Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Horft yfir Trékyllisvík. Frá Vinstri er Bær, Finnbogastaðir og Árnes.
Horft yfir Trékyllisvík. Frá Vinstri er Bær, Finnbogastaðir og Árnes.
Mynd / HKr.
Fréttir 22. mars 2016

Ekki héraðsbrestur, en þungt högg og alvarleg staða

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Þetta er auðvitað þungt högg fyrir lítið byggðarlag. Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni að hér sé yfirvofandi héraðsbrestur, en staðan er alvarleg engu að síður,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti í Árneshreppi á Ströndum og hótelstýri á Hótel Djúpavík. 
 
Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti. 
Ábúendur á þremur bæjum í Árneshreppi hyggjast bregða búi næsta haust, Bæ, Finnbogastöðum og Krossnesi. Alls verða eftir í hreppnum tíu bæir þar sem stundaður er sauðfjárbúskapur.
 
Vona að aðrir taki við keflinu
 
Eva segir að því verði ekki á móti mælt að fjárbúskapur sé á undanhaldi á Ströndum, það sé miður því í héraðinu sé kjörlendi til að stunda búskap af því tagi. 
 
„Við höldum að sjálfsögðu í vonina um að búskapur leggist ekki af á þessum jörðum, það er ekki loku fyrir það skotið að aðrir sjái tækifæri og taki við keflinu. Það eru margar ástæður fyrir því að fólk hættir í búskap, það þarf ákveðna köllun til að stunda sauðfjárbúskap, sumir eru í greininni skamma stund en breyta svo til, snúa sér að öðrum viðfangsefnum.  Við erum auðvitað í lengstu lög að vona að hér geti þrifist öflugur sauðfjárbúskapur, í þessu góða héraði sem hentar vel til slíks,“ segir Eva.
 
Útgerð og virkjunarframkvæmdir
 
Hún segir að í Árneshreppi, sem vissulega sé fámennur, sé engu að síður ríkjandi þokkaleg bjartsýni og eitt og annað sem gefi tilefni til þess. Umtalsverð trilluútgerð sé að sumarlagi í hreppnum og framkvæmdir hafa í vetur staðið yfir við höfnina í Norðurfirði. Þar er verið að koma upp nýrri flotbryggju og stefnt að því að hún verið tilbúin með vorinu.  Eins bindi íbúar miklar vonir við Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði, en fyrirtækin HS-Orka og Vesturverk eru í startholum varðandi framkvæmdir. Áætlanir geri ráð fyrir að reist verði virkjun í Hvalá, þrjú miðlunarlón gerð á Ófeigsstaðaheiði og vatn leitt í aðrennslisgöngum í stöðvarhús. Stærð virkjunarinnar er samkvæmt áætlun um 37 MW og virkjunin gæti framleitt um 240 Gwh af orku á ári. Stefnt er að því að hefja vegagerð í tengslum við framkvæmdir nú í sumar.
 
Æ fleiri leggja leið sína á Strandir
 
Þá nefnir Eva að í Árneshreppi sé rekin öflug ferðaþjónusta, hótel er rekið í Djúpavík og veitingastaður og þá sé annar slíkur í Norðurfirði. 
 
„Við stöndum okkur ágætlega í ferðaþjónustunni hér á svæðinu og það er vaxandi straumur ferðafólks hingað á svæðið. Þetta landsvæði er afskekkt og samgöngur hafa fram til þessa ekki verið eins og best verður á kosið. Í þeim efnum horfir til betri vegar og því fögnum við. Hér voru framan af harla fáir á ferli, en þar hefur breyting orðið á, æ fleiri ferðamenn leggja leið sína til okkar enda hafa menn uppgötvað hvað landsvæðið hefur upp á að bjóða,“ segir Eva.  
 
Batnandi vegir, einkum sunnan við Djúpavík, hafa þar sitt að segja, það gerir að verkum að skemmri tíma tekur að aka á svæðið og því fleiri sem leggja í hann. Aðalfyrirstaðan er að sögn Evu vegurinn um Veiðileysuhóla. Þá hafa menn bent á að yfir veturinn er ekki mokað í tæpa þrjá mánuði, frá 5. janúar til 20. mars, sem vitanlega sé ekki gott. Í hlýindunum liðna daga hefur mikinn snjó tekið upp á Ströndum og  vor er í lofti.
 
Sumarið lofar góðu
 
Komandi sumar lofar góðu í ferðaþjónustunni en Eva segir að nú þegar sé mikið búið að bóka í gistingu á Djúpavík. 
 
„Það er um það bil 75% af okkar plássi þegar bókað yfir sumarmánuðina og pantanir fyrir sumarið 2017 streyma inn,“ segir hún. En bætir við að langur vegur sé frá að Strandir séu að yfirfyllast af ferðalöngum líkt og dæmi séu um annars staðar frá.
 
„Við erum alls ekki komin á það stig að þurfa að beita hér ítölu,“ segir Eva á léttu nótunum. Hún bendir einnig á að með batnandi vegum verði hægt að lengja ferðamannatímann.
 
Á liðnum vetri voru í boði sleðaferðir, en samvinna var um þær milli Djúpavíkurfólks og feðga á Hólmavík. Þær tókust vel og var almenn ánægja meðal þátttakenda. Eva segir að ýmsir möguleikar séu fyrir hendi til að efla ferðaþjónustuna á svæðinu á tímum sem áður voru lítið nýttir og það séu menn að skoða.
 
Ekkert í veröldinni er útilokað
 
„Við reynum auðvitað að halda í bjartsýnina og benda á að sóknarfærin eru til staðar. En það má alls ekki túlka orð mín svo að ég sé algjörlega áhyggjulaus yfir því að fólk sé að flytja á brott úr hreppnum, það er mjög leiðinlegt og alls ekki gott í fámennu sveitarfélagi. Ekkert í veröldinni er þó útilokað og við vonum auðvitað fram á síðasta dag að aðrir sjái hér möguleika. Það er stundum talað um að erfitt sé fyrir fólk að koma sér inn í bændastréttina, að það sé nánast ógerningur, en ef við breytum okkar viðhorfi og horfum á búskapinn sem hvert annað fyrirtæki sem fólk tekur lán fyrir að komast inn í ætti það að vera hægt. Í þéttbýlinu taka menn stór lán til að kaupa fyrirtæki og þykir ekki tiltökumál,“ segir Eva.

2 myndir:

Tollkvótum úthlutað
Fréttir 30. maí 2024

Tollkvótum úthlutað

Verð á tollkvótum á nautakjöti frá ESB-löndum hefur hækkað aftur.

Aðeins þrjú fyrirtæki hefðu fengið undanþágu
Fréttir 30. maí 2024

Aðeins þrjú fyrirtæki hefðu fengið undanþágu

Formaður atvinnuveganefndar Alþingis segir grein forstjóra Samkeppniseftirlitsin...

Margrét Ágústa nýr framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands
Fréttir 30. maí 2024

Margrét Ágústa nýr framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands

Margrét Ágústa Sigurðardóttir hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra Bændasa...

Stórtjón á túnum við Eyjafjörð
Fréttir 30. maí 2024

Stórtjón á túnum við Eyjafjörð

Miklar kalskemmdir eru í túnum nokkuð víða við Eyjafjörð. Í Svarfaðardal er ásta...

Styrkja vöruþróun út frá matarhefð
Fréttir 29. maí 2024

Styrkja vöruþróun út frá matarhefð

Tíu milljónum króna var fyrir skemmstu úthlutað af innviðaráðuneytinu til verkef...

Afhending Kuðungsins
Fréttir 28. maí 2024

Afhending Kuðungsins

Sorpa og Bambahús eru handhafar Kuðungsins árið 2024.

Leyfa gas- og jarðgerð úr matarafgöngum
Fréttir 28. maí 2024

Leyfa gas- og jarðgerð úr matarafgöngum

Matvælastofnun hefur nýlega tilkynnt um að Gas- og jarðgerðarstöð Sorpu (GAJA) h...

Heimaframleiðsla lögleg
Fréttir 28. maí 2024

Heimaframleiðsla lögleg

Heimaframleiðsla nefnist umgjörð sem sköpuð var til að heimila litlum aðilum í F...