Fjárstuðningur skilar árangri í kornrækt
Fréttir 11. nóvember 2024

Fjárstuðningur skilar árangri í kornrækt

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir og Steinunn Ásmundsdóttir

Erfðarannsóknir í íslenskri kornrækt sækja í sig veðrið um þessar mundir, ekki síst fyrir tilstuðlan nýlegs ríkisstyrks sem á að renna stoðum undir kornrækt í landinu.

Á alþjóðlegri byggerfðafræðiráðstefnu, sem haldin var í Argentínu í októberlok, vakti framlag íslenskra vísindamanna frá Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) talsverða athygli. Á ráðstefnunni, sem haldin hefur verið reglulega í hálfa öld, koma saman helstu byggerfðafræðingar heims. Þar eru kynntar nýjustu niðurstöður rannsókna og vísindafólk ber saman bækur sínar.

Meginframlag Íslands á ráðstefnunni var kynning á frumniðurstöðum rannsóknarverkefnisins „Erfðaleg aðlögun byggs að krefjandi umhverfisaðstæðum“ sem styrkt er af Rannsóknasjóði. Egill Gautason, lektor við LbhÍ, stýrir verkefninu en að því koma Anna G. Þórðardóttir doktorsnemi, Gunnhildur Gísladóttir, aðstoðarmaður í rannsóknum, og einnig Hrannar S. Hilmarsson, tilraunastjóri LbhÍ. Anna flutti fyrirlestur á ráðstefnunni, sem telst mikill heiður, og vakti hann mikla athygli. Þá var Gunnhildur með veggspjald tengt sínu verkefni og Egill kynnti aðferðafræði og rannsóknir í tengslum við kynbótaspár í plöntukynbótaverkefninu Völu.

Áhugi á íslensku rannsóknunum

Íslenski hópurinn sagði greinilegt að erfðamengjaúrval væri að ryðja sér til rúms í byggkynbótum og skýr merki um það á ráðstefnunni að æ fleiri vísindamenn og kynbótafyrirtæki eru að færa athygli sína af einstökum genum yfir á kynbótaspár sem byggja á erfðagreiningum. Ísland sé að taka þátt í þeim straumhvörfum.

Erlendir kynbótafræðingar voru áhugasamir um samstarf við Ísland í kynbótum, og að prófa sínar kynbótalínur og yrki á Íslandi.Verkefnið sem Anna kynnti í Argentínu byggir á grunni langs samstarfs milli Íslands og Svíþjóðar fyrir tilstuðlan Þorsteins Tómassonar, sérstaklega þó milli Jónatans Hermannssonar og sænska kynbótafræðingsins Lars Gradin, um byggtilraunir í báðum löndum á sænsku og íslensku byggi, víxlunum og gerð nýrra einstaklinga. Segja má að úr hafi sprottið stórmerkileg gagnasöfn beggja vegna ála og verkefnið ekki síst að sameina þau.

Það sem vakti mesta athygli er að notaðar eru í verkefninu aðferðir dýrakynbóta í plöntukynbótunum. „Við erum að kynna til leiks aðferðir til plöntukynbóta sem eru kannski þekktari í dýrakynbótum. Það vekur athygli að bakgrunnur minn er í dýrakynbótum og að ég noti þá aðferðafræði við plöntukynbætur. Hún virðist alveg hugsanlega geta virkað og er spennandi. Þótt aðferðin hafi verið þekkt í mörg ár er hér verið að beita henni á nýjan hátt,“ segir hún.

Aðferðin gagnist til að prófa sama einstakling í tveimur löndum og fá skýra mynd af hversu mikil áhrif ræktunarskilyrði í hvoru landi hafa. Markmiðið sé að leita eftir einstaklingum sem skili meiri uppskeru við íslenskar aðstæður en sænskar.

Áherslubreytingar í kynbótastarfi

Kynning Gunnhildar var á frumniðurstöðum úr mastersverkefni sem hófst í haust. Hún skoðar sérstaklega uppruna íslenska byggsins, hversu blandaður stofninn er við aðra stofna og hvernig hann hefur aðlagað sig að íslenskum aðstæðum. Hún upplýsir að nokkrar breytingar séu að verða á áherslum í kynbótastarfinu. „Við erum komin á kjörstað með flýti og erum að fara að leggja meiri áherslu á að rækta frekar fyrir eiginleikum sem snúa að gæðum kornsins. Úrval fyrir flýti með áherslu á skriðdag virðist hafa skilað miklum árangri, en nú teljum við að stofninn sé nálægt kjörgildi þegar kemur að skriðdegi. Frekara kynbótastarf mun snúa að því að auka uppskeru, rúmþyngd og þroska,“ útskýrir Gunnhildur. Mikill áhugi erlendra vísindamanna sé á starfinu.

Stuðningurinn skiptir sköpum

Egill segir ótvírætt að styrkur matvælaráðuneytisins til eflingar kornræktar hafi skilað árangri.

„Það stærsta er náttúrlega að kynbæturnar séu fjármagnaðar. Nú er hópur fólks að vinna í kynbótum, sem breytir miklu.“

Hvað varði stuðning matvælaráðuneytisins við kornrækt hafi fjárfestingarstuðningurinn sem var greiddur út í sumar, og mikil ásókn var í, skilað sér í stóraukinni þurrkgetu í landinu, með uppbyggingu í Eyjafirði, Þingeyjarsýslu, á Flatey í A-Skaftafellssýslu svo dæmi séu tekin. „Ég held að það muni alveg skipta sköpum að auka þurrkgetu og geymslugetu með sílóum. Þegar fram líða stundir geri ég ráð fyrir að verði fjárfest í flutningsgetu, sem sagt vögnum til að flytja korn til þessara stöðva og til kaupenda. Þetta er gríðarlega jákvætt, þessi útkoma sem er strax búin að raungerast á þessum skamma tíma. Bændur voru líka tilbúnir til að bregðast við. Það er augljóst hvað þeir voru snöggir að fara í þessa uppbyggingu,“ segir Egill.

Samtal við fagráð bænda

Hrannar situr í stýrinefnd um útgáfu yrkja, nöfn þeirra og kynbótamarkmið.

„Eins og er eru þrír eiginleikar sem við kynbætum fyrir,“ útskýrir hann. „Það er uppskera, þurrefni við skurð og rúmþyngd. Þessir eiginleikar eru allir hagrænir fyrir bændur og skipta þess vegna miklu máli. Þrátt fyrir að þetta séu aðeins þessir þrír eiginleikar erum við að safna gögnum um margfalt fleiri eiginleika sem við getum bætt við kynbótamarkmiðin hvenær sem er. Það getur t.d. verið stráhæð eða hálm- magn, strástyrkur eða sjúkdómsþol. Hvenær og hvort eigi að bæta þessu við kynbótamarkmiðin þyrfti að gerast í samtali við bændur. Sem eru svo á endanum þeir sem rækta kornið. Það væri augljós ávinningur af því að koma upp formlegu samtali við
ræktendur,“ segir hann.

Meiningin sé að hefja samtal við fagráð bænda um markmiðin, enda forgangsatriði að gæta hagsmuna þeirra.

Uppskera að aukast á Íslandi

Athygli vekur að uppskera er að aukast á Íslandi, en víða er uppskera að dragast saman vegna loftslagsbreytinga. Þá er uppskera byggs á Íslandi ekki lítil í samanburði við mörg lönd, t.d. Vestur- Ástralíu. Bygguppskera á Íslandi er í kringum 3 tonn að meðaltali og hefur farið hækkandi. Hún er sambærileg meðaltalsuppskeru í heiminum.

Í ljós kemur að íslenskir bændur nota nú langmest af íslensku yrkjunum Kríu og Smyrli. Hrannar segir augljóst að þau komi betur út en erlend yrki, m.a. í þeim veðurfarslegu aðstæðum sem voru sl. sumar. Ekki liggur enn fyrir hver kornuppskera ársins var.

Skylt efni: kornrækt

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...

Skipuleggja lóðir fyrir súrefnisframleiðslu
Fréttir 29. nóvember 2024

Skipuleggja lóðir fyrir súrefnisframleiðslu

Sveitarfélagið Ölfus hefur auglýst nýtt deiliskipulag fyrir lóðina Laxabraut 31 ...

Kjúklingar aftur í Grindavík
Fréttir 29. nóvember 2024

Kjúklingar aftur í Grindavík

Reykjagarður hf. hefur endurvakið kjúklingarækt í Grindavík eftir ellefu mánaða ...