Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra.
Fréttir 29. janúar 2016

Breytingarnar bændum og neytendum til hagsbóta

Höfundur: Vilmundur Hansen

Viðræður um nýja búvörusamninga hafa staðið um nokkurn tíma og að sögn Sigurðar Inga Jóhannssonar landbúnaðarráðherra gengur vinnan við þá ágætlega. Sigurður segir misskilning ef bændur halda að það að vinda ofan af kvótakerfinu, muni minnka tekjustreymi þeirra.

Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra sagði í samtali við Bændablaðið að staðan í samningunum sé sú að vinnunni við þá vindi ágætlega fram. „Samninganefnd bænda og yfirvalda hafa setið ótal fundi og vonandi fer að sjá fyrir endann á þessu. Það er mismunandi hversu langt samningar eru á veg komnir. Til dæmis verða litlar sem engar breytingar á starfsumhverfi garðyrkjubænda. En í kjötinu og mjólkinni eru fyrirhugaðar breytingar sem tekur lengri tíma að ná samstöðu um. Það er skiljanlegt að menn þurfi tíma til að átta sig á þeim breytingum sem stefnt er að, og rétt að flýta sér hægt í þeim efnum.“  

Allir vilja ganga frá samningnum

Þegar Sigurður er spurður hvort einhver tregða sé í samningsgerðinni og hvort illa gangi að ljúka þeim segist hann ekki telja að svo sé. „Nei, ég held að það sé ekki tregða, allir vilja ganga frá nýjum samningi. Það er eðlilegt að menn taki sér tíma þegar breytingar eru ræddar. Ég held þó að fullyrða megi að bændur verða ekki verr settir, þótt breytingar verði gerðar á fyrirkomulagi styrkja. Þvert á móti. Auk þess munu nýir peningar koma inn í samninginn, ef breytingarnar ná fram að ganga.  

Þær upphæðir hafa ekki verið klappaðar í stein, en breytingum á fyrirkomulagi styrkja munu fylgja nýir peningar, eins og ég sagði áðan. Mest í svokallaðan rammasamning (búnaðarlagasamning), en einnig í búgreinasamninga. Samanlagt gæti þetta verið um níu hundruð milljónir á ári, fyrstu ár samningsins.“

Órói vegna afnáms mjólkurkvótans

Sumir kúbændur eru ósáttir við að kvótinn verði lagður niður. Hræddir við offramleiðslu og verðlækkun í kjölfar hennar ef opinberri verð- og framleiðslustýringu verður hætt.

Sigurður segir að samkvæmt fyrirliggjandi drögum verði reynt að bregðast við aðstæðum hverju sinni.
„Til dæmis verður að finna ákvæði um endurskoðun 2019 og 2023. Því verður hægt að grípa inn í þróun mála, ef í óefni stefnir. Þá eru einnig uppi hugmyndir um að heimilt verði að færa á milli verkefna og með því móti er hægt að vega upp á móti offramleiðslu. En ég bendi á að það er ekki langt síðan að forsvarsmenn MS sáu mikla möguleika í útflutningi. En þá kláraðist smjörið og flytja varð það inn.

Það er þó rétt að í dag er staðan þrengri vegna aðstæðna á alþjóðlegum mörkuðum, meðal annars vegna innflutningsbanns Rússa. Stefnt er að því að gera samninga til tíu ára og þá er ekki hægt að taka punktstöðu eins og hún er í dag og gleyma að líta til framtíðar. Það kemur dagur eftir þennan dag og upplegg nýrra samninga er til sóknar, en ekki stöðnunar.“

Fá stuðning á annan hátt

Sigurður segir að það sé mikill misskilningur ef bændur halda að það að vinda ofan af kvótakerfinu verði til þess að tekjustreymi þeirra dragist saman. „Nýtt fyrirkomulag mun gera að verkum að menn fá stuðninginn áfram, en fyrir aðra hluti. Kúabóndi fær til dæmis hærri gripagreiðslur.

Ég bendi á, að milljarðar króna hafa farið út úr kerfinu, en ekki til bænda, þegar bændur hafa verið að kaupa sig inn í hið opinbera stuðningskerfi eins og það er uppbyggt núna. Þá ber að líta til þess að stigin verða mjög varfær skref í byrjun, og eins og áður sagði verða endurskoðunarákvæði í samningunum.“

Mikið fjármagn til fjármálastofnana

„Í nýlegri skýrslu Hagfræði­stofnunar Háskóla Íslands kemur fram að stór hluti af stuðningi við mjólkurframleiðslu renni til fjármálastofnana. Þar kemur einnig fram að bændur muni, miðað við óbreytt kerfi, njóta æ minni hluta stuðningsins.

Þessu verður að breyta, bændum til hagsbóta, og þar með einnig neytendum. Neytendur og skattgreiðendur munu hagnast, því aukið hagræði í mjólkurframleiðslu mun skila sér í lægra vöruverði og einnig hærri tekjum bænda.

Einnig er rétt að benda á að stuðningur við bændur hefur stórlækkað. Úr því að vera 5% af landsframleiðslu niður í 1% árið 2013. Þessi þróun mun halda áfram, en hún mun gerast hægt og örugglega, en ekki með kollsteypu. Nýjum samningum er ætlað að tryggja þessa aðlögun til hagsbóta fyrir alla,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra.

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...