Framleiðsla og sala á hrossakjöti jókst mest
Mikil aukning var í framleiðslu og sölu á hrossakjöti og svínakjöti á síðasta ári miðað við árið 2023.
Samkvæmt gögnum á Mælaborði landbúnaðarins jókst framleiðsla hrossakjöts mest allra kjötframleiðslugreina, eða um 9,7 prósent og salan jókst um 8,5 prósent. Framleiðsla á svínakjöti jókst um 8,7 prósent og salan um 8,5 prósent.
Áframhaldandi vöxtur í framleiðslu alifuglakjöts
Áfram heldur vöxturinn í framleiðslu á alifuglakjöti, en þar hefur stöðugur vöxtur verið frá 2020 og árið 2022 urðu þau tímamót að sú framleiðsla varð meiri en kindakjötsframleiðslan. Sala á alifuglakjöti hefur þó í allnokkur skipti farið fram úr sölu kindakjöts.
Framleiðsla alifuglakjöts fór á síðasta ári í fyrsta skiptið yfir 10 þúsund tonn, nánar tiltekið 10.149 tonn, og var aukningin á milli ára fimm prósent. Salan var einnig góð og jókst um 2,5 prósent frá 2023. Öfug þróun hefur verið á undanförnum árum í framleiðslu kindakjöts og dregið jafnt og þétt úr henni frá 2017 þegar framleidd voru 10.620 tonn. Á síðasta ári var framleiðslumagnið komið niður í tæp átta þúsund tonn og var samdrátturinn 0,5 prósent frá fyrra ári. Sala á kindakjöti dróst saman um 3,5 prósent.
Nautakjötsframleiðslan var svipuð á milli áranna, minnkar um 0,5 prósent. Salan jókst hins vegar um 1,8 prósent. Heildarkjötframleiðsla jókst um 2,2 prósent og vöxtur í sölu kjötvara var 2,5 prósent.
Samdráttur í innflutning
Mikill samdráttur var í innflutningi á alifuglakjöti, eða 49 prósent, og voru flutt inn 119 tonn í fyrra samanborið við 234 tonn árið 2023. Um 1.991 tonn var flutt inn af svínakjöti á síðasta ári, sem er um 14 prósent minna magn en árið á undan, og 2.096 tonn af nautgripakjöti, sem er fimm prósent minna magn en á árinu 2023.
Sem fyrr var ekkert flutt inn af hrossakjöti á síðasta ári og einungis voru 33,4 tonn flutt inn af kindakjöti.