Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Brostnar forsendur búvörusamninga
Fréttir 20. febrúar 2025

Brostnar forsendur búvörusamninga

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Mjólkursamsölunnar, segir að stórar spurningar vakni vegna áforma stjórnvalda um breytingu á tollflokkun á mjólkurosti með viðbættri jurtafitu, þannig að slíkar vörur falli í tollfrjálsan tollflokk.

Erna Bjarnadóttir.

„Það má leiða mjög sterk rök fyrir því að forsendur búvörusamninga bænda við hið opinbera séu brostnar,“ segir Erna og spyr hvort hér sé mögulega gengið þvert gegn markmiðum búvörulaga.

„Þá má nefna að við gerð viðskiptasamninga við Evrópusambandið um landbúnaðarafurðir leit ekki nokkur maður svo á að vörur eins og þessar, sem innihalda jafnvel 85–90 prósent mjólkurhráefni, gætu verið að koma tollfrjálsar til landsins. Allar forsendur búrvörusamninga og viðskiptasamninga um landbúnaðarvörur eru því gerbreyttar og má segja að séu brostnar,“ heldur Erna áfram.

Tvö mál um tollun pitsuosta

Þegar Erna er spurð frekar um þessi mál og meðferð þeirra fyrir íslenskum dómstólum á undanförnum árum, segir hún að eitt mál hafi verið höfðað árið 2021, sem vitnað sé til í áformunum með frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra.

„Það var höfðað af hálfu innflutningsaðila, sem taldi að hann ætti ekki að borga toll af ostinum Festino IQF Mozzarella Pizza Mix, í samræmi við bindandi álit Skattsins. En hann tapaði því máli fyrir héraðsdómi og Landsrétti, fékk ekki áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar og tapaði beiðni um endurupptöku þess fyrir Endurupptökudómi. Dæmt var í öðru máli af sama toga mánudaginn 17. febrúar síðastliðinn. Þar sem innflytjandinn reyndi á ný að hnekkja fyrri niðurstöðu dómstóla með því að krefjast ógildingar á öðru bindandi áliti Skattsins á sambærilegri vöru um tollflokkun á pitsuosti. Dómurinn féll á þann veg að íslenska ríkið var sýknað af kröfum Danól og fyrirtækið dæmt til að greiða 950.000 krónur í málskostnað.

Það sem vekur nokkra furðu er að hér eru boðuð áform um lagasetningu til að hnekkja niðurstöðum íslenskra dómstóla og það jafnvel meðan enn er tekist á fyrir dómstólum um mál af sambærilegum toga. Spyrja má hvort hér sé vegið að þrískiptingu valds á Íslandi sem kveðið er á um í annarri grein stjórnarskrárinnar,“ segir Erna

Ekki lagaleg skuldbinding

Félag atvinnurekenda (FA) fjallaði um þessi mál á vef sínum í kjölfar birtingar þingmálaskrárinnar og fagnaði frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra. Þar segir meðal annars að Evrópusambandið hafi í fyrsta sinn sett Ísland á lista yfir viðskiptahindranir, sem útflutningsfyrirtæki í ESB-ríkjum eru beitt í ríkjum utan sambandsins. Ástæðan sé ákvörðun Skattsins árið 2020, sem tekin hafi verið undir þrýstingi frá fjármálaráðuneytinu, Bændasamtökum Íslands og Mjólkursamsölunni, um að breyta tollflokkun á pitsuosti með íblandaðri jurtaolíu þannig að greiða ætti toll af slíkum vörum. Það hefði verið þvert gegn áliti starfsmanna tollstjóra hjá Skattinum. Með áformum um lagabreytingu nú verði tollflokkuninni breytt aftur til lögmæts horfs.

Erna segir að þarna sé fjallað um tollflokkun á pitsuosti á villandi hátt og litið fram hjá staðreyndum. „Danól ehf., félagsmaður FA, tapaði á öllum stigum mála – bæði í Héraðsdómi Reykjavíkur og Landsrétti. Hæstiréttur hafnaði áfrýjun og síðar hafnaði Endurupptökudómur beiðni um endurupptöku. Þrátt fyrir þetta heldur FA áfram að þrýsta á stjórnvöld að breyta tollflokkun í andstöðu við niðurstöður dómstóla.

FA fullyrðir að Ísland hafi verið sett á „viðskiptahindranalista ESB“ vegna ólögmætrar tollflokkunar, en þetta er einföldun. Noregur hefur verið á þessum lista allavega síðan 2012 án viðskiptalegra afleiðinga, og fjölmörg önnur lönd eru þar einnig. Þetta er fyrst og fremst pólitískt þrýstingsverkfæri ESB, ekki lagaleg skuldbinding.

Fullyrðing FA um að tollflokkunin hafi farið gegn áliti Skattsins stenst ekki. Skatturinn hefur aldrei gefið út annað bindandi álit en að pitsuosturinn eigi að flokkast í 4. kafla tollskrár, eins og íslenskir dómstólar hafa staðfest.

FA virðist frekar verja hagsmuni stórfyrirtækja ESB en íslenskra framleiðenda. Það væri fordæmalaust og hættulegt ef Ísland breytti tollflokkunum vegna erlends þrýstings í stað þess að fylgja eigin
lögum og dómstólum.“

Skylt efni: tollamál | Ostur

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...