Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Alls staðar fækkun sláturlamba
Fréttir 21. september 2023

Alls staðar fækkun sláturlamba

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Sláturtíð er komin á fullt og kemur fé vænt af fjalli. Eins og er starfa öll sláturhúsin á fullum afköstum en allt bendir til áframhaldandi fækkunar sláturlamba eins og undanfarin haust.

Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðastöðva Kaupfélags Skagfirðinga (KS), segir dilkana vera nálægt hálfu kílói þyngri miðað við sama tíma í fyrra. Nú séu lömbin álíka væn og þau voru 2021, sem var sérstaklega gott ár. Staðan núna segi þó ekki til um hvernig meðalþunginn verði í lok sláturtíðar, því bændur sendi bestu lömbin oft fyrst.

Miðað við ásetningstölur gerir Ágúst ráð fyrir að sláturlömbum fækki um fjögur og hálft prósent á landsvísu. Það sé nálægt átján til tuttugu þúsund lömbum. Kaupfélag Skagfirðinga rekur sláturhúsin á Sauðárkróki og Hvammstanga, en saman slátra þessi hús rúmum þriðjungi lamba á landinu. Ágúst gerir því ráð fyrir að KS finni fyrir þessum samdrætti og áætlar samanlagða fækkun í báðum sláturhúsunum upp á sex til sjö þúsund. Á Sauðárkróki er 2.800 lömbum slátrað á dag, á meðan sláturhúsið á Hvammstanga tekur við 2.400 gripum daglega.

Fækkun hafi áhrif á reksturinn

KS byrjaði að slátra 11. september og er mesta pressan á sláturhúsin í upphafi sláturtíðar, þar sem greitt er álag fyrir lömb sem slátrað er snemma. Miðað við áætlanir gerir Ágúst ráð fyrir að sláturtíðin verði endaslepp í lok október. Þá reiknar hann með að öðru sláturhúsinu verði lokað og síðasta vikan verði kláruð á hinum staðnum, sem feli í sér betri nýtingu á mannskap. Ekki sé búið að ákveða hvoru sláturhúsinu verði lokað fyrst.

Niðurskurður vegna riðu undanfarin ár hefur haft áhrif á fjölda sláturlamba hjá KS. Bæði vegna þess að sumir innleggjendur detta út á meðan aðrir selja mikinn fjölda líflamba til þeirra sem eru að taka fé aftur, sem sé jákvætt. Ágúst telur að ekki verði mikil aukning í slátrun á fullorðnu fé í ár, eins og var undanfarin haust. Hann veit ekki til þess að neinn innleggjandi hjá honum sé að bregða búi.

Fækkun lamba hefur haft áhrif á rekstur sláturhúsa KS. Óhagkvæmnin eykst um leið og ekki næst full nýting á aðstöðunni. Samdrátturinn sem hefur verið undanfarin ár samsvari því magni sem hefur farið í gegnum eitt af stóru sláturhúsunum. Þó sé fjöldi sláturhúsa í landinu enn sá sami.

Væn lömb á Vopnafirði

Skúli Þórðarson, framkvæmdastjóri Sláturfélags Vopnfirðinga, segir bændur hafa pantað slátrun fyrir 23.000 lömb og 2.300 rollur í ár. Sjö til átta prósent fækkun er á sláturlömbum í ár samanborið við síðasta haust. Sláturtíðina 2022 var 24.800 lömbum og 2.500 fullorðnum ám slátrað. Skúli segir þetta birtingarmynd þess að bændum fari fækkandi eða þeir hafi minnkað við sig.

Sláturtíðin á Vopnafirði stendur yfir í rétt rúmar sex vikur, en áætluð lok eru 23. október. Á hverjum degi er 800 til 840 lömbum slátrað. Skúli segir lömbin vera væn, en þau eru kílói þyngri en í fyrra.

Nokkuð vel hefur gengið að manna en 45 starfsmenn þurfi yfir sláturtíðina. Skúli segir sláturhúsið yfirleitt mannað af fólki af minnst tólf þjóðernum.

Of snemmt að fullyrða um fullorðið

Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Kjarnafæði Norðlenska, segir slátrun enn sem komið er vera sambærilega því sem var í fyrra, en fyrirtækið rekur sláturhúsin á Húsavík og Blönduósi. Í lok dags þann 15. september var samanlagður fjöldi dilka í báðum húsunum kominn í 30.000.

Á Blönduósi er ekki rík hefð fyrir því að bændur panti tíma í slátrun. Of snemmt sé því að fullyrða hversu mikil slátrun verði í haust, en allt bendi til að samdrátturinn verði nálægt fjórum prósentum. Slátrun á fullorðnu er takmörkuð í upphafi sláturtíðar og því lítið að marka tölur hvað það varðar. Meðalþungi dilka er hærri en hann var á sama tíma í fyrra. Ágúst Torfi segir fé virðast hafa átt gott sumar í haga þetta árið.

Sláturtíðin hjá Sláturfélagi Suðurlands (SS) hófst 6. september og eru áætluð lok 31. október. Benedikt Benediktsson, framleiðslustjóri hjá sláturhúsi SS, segir heildarpöntun fyrir lambfé vera 90.000, sem sé þúsund lömbum færra en í sláturtíðinni í fyrra. Í ár stefnir í slátrun á 9.600 fullorðnum ám, samanborið við 11.000 síðasta haust.

Lömbin eru þyngri en í fyrra, en þegar Bændablaðið ræddi við Benedikt var meðalþunginn 17 kíló, samanborið við 16,7 kílógrömm á sama tíma í fyrra.

Skylt efni: sláturtíð

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert
Fréttir 8. desember 2023

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert

Unnt er að spara allt að 1.500 GWst árlega á Íslandi og þar af um 43 GWst í land...

Opnunarhóf í Miðskógi
Fréttir 8. desember 2023

Opnunarhóf í Miðskógi

Byggingu nýs kjúklingahúss í Dölunum er lokið og verður tekið í notkun 1. desemb...

Skilgreina opinbera grunnþjónustu
Fréttir 8. desember 2023

Skilgreina opinbera grunnþjónustu

Unnin hafa verið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu, ásamt greinarg...

Innleiða þarf vistkerfisnálgun
Fréttir 7. desember 2023

Innleiða þarf vistkerfisnálgun

Tímabært þykir að innleiða vistkerfisnálgun á Íslandi með skipulögðum hætti. Fræ...

Verðmætasköpun eykst og mikil sala
Fréttir 7. desember 2023

Verðmætasköpun eykst og mikil sala

Æðarræktarfélag Íslands (ÆÍ) hélt aðalfund að Keldnaholti 18. nóvember. Alls mæt...

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...

Nýr stjórnarformaður
Fréttir 6. desember 2023

Nýr stjórnarformaður

Daði Guðjónsson er nýr stjórnarformaður markaðsstofunnar Icelandic Lamb, sem fer...

Margir fengu vel í soðið
Fréttir 6. desember 2023

Margir fengu vel í soðið

Útlit er fyrir að rjúpnaveiði hafi í ár verið allt að 20% meiri en í fyrra. Meða...