Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Bürger-Grebe fjölskyldubúið í Norður-Hesse í Þýskalandi. Þar eru nú 200 mjólkurkýr en verða orðnar 360 í enn stærra fjósi strax á næsta ári. Stiginn á miðjum fjósgaflinum liggur upp í myndarlegt verðlaunað fjósakaffi fjölskyldunnar, Kuhstall-Café. Fyrir f
Bürger-Grebe fjölskyldubúið í Norður-Hesse í Þýskalandi. Þar eru nú 200 mjólkurkýr en verða orðnar 360 í enn stærra fjósi strax á næsta ári. Stiginn á miðjum fjósgaflinum liggur upp í myndarlegt verðlaunað fjósakaffi fjölskyldunnar, Kuhstall-Café. Fyrir f
Mynd / HKr.
Fréttir 17. desember 2015

Framleiða tvær milljónir lítra af mjólk en stunda verktöku til að komast af

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Bürger-Grebe fjölskyldan í þorpinu Helmscheid í sveitarfélaginu Korbach í Þýskalandi rekur myndarleg bú með 200 mjólkurkúm. Þrátt fyrir að það skili um tveim milljónum lítra af mjólk á ári, þá verða þau að stunda verktakastarfsemi samhliða bústörfum til að halda rektrinum á floti. 
 
Helmscheid er 200 manna þorp í Waldeck Frankenberg í Norður- Hessen. Til að þjóna forvitnum gestum hefur Bürger-Grebe fjölskyldan sett upp kaffihúsið „Kuhstall-Café“ þar sem gestir geta fylgst með mjöltum og öðrum bústörfum meðan þeir þiggja heimatilbúnar veitingar. Er þetta mjög líkt því sem gert er m.a. í Garði í Eyjafirði og í Efstadal í uppsveitum Suðurlands. 
 
Bændurnir heita Reinhard Citizen Grebe og Christine Grebe og annast þau búskapinn ásamt fjórum börnum sínum. Það eru dæturnar Stefanie, sem er með B. Sc-gráðu í búfræði og  Christina, sem einnig er með sömu gráðu. Síðan synirnir Tobias, sem vinnur við verktakaþjónustu búsins, og yngri sonurinn, Lars Grebe, sem er að læra vélvirkjun og stefnir á að aðstoða bróður sinn í verktakastarfseminni. Auk þess tilheyrir tíkin Lotta fjölskyldunni. 
 
Í heimsókn með íslenskum bændum
 
Blaðamaður Bændablaðsins átti þess kost að heimsækja þetta bú í byrjun nóvember í átján manna hópi íslenskra bænda, fulltrúa Kraftvéla og fjármögnunarfyrirtækisins Ergo. Var þetta annað kúabúið sem heimsótt var í þessari ferð. Þótt búin séu nokkuð ólík, þá eiga þau það sameiginlegt að verða nú að heyja harða baráttu fyrir tilveru sinni vegna gríðarlegrar lækkunar á mjólk í löndum Evrópusambandsins. Frúin á bænum, Christine Grebe, tók á móti Íslendingahópnum, en með í för slóst þýski ráðunauturinn Uwe Pohlmann.
 
Með 200 hektara,  200 kýr og 2 milljónir mjólkurlítra
 
Búið er með um 200 hektara land og 200 Holstein-mjólkurkýr. Allir kvígukálfar eru settir á og síðan haldið þegar þær ná 15 mánaða aldri til frekari kálfaframleiðslu. Hluti kvíganna fer til endurnýjunar á stofninum á bænum en aðrar eru seldar eftir burð sem lífdýr á markað. Nokkra nautkálfa ala þau sjálf og nýta í tilraunaræktun. 
 
Nyt kúnna er ágæt á búinu og skila þær að meðaltali 10.500 kg (lítrum) á ári. Í heild er búið því að skila um tveim milljónum lítra af mjólk á ári. 
 
Á búinu er hringlaga mjalta­gryfja og tekur það einn mann ásamt aðstoðarmanni um tvær klukkustundir að mjólka allar 200 kýrnar og er það gert tvisvar á dag. Christine segir að við að fjölga kúnum í 360 muni mjaltatíminn aðeins lengjast í hvert sinn um eina klukkustund, en ekki þurfi að leggja út í neinn viðbótarkostnað við mjaltagryfjuna.  
 
Í verktakastarfsemi til að bjarga rekstrinum
 
Vandamál Bürger-Grebe fjölskyldunnar er það sama og hjá öðrum mjólkurframleiðendum í Þýskalandi, mikil verðlækkun á mjólk. Það eru einkum tveir þættir sem virðast skýra þessar verðlækkanir sem koma líka niður  á öðrum landbúnaðarafurðum. Það er afnám kvótakerfis til að stýra mjólkurframleiðslu og viðskiptabann á landbúnaðarafurðir við Rússa sem orsakað hefur offramboð í Evrópu. Verslunarfyrirtækin hafa spilað mjög inn á þetta, sem gert hefur ástandið enn verra fyrir bændur í mörgum löndum. Þannig hafa breskar verslunarkeðjur t.d. verið að kaupa mjólkurafurðir frá Austur-Evrópu langt undir kosnaðarverði til sölu í Bretlandi, sem þarlendum bændum er algjörlega ofviða að keppa við. Langtímaáhrif þessa geta orðið mjög alvarleg. Ekki bara fyrir breska bændur, heldur ekki síður fyrir breska neytendur. Bændum mun fækka stórlega, þekking glatast og afleiðingin verður skortur á landbúnaðarafurðum og gríðarlegar verðhækkanir. 
 
Bjarga sér með aukinni verktakastarfsemi
 
Vegna stöðunnar í Þýskalandi hefur Bürger-Grebe fjölskyldan gripið til þess ráðs að efla verktakastarfsemi á bænum til að þjónusta aðra bændur. Þannig sækja þau nauðsynlegar tekjur til að styrkja reksturinn sem annars stefndi hraðbyri í þrot. Er fjölskyldan nú með fjóra fasta starfsmenn í verktakaþjónustunni. Vinna þeir ýmis verk fyrir aðra bændur, einkum heyvinnslu og þreskingu.  
Frá búinu er selt töluvert af kvígum til áframeldis. Fara þær bæði á innanlandsmarkað í Þýskalandi og einnig er töluvert selt af lífgripum úr landi. Meðaltalsverð fyrir kú í vikunni áður en íslenski hópurinn var þarna var 1.450 evrur, eða um 207 þúsund krónur. Eru kýrnar yfirleitt seldar um 25 mánaða aldurinn og eru þær þá oft kelfdar, en einstaka kýr er eldri við sölu, eða allt upp í þriggja ára. 
 
Fjölga upp í 360 kýr á næsta ári
 
Auk þess er verið að undirbúa stækkun á fjósinu fyrir 160 kýr. Verður það tekið í notkun á næsta ári og verður búið þá komið með 360 mjólkurkýr. Með þessu hyggst fjölskyldan  ná enn betri nýtingu á mannskap og búnaði en hægt er í dag, en með hlutfallslega litlum viðbótarkostnaði. Þannig hyggjast þau reyna að komast nær því að mjólkurframleiðslan geti staðið undir sér. Hvort það tekst er svo önnur saga.
 
Spara með því að endurvinna kúamykju í undirburð fyrir kýr 
 
Þegar Íslendinga­hópurinn var í heimsókn var þar við störf eitt af nýjum og örfáum sambærilegum tækjum í Þýskalandi. Er það bíll sem tilheyrir verktakastarfsemi búsins og er með heljarmiklum skilvindubúnaði. Dældi hann mykju upp úr haughúsinu, skildi vökvann frá og dældi honum aftur niður í haughúsið.
 
Afraksturinn af skítnum er 30% þurrefni sem dælt var á vagn þar við hliðina. Skilvindubíllinn kostaði 250 þúsund evrur, eða sem svarar um 35 milljónum króna.
 
Christine segir að þar sem sag og annar slíkur undirburður undir kýrnar sé orðið mjög dýrt, þá sé þetta leiðin til að spara á búinu. Þurra hreinsaða skítnum er þá blandað saman við sag og nýttur sem undirlag. Segir hún að þau hafi gert þetta í tvö ár og reynslan sé mjög góð, auk þess sem sparast hafi miklir peningar. Þá heldur þessi undirburður kúnum þurrum og hreinum, eins einkennilega og það kann að hljóma. Segir Christine engin vandamál hafi skapast vegna bakteríumyndunar í þurrkaða skítnum. 
 
Hefur notkun á svona endurunnum kúaskít farið ört vaxandi. Er þessi aðferð nú talsvert nýtt þar sem bændur eru með gasframleiðslu og gasgerðin hefur ekki undan að nýta skítinn. Þar sem óheimilt er að bera mykju á tún hvenær sem er, þá nýta menn þessa endurvinnsluaðferð og geyma þá skítinn í skemmu til síðari tíma, annaðhvort til að nota sem undirburð eða í gasframleiðslu. 

27 myndir:

Skylt efni: þýskir kúabændur

Óarðbær innflutningur
Fréttir 17. september 2024

Óarðbær innflutningur

Einkahlutafélagið Háihólmi skilaði tæplega 1,2 milljóna króna hagnaði á sínu fyr...

Kjötframleiðsla eykst áfram
Fréttir 17. september 2024

Kjötframleiðsla eykst áfram

Samkvæmt nýútgefnum tölum Hagstofu Íslands jókst innlend kjötframleiðsla um 15 p...

Ætla í samkeppni við einokunarfyrirtæki
Fréttir 16. september 2024

Ætla í samkeppni við einokunarfyrirtæki

Nýtt fyrirtæki vill koma sér fyrir á gasmarkaði á Íslandi og hefur hug á að útve...

Reisir lítið sláturhús og hyggst slátra strax í haust
Fréttir 16. september 2024

Reisir lítið sláturhús og hyggst slátra strax í haust

Skúli Þórðarson, bóndi á Refsstað í Vopnafirði og fyrrverandi sláturhússtjóri Sl...

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...