Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Ný tegund af kögurvængju, echinotrips (Echinotrhips americanus), nam hér land fyrir nokkrum árum og virðist vera að breiðast út. Dvergmítlar eru einnig nýbúar hér og hafa sést í nokkrum garðyrkjustöðvum.
Ný tegund af kögurvængju, echinotrips (Echinotrhips americanus), nam hér land fyrir nokkrum árum og virðist vera að breiðast út. Dvergmítlar eru einnig nýbúar hér og hafa sést í nokkrum garðyrkjustöðvum.
Mynd / Aðsend
Fréttir 28. mars 2025

Amerísk kögurvængja og dvergmítill nýir landnemar

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Dvergmítlar og ný tegund kögurvængju eru nýlegir landnemar á Íslandi og geta valdið vandræðum í inniræktun.

Skordýr er sá flokkur dýra á jörðinni sem auðugastur er að tegundum. Hefur verið áætlað að um 75% núlifandi dýrategunda séu skordýr. Enn eru að finnast nýjar tegundir og sömuleiðis deyja tegundir út, enda lífríkið síbreytilegt. Loftslagsbreytingar hafa áhrif á landnám tegunda og sömuleiðis afföll og virðist sem ágeng og skaðleg skordýr sæki í sig veðrið.

Helgi Jóhannesson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, var inntur eftir hverjir væru helstu skaðvaldar í landbúnaði og ræktun á Íslandi nú um stundir. Hann segir að í útiræktun séu það aðallega kálfluga, en líka sniglar, ranabjalla, blaðlús og kálmölur sem sjáist hér af og til. „Í sumum árum hefur brandygla valdið miklum skaða en á afmörkuðum svæðum í gulrótaog rófuræktun. Gulrótarfluga sást hér fyrir allmörgum árum en hefur ekki gert vart við sig í ræktun síðan,“ segir Helgi. Í gróðurhúsum valdi spunamítlar, dvergmítlar, trips (kögurvængjur), nokkrar tegundir blaðlúsar, mjöllús, skjaldlús, ullarlús og ranabjalla einkum usla.

Mýflugur eru svo stundum til leiðinda þar sem þær geta haft áhrif á heilsu búfjár.

Varast verður innflutning skaðvalda

Ef hlýnar á Íslandi af völdum loftslagsbreytinga má búast við að nýjar skordýrategundir nemi hér land. Skemmst er að minnast lúsmýsins sem breiðst hefur um landið hin síðari ár og finnst nú víðast hvar.

Helgi segir að ný tegund af kögurvængju, echinotrips (Echinotrhips americanus), hafi numið land fyrir nokkrum árum og virðist vera að breiðast út. „Dvergmítlar eru einnig nýbúar hér og hafa sést í nokkrum garðyrkjustöðvum, þeir eru mjög smáir og erfitt að greina þá,“ bætir hann við.

Ágengum og skaðlegum skordýrategundum í landbúnaði er því að fjölga á Íslandi. „Við flytjum öðru hvoru eitthvað nýtt hingað inn og hitt hverfur ekki,“ segir hann. Það sé þó ekki víst að slíkt færist í aukana. „Þótt hitastig hækki og fleiri skaðvaldar geti athafnað sig hér þurfa þeir að komast hingað,“ útskýrir Helgi og heldur áfram: „Mikið veltur á því hvernig okkur tekst að koma í veg fyrir að þetta berist með innfluttum plöntum. Við flytjum talsvert inn af plöntum og blómum, eftirlit er takmarkað, og því líklegt að skaðvaldar berist í ræktun ef innfluttar plöntur komast í garðyrkjustöðvar.“

Vaxandi vandamál á meginlandinu

Þróun ágengra og skaðlegra skordýra í Evrópu er mismunandi eftir tegundum og svæðum, en á heildina litið virðast rannsóknir benda til að þeim hafi ekki fækkað. Nýjar ágengar tegundir halda áfram að greinast um alla Evrópu. Svo dæmi sé tekið greindist ágengasta tegund ávaxtaflugna (Bactrocera dorsalis) á Ítalíu árið 2018 og er útbreiðsla hennar verulegt áhyggjuefni, þar sem lirfa tegundarinnar veldur mjög miklum skaða í ávaxta- og matjurtarækt. Þá sækir asískur rángeitungur nú mjög í sig veðrið í Evrópu og drepur m.a. frjóbera.

Aðspurður um stöðu ágengra og skaðlegra skordýrum í Skandinavíu og Evrópu segir Helgi alltaf eitthvað nýtt koma upp af og til. „Vandamálin aukast frekar en hitt, bæði vegna nýrra tegunda og færri úrræða í varnarefnum. Við hér á Íslandi þurfum sem betur fer mjög lítið að úða gegn skordýrum utandyra, og með notkun á lífrænum vörnum í gróðurhúsum er lítið úðað þar líka, þannig að þau skordýr sem eru hér fyrir geta verið nokkuð óhult. Hins vegar er áhyggjuefni ef ný skordýr berast hingað sem annaðhvort raska jafnvægi í náttúrunni eða valda skaða í ræktun,“ segir hann enn fremur og minnir á að skordýr séu mikilvægur hluti vistkerfis jarðarinnar og þess vegna þurfum við leyfa þeim að búa hér með okkur.

Sem dæmi um skaðvalda sem valda usla í landbúnaði álfunnar eru blaðlús, kornormur, japansbjalla, kálormur og kóngulóarmaurar. Í Skandinavíu verður landbúnaður einkum fyrir skaða af kálfiðrildum, flóabjöllum, ranabjöllum og blaðlús.

Býflugur og aðrir frjóberar

Brynja Hrafnkelsdóttir, skordýrafræðingur hjá Landi og skógi, segir að mörgum tegundum frjóbera í Evrópu og Skandinavíu hafi fækkað mikið á undanförnum árum. „Þetta er mikið áhyggjuefni, meðal annars fyrir fæðuöryggi, því rannsóknir hafa sýnt að mikill meirihluti matjurta sem ræktaðar eru utandyra í Evrópu stólar á skordýr sem frjóbera. Helsta ástæða fyrir þessari fækkun er tap á búsvæðum þessara skordýra sökum breyttrar landnýtingar,“ útskýrir Brynja. Hún segir ástandið þó ekki jafn slæmt hérlendis miðað við sunnar í Evrópu.

„Til að mynda hefur sumum fiðrildastofnum fjölgað og nýjar tegundir bætast við en fiðrildi taka þátt í að frjóvga jurtir. Geitungar og humlur hafa þó átt nokkur erfið sumur sökum mikillar rigningar og lágs meðalhita. Veðurfar hefur mikil áhrif á þessar tegundir þar sem þær eiga erfitt með að vinna í vætu og kulda,“ segir Brynja. 

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...

Úthlutun í fyrsta sinn
Fréttir 28. nóvember 2025

Úthlutun í fyrsta sinn

Fyrsta úthlutun úr frumkvæðissjóðnum Fjársjóði fjalla og fjarða fór fram á dögun...