Brautskráning frá Landbúnaðarháskóla Íslands
Þann 6. júní síðastliðinn brautskráðust nemendur frá Landbúnaðarháskóla Íslands við hátíðlega athöfn í Hjálmakletti í Borgarnesi.
Alls brautskráðust 34 búfræðingar og Kristín Ólafsdóttir hlaut þar verðlaun fyrir frábæran árangur á búfræðiprófi. Tíu nemendur brautskráðust úr búvísindum og einn úr hestfræði. Þrír nemendur brautskráðust úr landslagsarkitektúr, Maríanna Ósk Mikaelsdóttir var þar með hæstu einkunn nemenda skólans fyrir B.S. verkefni sitt sem fjallaði um náttúruperluna Kjarnaskóg og greiningu á þáttum sem stuðla að vinsældum útivistarsvæða.
Sex nemendur brautskráðust úr skógfræði og þar hlaut Salka Einarsdóttir sérstök verðlaun fyrir góðan árangur á B.S. prófi en hún hlaut hæstu meðaleinkunn útskrifaðra nemenda að þessu sinni eða 9,02.
Úr meistaranámi brautskráðust tíu nemendur úr skipulagsfræði, rannsóknarmiðuðu meistaranámi og umhverfisbreytingum á norðurslóðum.
Jafnframt luku tveir nemendur doktorsnámi, Heiðrún Sigurðardóttir úr búvísindum og Mathilde F. Marie Defourneaux úr náttúru- og umhverfisfræði.