Fjölnota ruslatínslupokar úr gömlum kjólum í Jökulsárgljúfrum
„Þetta hefur verið mjög skemmtilegt og gefandi verkefni og síðar í sumar ætlum við að bæta við fleiri pokum en þeir verða stærri en þessir, sem við erum að taka í notkun núna,“ segir Helga Guðrún Sigurjónsdóttir, landvörður í Jökulsárgljúfrum í Vatnajökulsþjóðgarði.
Hún notaði veturinn til að sauma fjölnota ruslatínslupoka af mikilla ástríðu og vandvirkni, sem verða notaðir við ruslatínslu í sumar. Á hverju sumri tína landverðir á svæðinu mikið magn af rusli á svæðinu eins og við tjaldsvæði, bílastæði, meðfram göngustígum og við útsýnisstaði. Hingað til hafa verið notaðir plastpokar til að safna ruslinu í en til að draga úr plastnotkun verða fjölnotapokarnir hennar Helgu Guðrúnar notaðir. Pokarnir eru litlir, fara vel í vasa og þá má draga saman með reim.
„Pokarnir eru saumaðir úr endurnýttu efni, sem við fengum frá Rauða krossinum og efni sem við fundum hér og þar. Þar kennir ýmissa grasa en sturtuhengin eru sérstaklega góð og úreltir fánar, íþróttaföt, gamlir kjólar og fleira henta einnig vel. Við trúum því að þessi aðgerð muni ekki aðeins minnka rusl heldur einnig hvetja aðra til að hugsa um umhverfið okkar. Við erum stolt af þessari nýju uppfærslu og vonum að hún verði til góðs fyrir náttúruna okkar”, segir Guðrún Jónsdóttir, þjóðgarðsvörður í Jökulsárgljúfri.
