslundur skilar engum störfum, hvorki í Skeiða- og Gnúpverjahreppi né Rangárþingi ytra. Ávinningur nærsamfélagsins af vindorkugörðum er enginn,“ segir Haraldur og bendir á að viðhald í kringum vindmyllur sé það lítið að það sé ekki atvinnuskapandi.

„Við sem búum á landsbyggðinni borgum hærra verð fyrir rafmagn sökum dreifbýlisálags á dreifingu rafmagns. Þetta er enn eitt orkuverið sem á að byggja úti á landi þar sem á að flytja efnahagslegu áhrifin og ávinninginn inn í þéttbýliskjarnana á höfuðborgarsvæðinu eða þar sem er verið að byggja upp atvinnuna, lífsgæðin og verðmætu störfin. Við eigum bara að sitja eftir með undanþágu orkumannvirkja á tekjustofnum sveitarfélaga og við fáum ekki störfin. Þetta er algjörlega galið.

Ég hef sagt það í langan tíma að þessi sveitarfélög úti á landi sem eru með orkumannvirki eru eins og þriðja heims ríki þar sem aðrar þjóðir koma og taka auðlindirnar og fara með þær. Uppsett afl sem framleitt er í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er yfir 500 megavött. Það er nóg fyrir öll heimili og fyrirtæki á Íslandi ef þú undanskilur þessa ellefu viðskiptavini sem eru stórnotendur. Ávinningur okkar af þessari starfsemi er ekki til staðar. Það er komið að skuldadögum í þessum málum, við munum ekki sætta okkur við óbreytt ástand.“

Haraldur segir að staðan væri allt önnur ef samfélögin á áhrifasvæði orkumannvirkjanna myndu njóta ávinningsins. Fólki hafi fækkað úti á landsbyggðinni undanfarna áratugi, fyrir utan smávægilegan viðsnúning undanfarin ár vegna ferðaþjónustunnar. Þessum fólksflótta hefði verið hægt að snúa við ef landsbyggðin hefði notið sanngjarnari hlutdeildar í þeim auðlindum sem séu þar.

Björg Eva Erlendsdóttir hjá Landvernd.
Villta vestrið í vindorkuáformum

Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir samtökin kalla eftir því að heildarstefnumótun fyrir vindorku á Íslandi verði kláruð áður en farið verði í framkvæmdir. „Það lítur út eins og það sé nokkurn veginn villta vestrið í gangi í vindorkuáformum vegna þess að það er alltaf verið að tala um hærri og hærri möstur, fleiri og fleiri garða með ótrúlega mörgum myllum vítt og breitt um landið.

Ég held að fólk fyllist ugg og verði argara út í hvert einasta vindorkuver út af því að það er allt of mikið í gangi í einu. Það er verið að þyrla upp rosalegu moldviðri í kringum þetta með því að hleypa umræðunni og undirbúningnum svona langt af stað án stefnumótunar,“ segir Björg Eva. Eitt af því sem Landvernd hafi viljað sé að það yrðu afmörkuð svæði fyrir vindorku áður en henni yrði hleypt af stað.

Þótt vindorkuverið við Vaðöldu ofan Búrfells sé á röskuðu svæði sé ótvírætt að hin sjónrænu áhrif nái langt inn á hálendið. Þó sé ekki verið að ráðast á verulega gróið land eða óraskaðar heiðar og orkuverið sé staðsett á framkvæmdasvæði þar sem innviðir séu til staðar, stutt í línur og vegi, ásamt því sem skammt er í jöfnunarorku.

Erlendis eru vindmyllur algeng sjón og ef áform ná fram að ganga munu þær sjást víða á Íslandi innan örfárra ára. Björg Eva hjá Landvernd skilur af hverju fólk fyllist ugg þegar fjöldi orkuvera eru á teikniborðinu samtímis. Mynd / Timur Garifov - Unsplash
Orkan fari ekki til loftslagsmála

Mikið sé þrýst á að efla orkuframleiðsluna til að Ísland geti farið í orkuskipti og staðið við sínar skuldbindingar í loftslagsmálum. Björg Eva segir að eitt af því sem Landvernd hafi gagnrýnt mest sé hins vegar að nánast öll ný orka sé seld annað, til dæmis í rafmyntagröft eða til gagnavera sem séu farin að nota meiri orku en heimilin. „Það fer ekki saman hljóð og mynd þar sem menn eru að segja að þeir vilji gera þetta allt saman af umhverfisástæðum. Áfram er staðan sú að áttatíu prósent orkunnar fer til fárra stórnotenda og alls ekki til loftslagsmála.“ Landvernd vilji frekar að dreifikerfið verði lagað þannig að orkan fari ekki til spillis og hægt verði að beina henni þangað sem hana vantar, einkum og sér í lagi út af umhverfisþáttum.

Landvernd hefur jafnframt verið gagnrýnin á áform erlendra einkaaðila um að reisa vindorkuver á Íslandi. „Það gefur augaleið að einhverjir fjárfestar úti í heimi eru mun ólíklegri til þess að hugsa um náttúruna á Íslandi, heldur en Íslendingar sjálfir og opinberir aðilar sem hægt er að krefjast að hafi eigendastefnu og komi fram við náttúru landsins af ábyrgð.

Við höfum séð þetta fara illa í öðrum löndum. Þegar eigendahópur er þannig samsettur að það næst ekki einu sinni í hann þá er maður ekki í góðum málum og það er mun erfiðara að gera kröfur á ókunna fjárfesta í skattaskjólum en á fyrirtæki í eigu okkar allra. Náttúran er sameign okkar allra, undirstaða lífsins en ekki leikvöllur stórfyrirtækja með óljóst eignarhald og gróðann einan að markmiði,“ segir Björg Eva.

Ganga þurfi frá lausum endum

„Ég heyri að sveitarfélög eru líkleg til að rífast um þetta líka af fjárhagslegum sjónarmiðum. Sveitarfélög sem fá ókostina en ekki peningana verða mjög reið og hafa talað um að kæra, en sveitarfélög sem fá peninga eru ánægðari.“ Reikna megi með meiri deilum um vindinn en vatnið því vindorkuver hafi áhrif út fyrir sveitarfélagamörk og landið sem þær standa á.

„Þetta getur skiljanlega orðið verulegt þrætuepli, bæði á milli sveitarfélaga og ríkisins og á milli ólíkra sveitarfélaga. Þetta sýnir enn betur þörfina á því að hafa almennilega stefnumótun og ganga frá öllum endum áður en vaðið er af stað í orkuskorti sem er ekki orkuskortur.“ Björg Eva gerir fastlega ráð fyrir að ríkisstjórnin sé komin vel á veg með vinnu að stefnumótun um vindorku og því ætti að vera hægt að bíða með upphaf framkvæmda þangað til að þeirri vinnu verður lokið.

„Það þarf greinilega að undirbúa þetta miklu betur og ríkið þarf að ná sátt við sveitarfélögin en fyrst og fremst almenning. Ríkið þarf líka að sýna það að það sé verið að vinna að hagsmunum Íslendinga í sátt við náttúruna, vegna þess að við erum öll sammála um að hún er það verðmætasta sem við eigum.“

Björg Eva segir að það þurfi að vera á hreinu í stefnumótuninni hvenær víðerni séu víðerni, en þau séu ekki eingöngu á miðhálendinu. Ef hálendið verði varið megi heldur ekki líta svo á að það megi setja vindmyllur alls staðar annars staðar. „Það er ekki þannig að íslensk náttúra sé þannig uppbyggð að miðhálendið eitt sé dýrmætt og verðmætt og hitt sé allt drasl. Heiðarnar eru í hættu vegna þess að þetta er að teiknast upp úti um allt.“

Aðspurð telur Björg Eva heppilegustu staðina til að byggja upp vindorkugarða vera í námunda við stóriðju og iðnaðarsvæði. „Það væri sjálfsagt minnstur skaðinn afþvíefþúætlaraðsnúauppá höndina á mér, en ég myndi fyrst vilja halda því til haga að eins og þessum orkuskorti meinta er lýst, þá er hann að verulegu leyti þvæla og græðgi í að éta alla kökuna í einu án tillits til framtíðarinnar.“

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...