Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Ekki tekst að ljúka verkinu þó mikið hafi áunnist
Mynd / Skógræktarfélag Eyfirðinga
Fréttir 2. september 2020

Ekki tekst að ljúka verkinu þó mikið hafi áunnist

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

„Við tileinkum afmælisárið spor­göngu­fólkinu sem bjó til skógar­­auðlindina sem við njótum góðs af. Það er gaman að líta yfir farinn veg og í rauninni er það stór­­merkilegt að hafa í farteskinu 90 ára skógræktarsögu,“ segir Ingólfur Jóhanns­son, framkvæmdastjóri Skóg­ræktarfélags Eyfirð­inga, en félagið fagnar í ár 90 ára afmæli sínu.

Það er elst starfandi skóg­ræktar­félaga hér á landi. Félagið var stofnað þann 11. maí 1930 og fyrstu verkefni fólust í að girða af skógarleifar í Eyjafirði, nánar tiltekið í Garðsárgili og í Leyningshólum. Á báðum þessum stöðum standa nú ræktarlegir yndisskógar „og gaman að sjá að þetta brölt frumherjanna var ekki til einskis unnið,“ segir hann.

Afmælisáform blásin af

Veisluhöld í tilefni þessa merkisáfanga í sögu félagsins bíða betri tíma en á vordögum, fyrir daga kórónuveiru, var búið að skipuleggja heilmikla dagskrá frá vori og fram eftir ári með fræðslufundum ýmiss konar og öðrum viðburðum. Slíkt var allt blásið af eftir að heimsfaraldur braust út og segir Ingólfur það vissulega leitt en við því ekkert að gera. „Það hefur heilmikið vatn til sjávar runnið frá því félagið hóf að planta til nýrra skóga,“ segir hann, en félagið er nú með alls 11 skógarreiti sem það ýmist á eða hefur umsjón með. Þeirra frægastur er Kjarnaskógur sem stendur við Akureyri, mikil útivistarparadís og lýðheilsumiðstöð.

Rekstur og viðhald útivistarsvæða

Stunduð var umfangsmikil plöntu­framleiðsla um árabil, margar trjátegundir og kvæmi voru ræktuð á vegum SE og byggðist upp mikil þekking bæði varðandi ræktunartækni og ekki síður hvaða efniviður hentar til ræktunar á okkar harðbýla landi. „Það voru upplýsingar sem ekki lágu fyrir þegar Íslendingar hófu að klæða landið á ný fyrir miðja síðustu öld og það eru upplýsingar sem við sem stundum skógrækt núna byggjum okkar starf á,“ segir Ingólfur. Nú snúist dagleg störf á vegum félagsins, auk þess að miðla þekkingu og vera sýnileg í samfélaginu, að stórum hluta um rekstur og viðhald útivistarsvæða í skógum félagsins sem hundruð þúsunda gesta heimsækja árlega og nýta sér góða veðrið í skóginum til heilsubótar á sál og líkama.

Ingólfur bendir á að útivist, lýðheilsa, ferðamennska, kolefnis­binding og ýmislegt fleira séu allt skógarafurðir ekki síður en hin hefðbundna timburauðlind, „og við reynum að rækta þær allar“.

Fjöldi ungmenna hefur lagt hönd á plóg við að hreinsa brotin tré út úr skógunum. Hér eru þau að störfum í Hánefsstaðaskógi og Kjarnaskógi.

Vinnufúsar hendur lyftu grettistaki

Skógarreitir í Eyjafirði komu mjög illa undan sérlega snjóþungum vetri og hefur nánast allt sumarið farið í tiltekt. Mikið hefur áunnist en verkinu er ekki lokið. „Það er ljóst að okkur endist ekki árið til að ljúka tiltekt eftir brot og braml vetrarins. En við höfum unnið hörðum höndum að því verkefni og vissulega komin vel áleiðis,“ segir Ingólfur.

Aðgangur að vinnuafli var nú í sumar auðveldari en oft áður, stór hópur ungs fólks, frá 18 til 27 ára, allt að 40 manns, hafi unnið sumarlangt hjá félaginu og í raun lyft grettistaki í hirðingu bæði í Kjarnaskógi og fleiri skógum félagsins. „Án þeirra vinnufúsu handa væri ástandið mun verra,“ segir hann. Ungmennin komu til starfa með stuðningi bæði frá ríki og sveitarfélagi. Grisjunarvinna hefur staðið yfir undanfarnar vikur í hinum ýmsu reitum félagsins, m.a. í Kjarnaskógi, Vaðlareit, Leyn­ings­hólum og Hánefsstöðum í Svarfaðardal.

Nýta efni upp í kostnað

„Við höfum verið að saga brotin og beygluð tré, hreinsa og snyrta af miklu kappi frá því í vor,“ segir Ingólfur en dagleg störf snúist að miklu leyti um viðhald skóganna. Reynt er að nýta allt efni sem til fellur, það fer í kurl, eldivið og borðvið til að hafa upp í kostnað við vinnuna, en hann er sérlega mikill nú í sumar.“

Ingólfur segir að æ fleiri leggi leið sína í skógana. „Við tökum eftir því að gestir nýta skógana í auknum mæli nú á þessum viðsjárverðu veirutímum, það dylst engum að aðsóknin fer ört vaxandi og hér njóta fjölmargir útivistar alla daga,“ segir Ingólfur. Hann segir ekki óvarlegt að áætla að um 3–400 þúsund manns komi í Kjarnaskóg árlega.

Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Reisa nýtt geymsluhús

Ingólfur segir að hreinsunarstörf hafi einkennt sumarið og á meðan hafi önnur störf aðeins setið á hakanum. Fram undan séu því fjölmörg verkefni sem hugað verði að á næstunni. Meðal þess er að endurnýja leiksvæði og þróa þau, halda áfram að bæta og laga m.a. stígakerfi í Kjarnaskógi og merkingar sömuleiðis. „Það eru fjölmörg verkefni sem við hreinlega komumst ekki í, en stefnum á að hefjast handa við innan skamms,“ segir hann.

Eitt þeirra verkefna sem byrjað verður á innan tíðar er að reisa nýtt 150 fermetra hús á athafnasvæðinu í Kjarnaskógi en þar á meðal annars að geyma tæki og búnað í eigu félagsins, jólatré og ýmislegt sem þarf að vera í skjóli fyrir veðri og vindum. „Við byrjun núna í haust og vonumst til að klára í desember,“ segir Ingólfur.

Samson B. Harðarson, sjálfboðaliði að störfum fyrir SE í Vaðlareit.

Skylt efni: Skógrækt

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar
Fréttir 26. september 2023

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar

25 af 33 eyfirskum bændum sem spurðir voru, sögðu að þeir myndu myndu nýta sér k...

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru
Fréttir 25. september 2023

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru

Lífræni dagurinn var haldinn hátíðlegur víðs vegar um landið laugardaginn 16. se...

Ágúst verður forstöðumaður
Fréttir 25. september 2023

Ágúst verður forstöðumaður

Ágúst Sigurðsson hefur verið skipaður forstöðumaður Lands og skógar, nýrrar stof...

Skeljungur kaupir Búvís
Fréttir 25. september 2023

Skeljungur kaupir Búvís

Samningar hafa tekist um kaup Skeljungs á öllu hlutafé í Búvís. Bæði fyrirtækin ...

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins
Fréttir 22. september 2023

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins

Heimildamyndin Konungur fjallanna var frumsýnd 12. september í Bíóhúsinu á Selfo...

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi
Fréttir 22. september 2023

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi

Nú í haust verða íslenskar sauðfjárafurðir af vel grónu og sjálfbæru beitilandi ...

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum
Fréttir 21. september 2023

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum

Laugardaginn 2. september var réttað í Ljárskógarétt í Dölum, rétt norðan Búðard...

Landbúnaður í fjárlögum  ársins 2024
Fréttir 21. september 2023

Landbúnaður í fjárlögum ársins 2024

Í síðustu viku kynnti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fjárlagafrumvarp sitt...