Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Einar E. Einarsson, bóndi að Syðra-Skörðugili og formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda.
Einar E. Einarsson, bóndi að Syðra-Skörðugili og formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda.
Fréttir 13. desember 2018

Fimm minkabændur hættir frá því í nóvember

Höfundur: Vilmundur Hansen

Verð á minkaskinnum hefur verið lágt undanfarin þrjú ár, en árið í ár var verst þar sem söluverðið náði ekki nema um helmingi þess verðs sem kostar að framleiða hvert skinn. Verðfallið er minkabændum erfitt. Fimm minkabændur eru hættir frá því í nóvember og líklegt að fleiri bregði búi á næstu vikum.

Einar E. Einarsson, bóndi að Syðra-Skörðugili og formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda, segir að minkarækt hér á landi hafi verið rekin með tapi undanfarin þrjú ár og að slíkt gangi ekki til lengdar.
„Frá því í nóvember til dagsins í dag hafa fimm loðdýrabændur brugðið búi. Við erum þrettán eftir og nokkrir af þeim enn að hugsa sig um hvort þeir eigi að þrauka áfram eða hætta.“

Á árunum 1987 til 1989, þegar loðdýrabændur á Íslandi voru flestir,  voru þeir 240. Sé litið til fjölda þeirra eftir aldamótin 2000 hafa þeir flestir verið 45.

Erfiðir tímar

Einar er ómyrkur í máli í bréfi sem hann sendi félagsmönnum SÍL fyrir skömmu. Í bréfinu segir hann meðal annars: „Þetta eru ekki léttir né einfaldir tímar fyrir minkabændur á Íslandi og eða minkabændur í öðrum löndum. Við höfum ekkert handfast um hvað muni gerast á mörkuðum næstu mánuðina en allar fréttir sem berast eru þó samhljóma um að verulega sé að draga úr framleiðslunni um allan heim. Við vitum að það þarf að gerast svo verðið á markaði hækki. Frá því í júní og til dagsins í dag hefur íslenska krónan lækkað um tæp 12% og vonandi á hún eftir að lækka um nokkur stig í viðbót á komandi mánuðum. Bjartsýni og þol hefur lengi verið einkenni minkabænda og vona ég að svo verði áfram.“

Viðleitni til að leysa vandann

Einar segir að það sé komið ákveðið útspil frá ríkisvaldinu sem er fremur lágt miðað við það sem minkabændur fóru fram á en engu að síður viðleitni til að horfa fram á við og finna leiðir til að halda áfram. Einar segir að á fyrri hluta þessa árs hafi verið ákveðið að fara í viðræður við stjórnvöld um aðkomu þeirra að vanda greinarinnar.

„Fyrst var farið af stað með hugmyndir um fóðurniðurgreiðslu eins og gert var á tíunda áratug síðustu aldar. En að afloknu júníuppboði var hins vegar orðið ljóst að samningur um einfalda fóðurniðurgreiðslu yrði ekki nægjanlegur þar sem allt stefni í að skinnaverð ársins yrði nálægt þrjú þúsund krónum sem síðan varð raunin að afloknu septemberuppboði.

Í ágúst kom út minnisblað frá Byggðastofnun um stöðu og horfur í greininni ásamt tillögum til úrbóta. Síðan þá hefur stjórn SÍL unnið að því að fá fylgi við þessar tillögur og sérstaklega þann hluta þeirra sem miðaðist við að gerður yrði þriggja ára samningur við greinina og að á fyrsta ári, eða árið 2018, yrði greitt beint til bænda ákveðinn stuðningur og síðan yrði stuðningur til fóðurframleiðslunnar árin 2019 og 2020. Nú liggur orðið fyrir að þessi hugmyndafræði gekk ekki eftir og að ekki er vilji hjá fjárveitingarvaldinu til að fara í svo stóran pakka, en ýtrustu kröfur í skýrslunni gerðu ráð fyrir 200 milljónum á ári í þessi þrjú ár, eða samtals 600 milljónir á tímabilinu þar sem helmingur færi til bænda og helmingur til fóðurstöðva.“

Samþykkt Byggðastofnunar

Í fjárlögum fyrir þriðju umræðu Alþingis kom fram tillaga um 30 milljóna tímabundið framlag til Byggðastofnunar vegna vanda greinarinnar. Jafnframt var þar lagt til að ráðherrar byggðamála og landbúnaðarmála hafi forustu um frekari greiningu á framtíð loðdýraræktar. 

Að sögn Einars var málið tekið fyrir í stjórn Byggðastofnunar í síðustu viku en þá lá þar einnig fyrir stjórn bréf frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og þær tillögur sem sveitarstjórnaráðherra og landbúnaðarráðherra hafa samþykkt og kynnt ríkisstjórn. Í ljósi þeirra tillagna samþykkti stjórn Byggðastofnunar á fundi sínum að hefja vinnu við stofnun nýs lánaflokks og að í fyrsta áfanga verði varið að lágmarki 100 milljónum til hans. 

Einar segir að framundan sé vinna við skilgreiningu og kröfur til nýja lánaflokksins en að henni eiga að koma auk fulltrúa Byggðastofnunar, fulltrúi ráðuneytis, SÍL og RML. 

Hver og einn bóndi þarf svo að sækja um stuðning og verður hver og einn metinn samkvæmt skilmálum og markmiðum lánaflokksins. Það er því ekki sjálfgefið að þessi leið bjargi öllum sem sækja um, að sögn Einars.

Hvað er fram undan?

„Næstu skref verða að fá niðurstöðu í hvað þessi nýi lánaflokkur muni hjálpa mikið, en vonandi mun hann nýtast þannig að hann hjálpi greininni að lifa af. Vissulega hefðum við viljað niðurstöðu sem væri meira í þá átt að gerður hefði verið þriggja ára samningur um stuðning við greinina. Þetta varð hins vegar niðurstaðan og nú vinnum við út frá því.

Í bréfi ráðuneytisins kemur líka fram að koma eigi á fót sérstöku teymi til að vinna með hagsmunaaðilum og greina framtíðarhorfur greinarinnar. Það er jákvætt og vissulega er einnig mjög jákvætt að ríkisvaldið hafi þó þrátt fyrir allt komist að þeirri niðurstöðu að þeir vildu að á Íslandi yrði stunduð áfram minkarækt. Við höldum því áfram á næstu vikum og mánuðum að vinna með stjórnvöldum að uppbyggingu greinarinnar og vonandi fara að taka við betri tímar en verið hafa,“ sagði Einar að lokum.

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...

Nýr stjórnarformaður
Fréttir 6. desember 2023

Nýr stjórnarformaður

Daði Guðjónsson er nýr stjórnarformaður markaðsstofunnar Icelandic Lamb, sem fer...

Margir fengu vel í soðið
Fréttir 6. desember 2023

Margir fengu vel í soðið

Útlit er fyrir að rjúpnaveiði hafi í ár verið allt að 20% meiri en í fyrra. Meða...

Sala á 3.357 ærgildum
Fréttir 5. desember 2023

Sala á 3.357 ærgildum

Á innlausnarmarkaði með greiðslumark í sauðfé, sem haldinn var 15. nóvember, bár...

Sæðingar verða niðurgreiddar
Fréttir 5. desember 2023

Sæðingar verða niðurgreiddar

Sæðingar verða niðurgreiddar til að innleiða verndandi arfgerðir gegn riðu.

Íslenskir verðlaunahestar í útlöndum
Fréttir 4. desember 2023

Íslenskir verðlaunahestar í útlöndum

Sjö stóðhestar, fæddir á Íslandi en staðsettir erlendis, uppfylltu viðurkenningu...

Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum
Fréttir 4. desember 2023

Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum

Bændasamtök Íslands senda frá sér í næstu viku aðgerðaráætlun með umfjöllun um a...

Heitt vatn finnst á Ströndum
Fréttir 1. desember 2023

Heitt vatn finnst á Ströndum

Heitt vatn fannst nýlega við borun á Drangsnesi á Ströndum.