Eftirlitsnefnd vegna Hvammsvirkjunar
Sveitarstjórnir Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra hafa ákveðið að skipa eftirlitsnefnd sem skal fylgjast með framkvæmdum við Hvammsvirkjun.
Nefndin skal skipuð tveimur aðalmönnum frá hvoru sveitarfélagi og tveimur varamönnum. Mun hún starfa þar til öll skilyrði framkvæmdaleyfis hafa verið uppfyllt. Skipulagsfulltrúar og byggingarfulltrúar beggja sveitarfélaga, fulltrúi framkvæmdaaðila og fulltrúar annarra leyfisveitenda sitja fundi nefndarinnar þegar þurfa þykir.
Eftirlitsnefndin hefur, ásamt skipulagsfulltrúum beggja sveitarfélaganna, eftirlit með því að framkvæmdin sé í samræmi við leyfi og álit um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdaleyfið er bundið 17 skilyrðum sem koma fram í greinargerð sem liggur til grundvallar framkvæmdaleyfinu. Nefndin skal skila af sér skýrslu um framkvæmd eftirlitsins við lok hvers fyrirvara sem settur er vegna framkvæmdarinnar.
Sé settum skilyrðum ekki fullnægt, ásigkomulag, frágangi, notkun eða umhverfi framkvæmdar eða eigin eftirliti framkvæmdaaðila ábótavant eða stafi hætta af framkvæmdinni, skal eftirlitsnefndin tilkynna framkvæmdaaðila skriflega um og úrbóta krafist. Eftirlitsnefndin mun hafa forgöngu um að tryggja samráð við fulltrúa Veiðifélags Þjórsár. Framkvæmdaaðili ber allan kostnað af starfi nefndarinnar.