Betri afkoma sauðfjárbúa
Hagstofan greindi frá því á vef sínum fyrir skemmstu að afkoman í sauðfjárræktinni hefði batnað mjög á árinu 2023 miðað við árið á undan.
Í gögnum Hagstofunnar kemur fram að hagnaður í greininni hefði aukist um 89 prósent á þessum tíma. Tekjurnar jukust á þessum tíma um fimm prósent, eða um 840 milljónir króna. Afkoman batnaði um 505 milljónir króna og munaði þar mest um bættari hag sauðfjárbúa á Norðurlandi eystra sem nam 317 milljónum króna.
Sauðfjárbúum fækkaði um 71
Aukinn fjármagnskostnaður var ein ástæða fyrir lakari afkomu hjá kúabúum á þessu tímabili. Öðru máli gegnir um sauðfjárbúin þar sem minni fjármagnskostnaður var samfara minni skuldsetningu.
Í yfirliti Hagstofunnar kemur fram að áfram heldur búum að fækka í landbúnaði og mest fækkar sauðfjárbúum á þessu tímabili, eða um 71.
Launaliðinn þarf líka að skoða
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) er sjálf með rekstrarverkefni um afkomu sauðfjárbænda og er von á niðurstöðum úr því fljótlega. Hagstofan metur afkomuna út frá ársreikningum og skattframtölum bænda sem berast ríkisskattstjóra.
Eyjólfur Ingvi Bjarnason, formaður sauðfjárdeildar Bændasamtaka Íslands, telur að almennt megi segja að gögn Hagstofunnar rími ágætlega við stöðu sauðfjárbænda þar sem afkoman hafi lagast talsvert á undanförnum árum. Þó þurfi að líta til annarra þátta svo marktækt mat fáist um stöðuna. „Það er vissulega hagnaður, en á móti þarf líka að skoða launaliðinn, hann er ekki hár né í samræmi við margar aðrar stéttir landsins. Af því leiðir að það er einfalt að reikna sér hagnað ef ekki eru reiknuð eðlileg laun fyrir það vinnuframlag sem er unnið,“ segir Eyjólfur.