Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Fjóshornið, Góðan deig og Berufjarðarbúið á markaðinum á Lindarbrekku í Berufirði.
Fjóshornið, Góðan deig og Berufjarðarbúið á markaðinum á Lindarbrekku í Berufirði.
Mynd / Aðsendar
Fréttir 18. september 2025

Fjölmenni sótti bændur heim á Beint frá býli-deginum

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Beint frá býli-dagurinn var haldinn hátíðlegur þriðja árið í röð sunnudaginn 24. ágúst á sjö lögbýlum, einu í hverjum landshluta.

Beint frá býli, félag heimavinnsluaðila (BFB), er félag bænda sem stunda eða hyggjast stunda sölu afurða beint frá býli. Það var stofnað í febrúar 2008 og varð aðili að Bændasamtökum Íslands árið 2018. Beint frá býli-dagurinn var skipulagður af Samtökum smáframleiðenda matvæla og Beint frá býli – en BFB hefur verið aðildarfélag SSFM frá 2022.

Oddný Anna Björnsdóttir er framkvæmdastjóri beggja félaga og að hennar sögn sótti mikill fjöldi gesta bæina heim. „Samkvæmt lauslegri samantekt skipuleggjenda lögðu um fjögur þúsund gestir samtals leið sína á býlin sjö. Veður var almennt milt og gott og gestir nutu dagsins vel í sveitinni,“ segir hún.

Gestir kynnast dýrunum og skoða landbúnaðartækin

Bæirnir sem tóku á móti gestum að þessu sinni voru Rjómabúið Erpsstaðir í Dölunum, Hvammsbúið á Barðaströnd, Gróðurhúsið Starrastaðir í Skagafirði, Vellir í Svarfaðardal, Félagsbúið Lindarbrekka í Berufirði, Miðskersbúið á Hornafirði og Korngrís frá Laxárdal í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

„Gestgjafarnir lögðu sig alla fram við að gera daginn sem ánægjulegastan. Smáframleiðendur, félagsmenn SSFM/BFB í hverjum landshluta kynntu og seldu vörur sínar á býlinu – allt frá ostum, sultum og grænmeti, til kjötvara, fiskafurða og brauðs, auk ýmiss konar handverks. Þá gafst gestum kostur á að kynnast lífi og starfi á býlunum og hitta fólkið á bak við framleiðsluna. Enginn fór svangur heim því í boði voru fjölbreyttar veitingar og börnin höfðu tækifæri til að stytta sér stundir í leiktækjum, kynnast dýrunum og skoða landbúnaðartækin á bænum. Góð stemning myndaðist þar sem sveitungar fengu tækifæri til að hittast og spjalla í góðu yfirlæti,“ segir Oddný.

Hvatning fyrir fleiri að hasla sér völl

Markmið þessa viðburðar er, að sögn Oddnýjar, að vekja athygli á hugmyndafræði beint frá býli og hinni fjölbreyttu smáframleiðslu matvæla sem er stunduð víðs vegar um landið. „Þá er lögð áhersla á að efla tengsl framleiðenda og neytenda, hvetja fleiri til að hasla sér völl á þessu sviði og skapa vettvang fyrir íbúa landshlutanna til að njóta samveru í sveitinni. En einnig að ná til þeirra sem mæta ekki á staðina. Þó að þúsundir hafi komið í heimsókn þá náðu auglýsingar og umfjöllun um daginn til margra þúsunda í viðbót, sem styrkir enn frekar stöðu beint frá býli-hugmyndafræðinnar og meðvitund um smáframleiðslu matvæla í íslensku samfélagi,“ segir hún og bætir við að viðburðurinn hefði ekki orðið að veruleika án stuðnings fjölmargra aðila.

„SSV, Vestfjarðastofa, SSNV, Dalvíkurbyggð, Austurbrú, Sveitarfélagið Hornafjörður og Bændasamtök Íslands styrktu daginn fjárhagslega og aðstoðuðu við kynningu. Þá komu einnig að kynningu landshlutasamtök allra svæðanna, Slow Food samtökin, fjölmiðlar og margir aðrir velviljaðir aðilar.“

Meira en 220 félagar eru í BFB, ríflega helmingur á lögbýlum, rúmlega fimmtungur á höfuðborgarsvæðinu og annar fimmtungur í þéttbýli utan höfuðborgarsvæðisins.

5 myndir:

Skylt efni: beint frá býli

Virk endurheimt 30% raskaðra vistkerfa árið 2030
Fréttir 29. janúar 2026

Virk endurheimt 30% raskaðra vistkerfa árið 2030

Auðug líffræðileg fjölbreytni náttúrunnar er forsenda heilbrigðra vistkerfa, sem...

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun
Fréttir 29. janúar 2026

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun

„Að fólk geti greitt sér laun fyrir vinnuna, byggt upp jarðir, ræktun og bygging...

Skýrt nei við aðildarviðræðum
Fréttir 29. janúar 2026

Skýrt nei við aðildarviðræðum

Ríflega 76 prósent bænda sem eru félagsmenn í Bændasamtökum Íslands eru ósammála...

Dreifikostnaður raforku hækkar
Fréttir 29. janúar 2026

Dreifikostnaður raforku hækkar

Gjaldskrárhækkanir dreifiveitna rafmagns hafa hækkað umfram vísitölu á undanförn...

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri
Fréttir 29. janúar 2026

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri

Samkvæmt niðurstöðum skýrsluhalds Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) fyrir...

Mesti fjöldi skráðra sæðinga
Fréttir 27. janúar 2026

Mesti fjöldi skráðra sæðinga

Metþátttaka var í sauðfjársæðingum nú í desember. Þann 9. janúar var búið að skr...

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður
Fréttir 27. janúar 2026

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður

Anna Guðrún Þórðardóttir kynnti í haust frumniðurstöður úr doktorsverkefninu Erf...

Þari í sauðakjöt, krydd og kex
Fréttir 27. janúar 2026

Þari í sauðakjöt, krydd og kex

Nýtt frækex, unnið úr íslenskum þara, er komið á innlendan markað.