Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Ekki féhirðir annarra
Fréttir 23. mars 2023

Ekki féhirðir annarra

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Þórarinn Skúlason og Guðfinna Guðnadóttir, bændur á Steindórsstöðum, eru á meðal landeigenda sem stóðu á bak við auglýsingu í síðasta tölublaði Bændablaðsins þar sem eigendum búfjár var bent á að ekki mætti beita búfé í löndum nokkurra jarða án leyfis. Þórarinn segist fullsaddur af því að vera „smalaþræll“ annarra.

Þórarinn Skúlason.

Í áðurnefndri auglýsingu kemur jafnframt fram að; „verði ágangur búfjár í eigu annarra en landeiganda í lönd jarðanna verður leitað atbeina sveitarstjórnar eða eftir atvikum lögreglu til að láta smala.“ Landeigendurnir að baki auglýsingunni eiga jarðir í Reykholts- dal og Hálsasveit í Borgarfirði.

„Þetta er þannig að ég á stórt land og menn sleppa öllu fénu á mig og svo krefjast þeir að ég smali því á haustin,“ segir Þórarinn, sem lagði til átta manns í göngur síðasta haust. Sjálf eiga hjónin nokkra tugi fjár og voru í kúabúskap á árum áður.

„Landið sem fylgir minni jörð er 2.900 hektarar,“ segir Þórarinn og liggur það að stærstum hluta á heiðarlandi milli Reykholtsdals og Flókadals og að sameiginlegum afrétt. „Ég borgaði á síðasta ári 80 þúsund til að halda úti afréttinum – bæði fjárgjöld og jarðargjöld – og mér finnst sjálfsagt að styðja það ef menn nota afréttinn, en ekki mitt land og mig sem smalaþræl.“

Enn fremur eiga Þórarinn og Guðfinna fjalllendi í sameign með sveitarfélaginu. „Fólk keypti jörð sem liggur að þessu sameiginlega fjalllendi. Það var svo ofboðslegur ágangur af fé af landinu að þau fóru fram á að við myndum girða. Við girtum fyrir tvær milljónir, ég og sveitarfélagið, vegna ágangsfjár annarra, þar á meðal frá ríkisbúinu Hesti. Þetta er ríkisfé og ég er ekki ríkisféhirðir,“ segir Þórarinn.

Andstætt gæðastýringu

Þeir sem nýta landið hans Þórarins eru þátttakendur í gæðastýringu í sauðfjárrækt. Hann segir að með því skuldbindi þeir sig til að beita fé sínu á land þar sem þeir mega hafa það. Þar vísar Þórarinn sérstaklega til fjórðu greinar gæðastýringarinnar þar sem segir að umsóknum skuli fylgja: „Skrifleg heimild til nýtingar lands þar sem framleiðandi fer ekki með heimild til nýtingar sem landeigandi eða ábúandi.“

Þórarinn segir að þetta snúist um samninga. Þeir sem beita fénu á hans landi sleppi sínum lömbum á vorin og fá þau fullvaxin að hausti. „Þú ert að fá allan arðinn úr landi annarra án leyfis. Ég geri engan greinarmun á landnytjum eða grasi, vatni; heitu eða köldu, silungapolli eða laxveiðiá. Ef húsið okkar er ólæst, er þá sjálfsagt að menn vaði í ísskápinn?“

Ef eigendur kindanna hefðu sinnt smalamennsku á sínu fé í upphafi segir Þórarinn að málið liti allt öðruvísi út núna. „Nú finnst mér menn vera búnir að standa svo lengi í þessum slag við mig að ég er ekki tilbúinn til að heimila beit nema að undangengnum samningum. Ég er búinn að standa í þessu í 30 ár og ég hef alltaf farið í smalamennskur.“

Snýst ekki um skógrækt

Málið snýst ekki um gróðurvernd eða skógrækt. „Þetta snýst um yfirgang,“ segir Þórarinn og bætir við að þeir sem stunda fyrirtækjarekstur skuli ekki gera út á eigur annarra.

„Ég vil ekki vera smalaþræll fyrir nágranna mína. Þrælahald á Íslandi er löngu bannað og vistarbandið er búið. Það verður allt vitlaust og ég verð sennilega kærður,“ segir Þórarinn aðspurður hvað muni gerast ef hann neiti að smala. „Ég ætla að láta reyna á það í haust. Ég á ekki það margar kindur að ég get haft þær allar í beitarhólfum hér heima.“

Skylt efni: lausaganga búfjár

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...