Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Matvælasvik tekur á sig fjölbreyttar myndir. Upp hafa komið mýmörg svik um útþynningu á svörtum pipar, til dæmis þegar í kvörnum finnast fræ af ávextinum papaya innan um piparinn til uppfyllingar.
Matvælasvik tekur á sig fjölbreyttar myndir. Upp hafa komið mýmörg svik um útþynningu á svörtum pipar, til dæmis þegar í kvörnum finnast fræ af ávextinum papaya innan um piparinn til uppfyllingar.
Mynd / Calum Lewis
Fréttaskýring 13. október 2022

Ein umfangsmesta svikastarfsemi heims

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Talið er að matvælasvik (e.Food fraud) skili meiri hagnaði en öll samanlögð fíkniefnaframleiðsla í heiminum.

Herdís M. Guðjónsdóttir, fagsviðs­ stjóri hjá Matvælastofnun. Mynd / Ívar Sæland

Matvælasvik er það þegar seljandi matvæla vísvitandi villir um eða segir ósatt um innihald matvæla í efnahagslegum ávinningi. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skilgreinir matvælasvik sem þann ásetning fyrirtækja eða einstaklinga til að svindla og svíkja í þeim tilgangi að blekkja neytendur sér til fjárhagslegs ávinnings.

Undirskilgreiningar eru nokkrar og sýna að matvælasvik geta birst í fjölbreyttum myndum. Vörusvik í formi þynningar er aðferð við að blanda hráefni af lægri innihaldsgæðum við það sem neytandinn telur að hann sé að fá. Upp hafa komið mýmörg svik um útþynningu á svörtum pipar, til dæmis þegar í kvörnum finnast fræ af ávextinum papaya innan um piparinn til uppfyllingar.

Þá er hægt að skipta út næringar- efnum, innihaldsefnum eða hluta matvæla fyrir annað. Nærtækt dæmi um þetta er þegar komst upp um að kjöt af gömlum rúmenskum vinnuhrossum var selt sem nautakjöt í talsverðum mæli í Evrópu árið 2013.

Einnig er hægt að reyna að fela léleg gæði innihaldsefna eða vara. Þannig hefur því verið slegið fram að 75% af þeim túnfiski sem notaður er í sushi sé ekki ekta túnfiskur heldur einhver ódýrari tegund sem jafnvel er meðhöndlaður með efnum þannig að hann líti út fyrir að vera rauður og fallegur.

Ein birtingarmynd matvælasvika er að bæta óþekktum eða ótilgreindum efnasamböndum við vöru til að auka gæðaeiginleika þeirra. Afar skaðlegt dæmi um það kom upp í Kína árið 2007 þegar melamíni, efni sem notað er í plastiðnað, var bætt í mjólkurduft ætlað ungbörnum til að skekkja mælingar á próteinum.Leiddi það til þess að rúmlega 6.000 börn urðu nýrnaveik og fjögur börn létust.

Fölsun er einnig skilgreind sem matvælasvik og þá þegar beinlínis er brotið á hugverkaréttindum. Sú vara sem verður hvað oftast viðfangsefni matvælasvikara er ólífuolía, en of mörg dæmi eru um að sú sem skilgreind er sem hágæðavaran jómfrúarolía sé það bara alls ekki. Misvísandi og rangar merkingar eru einnig skilgreindar sem matvælasvik ásamt bókstaflegum þjófnaði og viðskiptum með mat á gráum markaði. Umfang matvælasvika er því gríðarlegt.

Íslensk dæmi: Fiskur og fæðubótarefni

Matvælasvik er meðal verkefna Herdísar M. Guðjónsdóttur, fagsviðsstjóra hjá Matvælastofnun. Eftirlitið hér er samtengt regluverki innan Evrópu.

„Vandamálið er stórt og vaxandi, þarna úti er hópur sem er að græða með því að stofna m.a. matvælaöryggi í hættu. Þetta er meðvitað svindl, það er verið að brjóta reglur og græða á því að svindla á neytendum,“ segir hún.

Umfang matvælasvindls sé slíkt að hægt sé að skilgreina sum dæmi sem skipulagða glæpastarfsemi. Matvælastofnun er tengiliður við Evrópska eftirlitskerfið, European Food Fraud Network.

„Við erum tengd við hraðviðvörunarkerfi og fáum þaðan tilkynningar um svindl sem koma upp. Ef hægt er að rekja vörurnar hingað til lands tekur Matvælastofnun til sinna ráða.“

Hér á landi er strangt eftirlit með fiski, enda okkar helsta útflutningsvara. Herdís segir að íslenskir framleiðendur hafi orðið uppvísir af matvælasvindli.

„Okkar eftirlitsmenn rýna í gögn og fara niður á höfn og skoða gáma þegar varan er á leiðinni út. Þannig uppgötvast svindl þegar það kemur fyrir. Ef einbeittur brotavilji er fyrir hendi er alveg hægt að komast í gegnum svona kerfi, sumir reyna t.d. að setja flottasta fiskinn efst í karið en ódýrari fisk neðst og þess háttar. Stundum er verið að reyna að selja ufsa sem þorsk. Svo er kannski verið að setja meira vatn á rækjurnar og þær frjósa þannig að menn eru að selja vatn en ekki rækjur. Slík dæmi hafa komið upp hér, eins og annars staðar í heiminum,“ segir Herdís.

Þá nefnir hún netverslanir sem vaxandi vettvang þar sem óprúttnir aðilar hafa náð til íslenskra neytenda.

„Þó netsala hafi verið í gangi lengi þá jókst hún sérstaklega kringum heimsfaraldurinn sem leiddi til aukinna tilfella um svindl. Það getur reynst erfitt að rekja vefsíður, finna framleiðanda, dreifingaraðila og ná í þann sem er ábyrgur. Þarna hafa komið upp dæmi um fæðubótarefni sem innihalda ólögleg virk efni.“

Gæludýraflutningar og varnarefni

Í ársskýrslu nefndar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um matarsvik fyrir árið 2021 kemur fram að metfjöldi tilkynninga hafi borist eftirlitskerfi þess. Þau hlaupa á þúsundum. Mál tengd ólöglegum varnarefnum eru algengustu umfjöllunarefni nefndarinnar en mál tengd flutningum á gæludýrum og netsölu matvæla jukust verulega árið 2021.


Lifandi gæludýr er nokkuð nýtt viðfangsefni evrópska kerfisins að sögn Herdísar.

„Þá er verið að flytja hunda og ketti inn til Evrópu á fölsuðum vottorðum um heilbrigði. Þetta getur reynst mjög afdrifaríkt fyrir dýraheilbrigði ef verið er að flytja inn dýr með sjúkdóma og sníkjudýr sem ekki eru þekkt í Evrópu.“

Nær helmingur oreganos útþynntur

Í ársskýrslunni eru birtar niðurstöður samræmdrar eftirlitsáætlunar á kryddi og kryddjurtum. Benda þær til þess að oregano sé afar viðkvæmt fyrir matvælasvindli

Hlutfall rannsóknarsýna sem innihéldu einhvers konar staðgengla (ólífulauf eru þar algengust) var 48%. Tæp 2.000 sýni voru tekin víðs vegar um Evrópu og reyndust 17% pipars útþynnt, 14% kúmens, 11% túrmeriks, 11% saffrans og 6% papriku/chilli kryddi.

Tugi fregna mánaðarlega

Þrátt fyrir umfang matvælasvika í heiminum og allra reglugerða um matvælaöryggi virðast glæpirnir þrífast sem aldrei fyrr.

Það sést ekki síst á mánaðarlegu fréttabréfi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um matarsvindl víða um heim.

Hvert fréttabréf inniheldur tengla á umfjallanir um tugi nýrra mála. Í ágústritinu er m.a. fjallað um dauða tólf manna á Indlandi sem drukku vín sem þynnt var út með banvænu efni. Þá létust 17 manns í Úganda eftir að hafa neytt gins sem útþynnt var með metanóli. Ítölsk yfirvöld lögðu hald á 2,9 tonn af ómerktum mat. Á Indlandi greindu vísindamenn ólöglegt litarefni, Rhodamine B, í ýmsum sósum. Í Brasilíu lokuðu yfirvöld fjórum verksmiðjum fyrir að blanda ávaxtasafa með ólöglegum efnum.

Í eftirliti í Bandaríkjunum kom í ljós að í þvagi 699 nautgripa sem áttu að vera uppaldir „án sýklalyfja“ fundust 17 sýklalyf. Matvæla- og lyfjastofnun Argentínu varar neytendur við fölsun á þekktu vörumerki á ólífuolíu og hefur lagt sölubann á framleiðsluna. Í Taívan sáu yfirvöld sig knúin til að eyða 9,6 tonnum af telaufum sem flutt voru inn frá Víetnam en upprunamerkt sem taívönsk vara. Misvísandi merkingar á ólífuolíu í Frakklandi er til umfjöllunar ásamt ólöglegum innflutningi á rækjum til Singapúr.

Athugið að öll þessi dæmi eru úr einu og sama fréttabréfinu og er listinn alls ekki tæmandi.

Tortryggni og viðurlög

Þó ekki hafi komið upp þekkt dæmi um að neytandi hérlendis hafi veikst alvarlega, eða látist, vegna matvælasvindls, er rétt að hafa varann á.

Herdís segir að til að sporna gegn matvælasvindli sé neytendum ráðlagt að iðka ákveðna tortryggni og vera gagnrýnin á matvæli sem þeir kaupa. Hægt er að blekkja með bjöguðum upprunamerkingum. Íslenska fánaröndin hefur t.d. ratað á erlent salat sem eingöngu hafði verið skolað með íslensku vatni. Ef saffran fæst voðalega ódýrt úti í búð þá er það líklegast falsað, enda dýrasta krydd heims.

„Eftirlitskerfið hér þyrfti að vera stærra og viðameira, allir eru þó að gera sitt besta,“ segir Herdís en í vikunni kemur út ný skýrsla með sameiginlegu áhættumati á Norðurlöndum sem hún tók þátt í að móta. Þar er farið yfir alla flokka matvælasvindls og umfang eftirlitsins.

Viðurlög við matvælasvindli eru æði misjöfn milli landa. Á meðan sum lönd hafa verið dugleg að beita sektum og sækja fólk til saka fyrir matvælasvik geta afleiðingarnar verið litlar sem engar í öðrum ríkjum.

Talið er að það sé einmitt ein af ástæðum þess að matvælasvindl sé jafn umfangsmikið og raun ber vitni – það sé einfaldlega áhættuminna að svindla með matvæli en að vera í eiturlyfjabransanum.

Skylt efni: Matvælasvindl

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...