Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Eyvind Petersen býflugnafræðari.
Eyvind Petersen býflugnafræðari.
Fréttir 28. ágúst 2017

Býflugnaræktun aldrei mikilvægari en núna

Höfundur: Vilmundur Hansen

Ræktun býflugna hefur aldrei verið mikilvægari en nú þegar villtum býflugum fer hratt fækkandi í heiminum, segir Eyvind Petersen, fyrrverandi býflugnabóndinn, sem ferðast um heiminn til að fræða um býflugnarækt. Eyvind hefur margsinnis komið til Íslands en var núna að öllum líkindum í sinni síðustu heimsókn.

„Þörfin fyrir býflugur hefur aldrei verið meiri en núna,“ segir Eyvind Peterson, fyrrverandi býflugnabóndi á Nýja-Sjálandi. „Býflugur eru nauðsynlegar til að frjóvga margar nytja- og villiplöntur en því miður fer þeim fækkandi í náttúrunni og því nauðsynlegt að ala fyrir þeim önn og rækta þær.“

Býflugur sjá meðal annars um að frjóvga epli, perur, jarðarber og fjölda annarra ávaxta- og berjaplantna auk bómullar og fleiri nytjaplantna. Reyndar er talið að um þriðjungur allar nytjaplantna í heiminum séu frjóvgaðar af býflugum.

Dani sem flutti til Nýja-Sjálands

Eyvind er Dani sem flutti rúmlega tvítugur til Nýja-Sjálands. Hann og eiginkona hans, Nina, ræktuðu lengi býflugur sér til gaman en eftir að þau fóru á eftirlaun hófst ræktunin fyrir alvöru. Um tíma voru þau með hátt á annað hundrað bú sem hvert og eitt gaf af sér um hundrað kíló af hunangi. Að sögn Eyvind er mesta magn af hunangi sem þau fengu úr einu búi um 160 kíló.

Eyvind er 84 ára og að mestu hættur að sinna ræktinni en þess í stað ferðast hann um heiminn og kynnir og kennir býflugnarækt. Hann hefur nokkrum sinnum komið til Íslands. Blaðamaður Bændablaðsins hitti hann í síðustu heimsókn hans hér á landi í lok júlí síðastliðinn að Lambhaga þar sem hann var gestur Hafbergs Þórissonar garðyrkju­mógúls.

Frjóvgar hvítsmára

„Eftir að ég fækkaði búunum lagðist ég í ferðalög um heiminn til að kynna fyrir fólki og ekki síst bændum mikilvægi býflugna og ræktunar á þeim. Býflugur gefa ekki bara af sér hunang því þær sjá líka um að frjóvga blómplöntur. Í mínum huga er ein mikilvægasta plantan sem þær frjóvga fyrir hefðbundinn landbúnað hvítsmári, því eins og flestir vita bætir smári jarðveginn þar sem hann vex og er gott fóður. Ekki síst fyrir mjólkurkýr sem gefa af sér betri nyt sé þeim beitt á smára.“

Eyvind hefur undanfarin ár farið heimshorna á milli til að fræða um býflugnarækt. Hann hefur nokkrum sinnum komið til Íslands og ráðlagt áhugasömum um býflugnarækt. Í lok dvalar sinnar hér í júlí var hann á leiðinni til Danmerkur til að kynna boðskapinn.

Hugsjónastarf

„Satt best að segja lít ég á það sem hugsjónastarf eða köllun að ferðast um heiminn og kynna býflugnarækt. Allt sem ég geri er þeim sem þiggja aðstoð mína og hlusta á fyrirlestrana að kostnaðarlausu. Mér þykir gaman að fræða og hjálpa fólki að komast áfram með ræktunina.“

Eyvind hefur mikla trú á býflugnarækt á Íslandi. „Mín skoðun er að íslenskir bændur eigi að leggja stund á býflugnarækt í stórum stíl. Ekki endilega bara til að safna hunangi heldur líka til að auk frjóvgun á blómplöntum á landi sínu.“

Sjúkdómavarnir nauðsynlegar

„Líkt og í allri ræktun er mjög mikilvægt að halda býflugum sem aldar eru á Íslandi lausum við sjúkdóma og flytja eingöngu inn flugur frá sjúkdómalausum svæðum.

Það er gríðarlega dýrt komi upp sjúkdómar í flugunum og því fá býflugnabændur á Nýja-Sjálandi að kynnast annað slagið. Sjúkdómaeftirlit í landinu er strangt og komi upp sýking í búi er því og nærliggjandi búum umsvifalaust eytt.

Íslendingar flytja sínar flugur inn frá býlum á Álandseyjum sem eru laus við sjúkdóma. Utan við sunnanverða Ástralíu er eyja sem heitir Kangaroo-eyja og það er eini staðurinn fyrir utan Álandseyjar og Ísland sem ég veit að er að finna sjúkdómalausar býflugur.“

Kuldinn vandamál

Eyvind segist vita að kuldinn á Íslandi sé vandamál við ræktunina og að mörg bú drepist á veturna. „Ég held að Íslendingar eigi eftir að komast upp á lagið með að halda búunum lifandi allt árið því sumpart stafar dauði flugnanna af reynsluleysi ræktendanna,“ segir Eyvind Peterson býflugnahvíslari.

Skylt efni: býflugur | Eyvind Petersen

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...