Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Kína er öflugast og losar um þrjú þúsund sinnum meira en Ísland
Fréttaskýring 30. ágúst 2021

Kína er öflugast og losar um þrjú þúsund sinnum meira en Ísland

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Samkvæmt tölum Global Carbon fyrir árið 2019 er kolefnislosun einstakra landa í heiminum vegna notkunar jarðefnaeldsneytis ákaflega misjöfn og er Kína þar langstærst, 10,2 milljarða tonna af CO2. Næst koma Bandaríkin sem eru rétt hálfdrættingar með um 5,3 milljarða tonna.

Losun um allan heim dróst síðan nokkuð saman á árinu 2020 í Covid-19 faraldrinum, eða um 7%, en hlutfallslega mest í Bandaríkjunum, eða um 12,1%.

Samdráttur í losun stórveldanna á koltvísýringi skiptir öllu máli fyrir heildarlosun heimsbyggðarinnar. Án samdráttar í öflugustu iðnríkjunum skiptir brölt smærri ríkja harla litlu máli. Þar eru 15 öflugustu iðnríkin að losa ríflega 72% af heildarlosun koltvísýrings út í andrúmsloftið í heiminum.

Þetta er mjög heitt pólitískt átaka­mál þar sem samdráttur í notkun jarðefnaeldsneytis hefur gríðarleg áhrif á hagvaxtarþróun stórþjóðanna. Í það minnsta þar til ný tækni hefur leyst notkun jarðefnaneldsneytis af hólmi.

Þá er líka ljóst að mesta losunin stafar af framleiðslu á raforku þar sem eftirspurnin hefur verið að stóraukast, m.a. með orkuskiptum í öllum greinum og aukinni notkun rafbíla. Virðist stóra spurningin því snúast um hvernig menn ætli að draga úr kolefnislosun vegna aukinnar raforkuframleiðslu auk þess sem stóraukin áhersla hefur verið lögð á framleiðslu á vetni sem orkumiðils, en það er líka framleitt með raforku. Sólar- og vindorka dugar þar ekki til eins og t.d. hefur verið upplýst varðandi Þýskaland. Vandséð er að þetta verði leyst í bráð nema með stóraukinni raforkuframleiðslu með kjarnorku sem umhverfissinnuð stjórnmálaöfl hafa barist mjög á móti. Þar breyta upphrópanir og heimsendaspár harla litlu.

Íslendingar eru peð í heildarsamhenginu og númer 143 á lista yfir losun þjóða á CO2

Kínverjar eru að losa ríflega þrjú þúsund sinnum meira af koltvísýringi út í andrúmsloftið en Ísland vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti sam­kvæmt tölum GC. Losun Íslands er því um 0,031% af losun Kína. Ef tekið er mið af losun Þýskalands, sem er öflugasti losandinn í Evrópu, þá losar það nær 213 sinnum meira af koltvísýringi en Ísland. Enda er Ísland númer 143 á lista yfir losun CO2 af 221 landi samkvæmt Global Carbon.

Heildarlosun þjóða heims vegna brennslu jarðefnaeldsneytis var á árinu 2019 samkvæmt tölum GC rúmlega 36,4 milljarðar tonna að meðtaldri losun frá flugi og skipum. Þessi tala lækkaði í 34,1 milljarð tonna árið 2020.

Af heildarlosuninni voru 15 þjóðir með 26,1 milljarðs tonns, eða 72,2% af heildarlosun heims­byggðarinnar á árinu 2019. Af þessum fimmtán voru Kína, Banda­ríkin og Indland langstærst með samtals 17,6 milljarða tonna. Eftir samdrátt í losun á síðasta ári og fyrrihluta árs 2021, er losun CO2 nú tekin að stíga á ný.

Sérkennileg umræða

Í umhverfisumræðunni á Íslandi er oft fullyrt að Íslendingar séu einhverjir mestu umhverfissóðar í heimi og alverstir Evrópuþjóða. Þar þykir sæma að deila bæði staðfestum og óstaðfestum losunartölum af öllu tagi hér á landi og deila þeim á íbúafjölda þessarar örþjóðar. Inni í því dæmi taka menn gjarnan óstaðfestar tölur án vísindalegra mælinga um losun úr framræstu landi. Einnig er nefnd stóriðja, sem er samt ekki inni í dæminu varðandi Parísarsamkomulagið margfræga. Þannig fá menn út að Íslendingar mengi t.d. mun meira en stóriðnaðarríkið Þýskaland.
Aflátsbréfin spila stóra rullu fyrir Ísland en eru samt utan sviga

Samkvæmt tölum Orkustofn­unar voru Íslendingar vegna sölu aflátsbréfa íslenskra raforku­fyrirtækja (upprunavottorða) að losa 7,2 milljónir tonna vegna raforkuframleiðslu á síðasta ári. Það er fyrir utan alla aðra „raunverulega“ koltvísýringslosun í landinu vegna bruna á jarðefnaeldsneyti. Þessi losun, sem við tökum á okkur á pappírunum til að þóknast viðskiptamódeli kolefnishagkerfisins, þýðir þá líka að við séum að taka á okkur ábyrgð á hluta af losun Þjóðverja og annarra Evrópuríkja. Reikningskúnstir af þess­um toga sýna glöggt í hverslags ógöngur kolefnisumræðan á Íslandi er komin.

Í tölum Global Carbon er breytilegs mannfjölda hvers lands vissulega getið, en þar á bæ dettur ekki nokkrum lifandi manni í hug að deila losun viðkomandi landa niður á einstaka íbúa eins og íslenskum „loftslagssérfræðingum“ þykir best henta sínum málstað. Nær væri að deila losuninni niður á flatarmál lands.

Ísland með 0,47% hlutfall af losun Þjóðverja, en 1,49% ef aflátsbréfin eru talin með

Í tölum GC kemur fram að kolefnis­losun Íslands á árinu 2019 vegna brennslu jarðefnaeldsneytis hafi verið 3,3 milljónir tonna, en á sama tíma var Þýskaland að losa 702 milljónir tonna. Samkvæmt þessu var Ísland að losa 0,47% hlutfall af heildarlosun Þjóðverja vegna brennslu jarðefna­eldsneytis. Ísland er um 103 þúsund ferkíló­metrar en Þýskland um 357 þúsund ferkílómetrar. Ef aflátsbréfin eru tekin inn í myndina hafa Íslendingar verið að losa um 10,5 milljónir tonna af CO2 árið 2019, eða 1,49% af heildarlosun Þjóð­verja vegna brennslu jarðefna­eldsneytis.

ESB-ríkin þriðju stærstu losendur CO2 í heimi

Evrópusambandsríkin 27 eru þriðju öflugustu losendur á CO2 í heiminum. Þannig voru þau að losa um 2,9 milljarða tonna af CO2 á árinu 2019, en sú losun lækkaði í 2,6 milljarða á árinu 2020, eða um 11,3%. Þá losaði Indland 2,6 milljarða tonna á árinu 2019 sem dróst saman í 2,4 milljarða tonna, eða um 9,1%.

Eins og fyrr segir minnkaði losun CO2 í Bandaríkjunum úr 5,3 milljörðum tonna á árinu 2019 í 4,7 milljarða tonna, eða um 12,6%. Reyndar var líka um 2,6% samdráttur á kolefnislosun þar í landi á milli áranna 2018 og 2019.

Þá var Kína að losa 10,2 milljarða tonna á árinu 2019 sem var aukning frá fyrra ári um 2,2%. Á árinu 2020 dróst losunin í Kína saman um 1,7% og var þá 10 milljarðar tonna.

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...