Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Nær helmingur íbúa ESB vill auka stuðning við bændur
Fréttaskýring 12. apríl 2016

Nær helmingur íbúa ESB vill auka stuðning við bændur

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Í umræðum um nýja búvörusamninga íslenska ríkisins við bændur hefur borið mjög á harðri  gagnrýni varðandi stuðning við landbúnað yfir höfuð. Þar eiga samtök bænda við ramman reip að draga.
 
Þetta er hins vegar þvert á skoðanir almennings í Evrópu­sambandinu. Þar fer vaxandi stuðningur meðal almennings við þá afstöðu að auka beri stuðning við landbúnaðarkerfið.
 
Kannski má segja að sú afstaða að auka stuðning, sé nokkuð á skjön við hugmyndir manna um að auka sjálfbærni í landbúnaðinum. Þar hlýtur meiningin að lúta að fjárhagslegri sjálfbærni ekki síður en sjálfbærni hvað varðar landnýtingu og annað er viðkemur landbúnaði. Miðað við viljann til að auka stuðning við landbúnað innan ESB, þá er ljóst að nágrannaríki sambandsins, eins og Noregur og Ísland, verða að spila í takt við ákvarðanir sem þar verða teknar. Án þess yrði fótunum væntanlega kippt undan mikilvægri stoð í atvinnulífi og samfélagsuppbyggingu landanna.  
 
45% vilja auka stuðning við bændur 
 
Samkvæmt skoðanakönnun  ESB (Europeans, Agriculture and the CAP) sem birt var í janúar, telja 47% íbúa sambandsins að landbúnaðarkerfið sé mjög mikilvægt og 45% vilja auka styrki við bændur. Það er 6 prósentustigum meiri stuðningur en var við þá skoðun árið 1999.
 
Um 40% af fjárlögum ESB 
 
Evrópusambandið ver nú  nærri  40% af fjárlögum sínum í samninga, styrki og tollvernd við evrópskan landbúnað. Það nemur um 59 mill­jörðum evra, eða sem svarar um 8.300 milljörðum íslenskra króna. Kerfið, sem nefnt er CAP (Common Agricultral Policy), var fyrst kynnt 1962 og var þá hlutfallslega mun umfangsmeira en það er nú. Árið 1984 fóru t.d. um 71% af útgjöldum ESB í þetta kerfi.  Síðan hefur verið dregið hlutfallslega úr stuðningnum. 
 
Nú vilja einungis 13% aðspurðra sjá að dregið verði meira úr stuðningi við landbúnað í gegnum CAP. Þá kemur fram í könnuninni að fleiri eru meðvitaðir um hvað landbúnaðarkerfið snýst en áður. Þessi afstaða er því ekki byggð á vanþekkingu. Þeir sem telja sig vel upplýsta um CAP eru nú 69% á móti 64% árið 2013.
 
Kerfið talið auðvelda milliríkjaviðskipti
 
Athyglisvert er í ljósi umræðunnar hér að 66% þátttakenda í könnuninni telja að landbúnaðarkerfið auðveldi viðskipti ESB við önnur lönd. Þá telja 65% að kerfið styrki innri markað ESB. 
 
Bændur verða að sýna ábyrgð
 
Um leið og meirihluti íbúa vill sjá aukinn stuðning við bændur innan ESB til lengri tíma litið, þá vilja þeir um leið að því fylgi kvaðir. Þannig að ef bændur virði ekki kröfu um framleiðslu á öruggum matvælum, dýravelferð og umhverfisvernd, þá sé eðlilegt að dregið verði úr styrkjum  til viðkomandi bænda. 
 
Í Evrópusambandinu var landbúnaðarkerfi CAP breytt verulega fyrir nokkrum misserum. Það  leiddi af sér offramleiðslu á mjólk og mikið verðfall. Í síðustu viku bárust svo fréttir af því að pólitíkusar í Brussel vildu reyna að koma böndum á offramleiðsluna sem leitt hefur til fjölda gjaldþrota í landbúnaði. 
 
Fæðuöryggi þykir mikilvægast 
 
Þátttakendur í könnun ESB fannst mikilvægast að tryggja fæðuöryggið. Það er nokkuð sem ítrekað hefur verið haft í flimtingum í umræðunni hér á landi. Í könnun ESB kemur fram að 88% þátttakenda telja að nýta eigi landbúnaðarkerfið til að ná þessum markmiðum. 
 
Næstflest atkvæði fékk sú skoðun að tryggja bæri gæði, hreinleika og öryggi landbúnaðarafurða.
 
Í þriðja sæti þótti mikilvægt að tryggja búsetu í dreifbýli.
 
Í fjórða sæti að tryggja „sanngjarnt verð“ til neytenda.
 
Í fimmta sæti þótti mikilvægt að stuðla að verndun umhverfisins og vinna gegn hlýnun jarðar. 
 
Það sjötta mikilvægasta var á meðal þátttakenda að tryggja bændum sanngjarna afkomu. 
 
Í könnuninni kemur einnig fram ótti í sumum ríkjum við að landbúnaðarkerfi CAP sé ekki að gagnast viðkomandi ríkjum eins og æskilegt sé. Tékkar og Slóvakar lýsa m.a. miklum áhyggjum um að kerfið sé að ganga gegn þeirra bændum. 
 
Andstaðan við landbúnaðarkerfið  á Íslandi
 
Næsta öruggt má telja að ekki sé að finna meirihluta fyrir því að halda kerfinu á Íslandi óbreyttu. Hefur sú afstaða m.a. komið berlega fram í fjölmiðlum að undanförnu. Því hafa menn farið þá leið í samningaviðræðum að reyna að straumlínulaga kerfið með það að markmiði að auka skilvirkni þess. Hvernig til hefur tekist er svo auðvitað umdeilanlegt. Miðað við umræðuna í þjóðfélaginu og á Alþingi að undanförnu, virðist vilji til að ganga mun nærri kerfinu  en þó er gert í nýgerðum búvörusamningum. 
 
Enginn fær allt fyrir ekkert
 
Margir gagnrýna landbúnaðarkerfið í heild sinni og finnst óeðlilegt að „styrkja“ þurfi bændur hér á landi til að framleiða matvöru sem nóg sé til af í öðrum löndum. Þetta sama fólk gerir gjarnan lítið úr umræðu um fæðuöryggi. Því þykir þó væntanlega sjálfsagt að íslenskir neytendur njóti niðurgreiðslna sem almenningur í öðrum löndum greiðir með sínum landbúnaðarafurðum, án þess að Íslendingar kosti þar nokkru til. Samt vildi margt af þessu sama fólki ganga hiklaust inn í Evrópusambandið gegn himinháum aðildargreiðslum. Þær renna m.a. að drjúgum hluta til landbúnaðar ESB og til að styrkja illa laskað bankakerfi Evrópusambandsins. Þarna er hrópandi ósamræmi í gagnrýninni á stuðningskerfi landbúnaðarins.
 
Óskhyggjan um styrkjalaust land
 
Vissulega væri það óskastaða að allir Íslendingar gætu lifað eins og blómi í eggi og notið um leið besta velferðarkerfis í heimi, án þess að beita þyrfti styrkjakerfum af nokkrum toga. Raunveruleikinn  sem þjóðir heims lifa við er hins vegar allt annar. Virðast hörðustu gagnrýnendur landbúnaðarkerfisins í því samhengi annaðhvort vera að tala af mikilli vanþekkingu varðandi stöðuna í öðrum löndum og samkeppnisstöðu Íslands, eða beita vísvitandi blekkingum til að slá ryki í augu almennings. Spurningin um hvað eigi að styrkja og hvernig, hlýtur eigi að síður að vera fullgild á öllum tímum. Stuðningur við ýmsa þætti í rekstri þjóðfélags er nefnilega ekki lögmál, heldur mannanna verk. Þar verða Íslendingar þó að spila í takt við önnur ríki, bæði hvað varðar stuðning við eigið atvinnulíf og beitingu innflutningstolla.

Skylt efni: CAP | búvörusamningar

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...